Almannaskráning.

(Mál nr. 7179/2012)

A kvartaði yfir því að Þjóðskrá Íslands geti ekki geymt fullt nafn dóttur hans þar sem hún ber nafn sem inniheldur yfir 32 stafi. Kvörtunin beindist einnig að því að Þjóðskrá Íslands hefði hunsað tilmæli hans um að breyta tölvukerfum þannig að þau gætu geymt rétt nöfn Íslendinga.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að samkvæmt lögum nr. 77/2010 væri Þjóðskrá Íslands nú undirstofnun innanríkisráðuneytisins. Ákvarðanir stofnunarinnar væru því kæranlegar til ráðuneytisins sem auk þess færi með almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir gagnvart henni. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður því rétt að A freistaði þess að bera umkvörtunarefni sitt undir ráðuneytið. Hann lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef A teldi sig enn beittan rangindum að fenginni niðurstöðu innanríkisráðuneytisins gæti hann leitað til sín að nýju.