Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7128/2012)

Hinn 21. ágúst 2012 kvartaði A að umhverfisráðuneytið, síðar umhverfis- og auðlindaráðuneytið, hefði ekki brugðist við stjórnsýslukæru frá 9. ágúst 2011 á ákvörðun Umhverfisstofnunar um að hafna beiðni hennar um rannsókn á mögulegri mengun í dýrum af völdum atvinnurekstrar, bréfum frá 28. mars og 18. apríl 2012 þar sem hún óskaði eftir að fá að kynna ráðherra niðurstöður eigin rannsókna og ítrekun á þeirri beiðni frá 8. júlí 2012.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 19. september 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að ráðuneytið hefði nú brugðist við erindum A með bréfi, dags. 29. ágúst 2012, og beint tilteknum tilmælum til Umhverfisstofnunar með bréfi, dags. 27. ágúst 2012, þar sem jafnframt hefði verið óskað eftir viðbrögðum og upplýsingum stofnunarinnar ekki síðar en 27. október 2012. Ráðuneytið hafi hins vegar talið að stjórnsýslukæra A varðaði ekki kæranlega stjórnvaldsákvörðun en hefði veitt A færi á því að koma á framfæri athugsemdum við þá afstöðu áður en endanleg ákvörðun yrði tekin í málinu. Þá hefði verið fundað með A 31. ágúst og 6. september 2012 og henni veitt færi á að kynna niðurstöður rannsókna sinna. Í ljósi þess að erindi A höfðu nú verið afgreidd eða fyrirhugað var að afgreiða þau innan skamms taldi umboðsmaður ekki efni til að aðhafast frekar í málinu að svo stöddu og lauk athugun sinni. Hann tók þó fram að ef úr hófi drægist að afgreiðsla stjórnsýslukæruna væri A að sjálfsögðu heimilt að leita til sín með kvörtun þar að lútandi.