Örorkulífeyrir. Örorkumat. Breyting á stjórnsýsluframkvæmd. Jafnræðisregla.

(Mál nr. 1127/1994)

A kvartaði yfir því að örorkumat hennar hefði verið lækkað úr 75% í 65% í desember 1992 með þeim rökum að starfshlutfall hennar væri hærra en 25%. Í kjölfar kæru synjaði tryggingaráð um hækkun á örorkumati A með þeim rökum að starfshlutfall og ætlað launahlutfall væri 62% og væri skilyrðum b-liðar 12. gr. almannatryggingalaga því ekki fullnægt. Umboðsmaður taldi að réttur til örorkulífeyris samkvæmt b-lið 12. gr. almannatryggingalaga réðist af því að skerðing eða skortur á starfsgetu eða starfshlutfalli væri a.m.k. 75%. Færi niðurstaða úrskurðar tryggingaráðs því ekki í bága við lagaákvæðið. Hins vegar höfðu aðstæður A verið óbreyttar frá árinu 1981 og hafði örorka hennar verið metin 75% í 13 ár þótt starfshlutfall væri 62%. Taldi umboðsmaður því að skýring tryggingaráðs þess efnis, að örorkumat A hefði verið lækkað vegna hækkaðs starfshlutfalls í starfi sem ekki væri verndað starf, ætti ekki við rök að styðjast. Af athugun á ákvæðum almannatryggingalaga um örorkulífeyri taldi umboðsmaður ljóst að framkvæmd hefði ekki verið í fullu samræmi við orðalag ákvæðanna, sem miðaði við starfshlutfall. Í tilviki A hefði starfshlutfall t.d. ekki undantekningarlaust ráðið örorkustigi. Upplýsingar um undantekningartilvik voru ekki tiltækar, en tryggingalæknir lýsti þeirri vinnureglu, að fólki í minna en hálfu starfi væri metinn örorkulífeyrir, sem og fólki í vernduðu starfi. Fólki í meira en hálfu starfi hefði verið metinn örorkustyrkur. Þá kom fram að undantekning frá b-lið 12. gr. styddist við það sjónarmið að aðstoða bæri þá, sem væru öryrkjar á háu stigi samkvæmt læknisfræðilegum mælikvarða. Vinnustaður A taldist ekki til verndaðra vinnustaða og starfshlutfall hennar hafði alltaf verið hærra en 50% frá því að örorka hennar var fyrst metin. Umboðsmaður taldi því, að undanþága A í 13 ár frá meginreglu b-liðs 12. gr. yrði ekki skýrð með undantekningarreglum þeim sem tryggingaráð vísaði til. Taldi umboðsmaður ekki alveg ljóst hvaða önnur sjónarmið byggju að baki undantekningum frá meginreglunni og að ekki hefði komið nægilega skýrt fram að sömu sjónarmið lægju að baki ákvörðun örorkubóta í einstökum tilvikum. Taldi umboðsmaður ekki verða fullyrt að jafnréttisreglur hefðu verið brotnar í tilviki A, en með hliðsjón af þeirri óvissu sem ríkti taldi umboðsmaður ástæðu til að mælast til þess, að tryggingaráð beitti sér fyrir því að kannað yrði hvort og þá hvers konar undantekningar væru gerðar frá skilyrðum ákvæðisins og síðan leyst úr því hvort á A væri hallað miðað við jafnréttisreglur. Í skýringum tryggingaráðs kom fram að strangari framkvæmd lagaákvæðisins skýrði breytingu á örorkumati A. Upplýsingar um það hvenær þessi breyting átti sér stað eða um hve víðtæka breytingu var að ræða lágu hins vegar ekki fyrir. Umboðsmaður tók af þessu tilefni fram, að þegar stjórnsýsluframkvæmd væri breytt, án þess að til kæmi breyting á réttarreglum, bæri að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau kynntu breytinguna fyrirfram, þannig að þeir aðilar sem málið snerti gætu brugðist við og gætt hagsmuna sinna, sbr. SUA 1989:28 og SUA 1993:29.

I. Hinn 31. maí 1994 leitaði til mín A með kvörtun yfir því, að örorkumat hennar hefði verið lækkað úr 75% niður í 65% í desember 1992 með þeim rökum, að starfshlutfall hennar væri hærra en 25%. A sótti þrisvar sinnum um að fá hækkun á örorkumati sínu upp í 75%, en fékk ávallt synjun hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hún kærði þessar ákvarðanir til tryggingaráðs, sem synjaði um hækkun á örorkumati hennar á ný með úrskurði 3. september 1993. II. Í greinargerð með kvörtun A segir svo um málavexti og aðstæður hennar eftir breytingu örorkumatsins: "Fötlun [A] er í því fólgin Hún hefur verið með 75% örorkumat frá upphafi. Eins og fram hefur komið er fötlunin meðfædd og einkennin hafa haldist óbreytt að því undanskildu að hún finnur nú fyrir auknum álagseinkennum bæði í handleggjum, öxlum og baki. Undanfarið ár hefur [A] bætt við sig vinnu tímabundið til að endar nái saman en hún ræður ekki við það til lengdar. [A] vinnur við afgreiðslustörf í [...]. Hún hefur unnið 62% vinnu í 13 ár samfleytt og verið á 75% örorkumati lengst af. Tekjur hafa örlítið hækkað með aukinni reynslu. Heildartekjur hennar eru nú lægri en þær væru ef hún hætti alveg að vinna og fengi 75% örorkumat. [...] Hún hefur ekki örorkuskírteini og þarf því að greiða fullt gjald fyrir læknisþjónustu, lyf, tannlæknakostnað o.s.frv. [A] er nú í þeirri aðstöðu að hún gæti neyðst til að hætta að vinna. [A] hefur leitað til annarra hreyfihamlaðra einstaklinga til að bera saman bækurnar og virðist hún vera ein á báti í þessari aðstöðu. Þeir sem hafa lækkað í örorkumati eru annað hvort í fullri vinnu eða hafa fullnægjandi tekjur." Örorka A var lækkuð úr 75% í 65% samkvæmt örorkumati, dags. 1. desember 1992. Þar segir: "Fyrir liggur læknisvottorð ..., dags. 5. nóvember 1992. Læknirinn vísar til fyrri vottorða [...]. Segir síðan að fötlun hennar sé að sjálfsögðu alveg óbreytt en hún er fædd með Aftur á móti segir læknirinn hafi orðið nokkur breyting á högum stúlkunnar þar eð hún sé nú flutt til Reykjavíkur [...] og vinni 63% starf í verslun sem sé raunar sama starfshlutfall og hún hafði á [X]. Hún er alltaf í stöðugri sjúkraþjálfun vegna tilhneigingar til vöðvagigtar og verkja í baki. Læknirinn segir henni vegna vel í vinnu og hún sé ánægð og telur að þessi vinna sé trúlega hentugri fyrir hana en sú sem hún áður hafði. [...] Starfsgeta þessarar stúlku er talsvert skert. Örorka 65%. Endurmat fari fram 11.95." Kvartað var yfir framangreindu endurmati til tryggingaráðs 6. júlí 1993 með vísan til þess, að ekki hefðu orðið læknisfræðilegar breytingar og að vinnugeta væri óbreytt frá fyrra mati. Jafnframt var vísað til samræmis og jafnræðissjónarmiða, kröfu A um hækkun örorkumats til stuðnings. Í úrskurði tryggingaráðs frá 3. september 1993 segir meðal annars: "Greinargerð tryggingayfirlæknis er dags. 22. júlí s.l. Með vísan til 12. gr. ATL segir: "Þar sem hún er í 62% starfi og hér er ekki um verndað starf að ræða er ekki lagaheimild til að hækka örorkumat hennar." Greinargerðin hefur verið send lögmanni [A]. Athugasemdir hans eru dags. 10. ágúst s.l. Þar segir: "Samkvæmt bókstaflegri túlkun [tryggingayfirlæknis] ber að lækka örorkumat allra sem hafa 25% starf eða meira. Lögfræðiþjónusta Öryrkjabandalags Íslands telur þessa túlkun í algerri andstöðu við þá réttarvenju sem verður að telja að hafi skapast við mat á örorku skv. ATL. [...] Þrátt fyrir fötlun er [A] í 62% starfi. Ætlað er að launahlutfall sé hið sama. Með hliðsjón af þeim upplýsingum er ljóst, að skilyrðum b-liðar 12. gr. til örorkulífeyris er ekki fullnægt, þar sem atvinnutekjur [A] fara upp fyrir 1/4 almennra launa þeirra sem vinna sambærileg störf. Krafa [A] fyrir tryggingaráði er að fyrra örorkumat standi óhaggað, þ.e. um 75% örorku. Að virtum gögnum um aflahæfi er ekki unnt að verða við þessari kröfu. Því úrskurðast ÚRSKURÐARORÐ: Synjað er beiðni [A] ... um breytingu á örorkumati." III. Ég ritaði tryggingaráði bréf 23. júní 1994 og óskaði þess með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að ráðið sendi mér þau gögn, sem lágu fyrir tryggingaráði við afgreiðslu málsins. Þá óskaði ég eftir upplýsingum um þá framkvæmd, sem skapast hefði við skýringu á b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971 (sbr. nú lög nr. 117/1993), og þeim viðmiðunarreglum, sem farið væri eftir við mat á tilvikum, þar sem örorkumat hefði verið lækkað vegna aflahæfis viðkomandi. Sérstaklega óskaði ég eftir skýringum á tilvitnuðum orðum tryggingayfirlæknis í úrskurði ráðsins: "Þar sem hún er í 62% starfi og hér er ekki um verndað starf að ræða er ekki lagaheimild til að hækka örorkumat hennar." Svar tryggingaráðs barst mér með bréfi, dags. 23. ágúst 1994, ásamt gögnum málsins. Tryggingaráð vísaði í bréfi sínu til bréfs tryggingalæknis, dags. 18. ágúst 1994, um þá framkvæmd, sem skapast hefði við skýringu á b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993. Í því bréfi segir meðal annars svo: "Samkvæmt b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971 (sbr. nú lög nr. 117/1993) eiga þeir menn rétt til örorkulífeyris sem "eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn 1/4 þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa". Undantekning hefur verið gerð frá þessari reglu ef um verndað starf er að ræða. Verndað starf er skilgreint á þann hátt að ekki verði ráðinn nýr starfsmaður fyrir þann sem telst vera í vernduðu starfi hætti hann störfum. Tryggingastofnun er heimilt að veita örorkustyrk þeim, sem skortir a.m.k. helming starfsorku sinnar og uppfyllir skilyrði 1. mgr. 12. gr. að öðru leyti en því er örorkustig varðar. Örorkustyrk má ennfremur veita þeim sem stunda fullt starf en verður fyrir verulegum aukakostnaði sökum örorku sinnar. Hér er um að ræða konu sem er í meira en 25% starfi og hefur henni verið metinn örorkustyrkur skv. ofangreindu. Að mati undirritaðs er æskilegt að breyta lögum um almannatryggingar á þann hátt að mikið fatlaðir einstaklingar njóti þeirra hlunninda er örorkulífeyrisþegar hafa þ.e. möguleika á heimildaruppbótum s.s. heimilisuppbót, uppbót á lífeyri svo og ódýrari lyf, læknishjálp og heilsugæslu, undanþágur frá greiðslu afnotagjalda ríkisútvarps, útvarps og sjónvarps svo og niðurfellingu fastagjalds fyrir síma þótt þeir hafi vinnugetu umfram fjórðung (25%). [...]" Með bréfi, dags. 25. ágúst 1994, gaf ég A kost á því að gera athugasemdir við framangreind bréf tryggingaráðs og tryggingayfirlæknis. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 28. október 1994. Ég ritaði tryggingaráði bréf 8. nóvember 1994. Vísaði ég þar til þess, að í kvörtun A kæmi fram, að hún hefði unnið 62% vinnu í 13 ár samfleytt og verið metin 75% öryrki lengst af, eða þar til örorka hennar var lækkuð í 65% með endurmati 1. desember 1992, þrátt fyrir að hvorki læknisfræðilegar né félagslegar forsendur hennar hefðu breyst. Ég óskaði þess, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að tryggingaráð léti mér í té nánari skýringar varðandi eftirfarandi atriði: "1. Um tildrög að breytingu á örorkumati [A]. Er þá meðal annars átt við, hvaða forsendur lágu þar til grundvallar, þ. á m. hvort sú breyting hafi byggst á breyttum reglum hjá stofnuninni, og þá hvaða reglum. "2. Óskað er nánari skýringa á forsendum þess, að aðeins þeir, sem eru í verndaðri vinnu geti verið undanþegnir reglu b-liðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og við hvaða lög eða reglur sú framkvæmd styðst. "3. Þá er óskað upplýsinga um þau tilvik þar sem öryrkjum hefur verið veitt undanþága frá b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993. Í þeim upplýsingum komi meðal annars fram starfshlutfall og örorkustig viðkomandi einstaklinga." Svar tryggingaráðs barst mér með bréfi, dags. 28. desember 1994. Segir þar meðal annars: "1. [...] Ekki er um að ræða neinar breyttar reglur hjá stofnuninni varðandi örorkumat. Skv. upplýsingum frá læknadeild er lagaákvæði nú strangar fylgt en áður. Samkvæmt gögnum læknadeildar naut [A] barnaörorku frá 1. ágúst 1971, - styrks III. Við 16 ára aldur fór fram endurmat og var [A] þá metin 75% öryrki og naut örorkulífeyris. Hún var talin í 50% starfi. Frá 1. desember 1992 var örorkumat lækkað í 65% vegna hækkaðs starfshlutfalls enda þá í 62% starfi hjá [...] og var ekki talið að um verndað starf væri að ræða. 2. [...] Reynt hefur verið að aðstoða sjúka/fatlaða við að koma sér út í lífið. Því hafa læknar stofnunarinnar ákvarðað örorkulífeyri til öryrkja í framhaldsmenntun, t.d. iðnskóla. Með sömu rökum hefur verið litið fram hjá starfshlutfalli þeirra, sem starfa á vernduðum vinnustöðum, sjá reglugerð nr. 329/1983 um verndaða vinnustaði. Til að aðstoða enn fleiri sem teljast læknisfræðilega 75% öryrkjar hefur við ákvörðun á vernduðu starfi verið litið svo á, að um verndað starf væri að ræða ef ekki hefur verið ráðið í starfið á ný við starfslok þess sjúka/fatlaða við eðlilegar aðstæður í þjóðfélaginu. B-liður 1. mgr. 12. gr. er engu að síður afdráttarlaus. Litið er [svo] á [að] starfshlutfall sé sambærilegt tekjuhlutfalli. Starfshlutfall fellir því margan á hinum almenna vinnumarkaði niður í mati. Svo sem fram kemur í meðfylgjandi bréfi tryggingaráðs til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 16. ágúst 1994 var óskað álits ráðuneytisins á því hvort við örorkumat mætti leggja ríkari áherslu á læknisfræðina með hliðsjón af tekjutengingarákvæði lokamálsgreinar 12. greinar. Því var hafnað sbr. bréf ráðuneytisins dags. 23. ágúst 1994. 3. Þá er óskað upplýsinga um þau tilvik þar sem öryrkjum hefur verið veitt undanþága frá b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993 og að fram komi starfshlutfall og örorkustig. Tryggingaráð óskaði fyrr á árinu þeirra upplýsinga, sem hér er um beðið. Þær hafa ekki enn borist og er því að svo stöddu ekki unnt að veita umbeðnar upplýsingar." Tilvitnað bréf heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 23. ágúst 1994, fylgdi bréfi tryggingaráðs. Í bréfi ráðuneytisins er vísað til orðalags b-liðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993. Af því megi sjá, að örorkulífeyrismat samkvæmt ákvæðinu sé "ekki læknisfræðilegt heldur fyrst og fremst mat á því hvað ætla [megi] að hlutaðeigandi eigi að geta unnið sér inn í samanburði við aðra sem heilbrigðir eru á sama svæði". Telur ráðuneytið því að framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins við örorkumöt sé í samræmi við það, sem lög geri ráð fyrir. Með bréfi, dags. 4. janúar 1995, gaf ég A kost á því að gera athugasemdir við bréf tryggingaráðs. Athugasemdir hennar bárust með bréfi, dags. 14. febrúar 1995. Segir þar meðal annars, að A hafi aldrei verið í 50% starfi, heldur hafi starfshlutfall hennar ætíð verið 62,5%. Hafi hún tilgreint það við umsókn um örorkumat og jafnframt þegar mál hennar hafi farið fyrir tryggingaráð. Sé það í fyrsta sinn í bréfi tryggingaráðs frá 28. desember 1994, sem þessi rök séu tilgreind fyrir breyttu örorkumati. Ég ritaði tryggingaráði bréf 21. mars 1995. Vísaði ég þar til þess, að í bréfi ráðsins frá 28. desember 1994 kæmi fram, að upplýsingar hefðu enn ekki borist tryggingaráði um tilvik, þar sem öryrkjum hefði verið veitt undanþága frá b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og því væri "að svo stöddu ekki unnt að veita umbeðnar upplýsingar". Óskaði ég þess, að tryggingaráð léti mér upplýsingar þessar í té, ef þær lægju nú fyrir, og væri svo ekki, þá óskaði ég upplýsinga um, hvenær þeirra væri að vænta. Þá vísaði ég til þess, að í athugasemdum A við bréf tryggingaráðs frá 28. desember 1994 kæmi fram, að A hefði aldrei verið í 50% starfi, heldur hefði starfshlutfall hennar ætíð verið 62,5%. Með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, óskaði ég þess, að tryggingaráð skýrði afstöðu sína til þessa atriðis í bréfi A. Svar tryggingaráðs barst mér með bréfi, dags. 28. mars 1995, þar sem meðal annars kemur eftirfarandi fram: "Óskað er upplýsinga um þau tilvik þar sem öryrkjum hefur verið veitt undanþága frá b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Svo og upplýsinga um starfshlutfall og örorkustig viðkomandi einstaklinga. Upplýsingar þessar liggja enn ekki fyrir og ekki verður séð að þær muni liggja fyrir í nánustu framtíð. Varðandi athugasemdir um starfshlutfall [A] sendast læknisvottorð sem vonandi varpa ljósi á örorkumatið." Ég ritaði tryggingaráði bréf 25. apríl 1995 og óskaði þess, með vísan til 9. gr. laga nr. 13/1987, að tryggingaráð skýrði ástæður þess, að nú væri ekki unnt að veita upplýsingar um þau tilvik, þar sem öryrkjum hefði verið veitt undanþága frá b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, svo og upplýsingar um starfshlutfall og örorkustig viðkomandi einstaklinga. Svar tryggingaráðs barst mér með bréfi, dags. 14. júní 1995. Segir þar meðal annars svo: "Á fundi þeim er tryggingaráð óskaði ofangreindra upplýsinga töldu starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins, þeir er sátu fundinn og málið varðaði, að unnt væri að veita framangreindar upplýsingar. Síðar upplýstist að undanþágutilvik þessi hafa hvorki verið sérmerkt í tölvukerfinu né hefur þeim sérstaklega verið haldið til haga á annan hátt. Því er útilokað að finna þau öðruvísi en að fara í gegnum hvert mál fyrir sig, en málin skipta þúsundum." Í bréfi til tryggingaráðs, dags. 12. desember 1995, sem ítrekað var með bréfi 28. febrúar 1996, óskaði ég eftir því, að tryggingaráð skýrði nánar afstöðu sína til kvörtunar A. Í því sambandi óskaði ég upplýsinga um eftirgreind atriði: "1. Í launayfirliti vinnuveitanda [A] á [X] kemur fram, að starfshlutfall hennar þar hafi verið 62,5%. Þá kemur fram í læknisvottorðum, dags. 5. nóvember 1992 og 6. desember 1993, að starfshlutfall hennar hjá [...] í Reykjavík sé 62%, eða nánast hið sama og hún hafði unnið á [X]. Í bréfi mínu 21. mars 1995 óskaði ég eftir afstöðu tryggingaráðs til athugasemda [A] varðandi starfshlutfall hennar. Í bréfi tryggingaráðs 28. mars 1995 er vísað til læknisvottorða varðandi athugasemdir um starfshlutfall. Þar sem tilvitnuð læknisvottorð bera ekki með sér að breyting á starfshlutfalli geti verið grundvöllur lækkunar örorkumats, óskast upplýst, hvort lækkun örorkumats [A] sé einungis til komin vegna breyttrar framkvæmdar á ákvæðum 12. gr. laga nr. 117/1993. Ef svo er, óskast upplýst, hvaða sjónarmið lágu til grundvallar þessari breytingu á framkvæmd svo og hvort, og þá hvernig, hún hafi verið kynnt. 2. Í örorkumati, dags. [1. desember 1992], kemur fram, að starfshlutfall [A] sé 63% og örorka hennar metin 65%. Í því sambandi óskast upplýst, hvaða reglum sé beitt um lækkun örorkumats. Sérstaklega óskast upplýst hvort og þá með hvaða hætti læknisfræðilegir þættir komi til athugunar við mat örorku samkvæmt 12. gr. laga nr. 117/1993. Komi læknisfræðilegir þættir ekki til álita, óskast upplýst, hvort önnur sjónarmið en starfshlutfall hafi þar áhrif og þá hver. 3. Af bréfum tryggingaráðs frá 14. júní 1995 verður ráðið, að vandkvæðum sé bundið að finna fjölda undanþágutilvika frá b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, þar sem þau hafi "hvorki verið sérmerkt í tölvukerfinu né hefur þeim sérstaklega verið haldið til haga á annan hátt," eins og segir í bréfinu. Af þessu tilefni óska ég eftir upplýsingum um, við hvaða sjónarmið hafi verið stuðst, er veittar hafa verið undanþágur samkvæmt nefndu ákvæði, þegar ekki er um verndaða vinnustaði að ræða. 4. Loks óskast upplýst, hvort og þá hvaða áhrif tilkoma ákvæðis um tekjutengingu örorkulífeyris, sbr. 14. gr. laga nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, hafi haft á framkvæmd 12. gr. laga nr. 117/1993." Með bréfi tryggingaráðs, dags. 4. mars 1996, fylgdi greinargerð tryggingalæknis, dags. 8. janúar 1996, sem svar við umbeðnum upplýsingum. Í bréfi tryggingalæknis er rakin meðferð máls A frá því örorka hennar var fyrst metin 6. júlí 1981. Í bréfinu kemur fram, að þá hafi tryggingayfirlæknir metið örorku hennar meiri en 75% frá sextán ára aldri. Í matinu segi, að sérstök vinna í vernduðu umhverfi kæmi hugsanlega til greina, en þar til vinna við hæfi hafi fundist, þyki eðlilegt að hún njóti örorkulífeyris. Samkvæmt bréfi tryggingalæknis mat tryggingayfirlæknir starfsgetu A svipaða og örorku 75%, allt til október 1986, á grundvelli læknisvottorða, sem segi, að hægt væri að finna starf betur við hennar hæfi, en hins vegar sjálfsagt, að hún ákveði sjálf, hvaða störf hún vilji reyna. Í örorkumati 17. nóvember 1986 hafi örorka hins vegar verið metin 65%, samkvæmt læknisvottorði, dags. 7. nóvember 1986, þar sem fram komi, að ekki hafi orðið breytingar á heilsufari stúlkunnar frá því síðasta vottorð hafi verið skrifað, og að ætla megi að starfsgeta hennar væri meiri, ef hún fengi starf sem hentaði henni betur en verslunarstörf. Loks kemur fram í umræddu bréfi tryggingayfirlæknis frá 8. janúar 1996, að tryggingayfirlæknir hafi endurskoðað síðastgreint mat sitt 15. desember 1986, í tilefni bréfs ..., læknis, þar sem lögð hafi verið áhersla á mikla sjálfsbjargarviðleitni stúlkunnar, sem vinni hálfs dags starf í verslun, en veitist starfið nokkuð erfitt vegna fötlunar og þjáist af gigt í herðum og baki. Taldi tryggingayfirlæknir mat hennar 65% vera ríflegt, en "með tilliti til þess að þessi stúlka hefur umtalsverðan kostnað af læknishjálp og þjálfun til þess að geta stundað það starf sem hún gegnir [þótti] rétt að hækka mat hennar að sinni". Var örorkumat hækkað í 75% á ný. Hélst það óbreytt fram til endurmats tryggingayfirlæknis 1. desember 1992. Að því er varðar fyrirspurnir mínar frá 12. desember 1995, um framkvæmd ákvæða 12. gr. laga nr. 117/1993, segir svo í bréfi tryggingalæknis: "... sá skilningur hefur ávallt verið ríkjandi að beinast liggi við að skilja lagagreinina svo, "að til grundvallar örorkumati lífeyrisþega skuli leggja starfsgetu hans við þau störf, er hann getur leyst af hendi, en það eigi ekki að leggja mat á sjúkdómsástand í sjálfu sér, heldur aðeins hvern þátt það á í minnkuðum vinnuafköstum og tekjuöflunarhæfni." ([B], Slysatrygging og örorkumat slasaðra ...) Í þessu sambandi má einnig vitna til greinar [C], tryggingafræðings, þar sem segir: "Örorku samkvæmt þessu ákvæði . ... á greinilega að meta með tilliti til færni eða hæfni til öflunar vinnutekna." ([C]: Bætur fyrir lífs- og líkamstjón ...) Eins og fram kemur í sömu málsgrein tilvitnaðrar greinar [C] hefur tryggingayfirlæknir ekki farið alfarið eftir þessari lagagrein. Það hefur yfirleitt verið vinnuregla tryggingalækna, að meta fólki, sem er í minna en hálfu starfi örorkulífeyri. Vinni viðkomandi meira en hálft starf er reglan sú að meta honum örorkustyrk, sé ekki um að ræða verndaða vinnu. Skilgreining á verndaðri vinnu hefur verið að ekki muni verða ráðinn annar starfskraftur í stað þess, sem um er að ræða, leggi hann niður störf. Eins og fram kemur af ofangreindri tilvitnun í grein [B], þáverandi tryggingayfirlæknis, hefur fram að þessu ekki verið gerður munur á hugtökunum örorkumat og bótaréttur. Þó sýnist svo, sem tekjuskerðingarákvæði 12. gr. almannatryggingalaga geri það kleift, og þar með tryggingalæknum mögulegt að leggja frekar til grundvallar læknisfræðilega örorku en ekki fjárhagslega, eins og augljóslega hefur verið ætlast til fram að þessu. Engum blöðum er um það að fletta, að læknisfræðileg örorka [A] er 75%. Undirritaður telur, að örorkumat [A] hafi í raun verið hærra en lög standa til allt frá því að ljóst var, að hún var hætt námi og í starfi á almennum vinnumarkaði og byggði mat sitt þann 1. [desember] 1992 á framangreindri túlkun [B] og þeirri staðreynd, að ekki var um verndaða vinnu að ræða." Með bréfi 11. mars 1996, sem ítrekað var 9. maí 1996, óskaði ég eftir að A sendi mér þær athugasemdir sem hún teldi ástæðu til að gera í tilefni framangreindra bréfa. Í athugasemdum hennar, dags. 18. júní 1996, segir: "Í greinargerð [tryggingalæknis] er staðfest að líkamleg (læknisfræðileg) örorka [A] sé óumdeilanlega 75%. Mat lækna tryggingaráðs hafi þó verið nokkuð á reiki vegna mismunandi túlkunar þeirra á rétti til örorkubóta, og er þá m.a. átt við vægi "tekjuöflunarhæfni" viðkomandi, auk þess sem hin svokallaða 50% "vinnuregla" (plús, mínus hálft starf) hafi vafist fyrir mönnum. Ekki verður annað séð en að meginniðurstaða [tryggingalæknis] sé, að tekjuskerðingarákvæði 12. greinar almannatryggingalaga geri tryggingalæknum nú kleift, að grundvalla örorkumat á læknisfræðilegum forsendum fyrst og fremst (fremur en fjárhagslegum) og er það fagnaðarefni. Í samræmi við þetta má því álykta að, "vinnuregla" tryggingalækna, þar sem gerður er greinarmunur á örorkulífeyri og örorkustyrk, eigi ekki lengur við. Sé skilningur okkar réttur, ætti þar af leiðandi ekkert að vera því til fyrirstöðu, að [A] fái leiðréttingu sinna mála í samræmi við áður frambornar óskir (einnig aftur í tímann). [...]" Ég ritaði tryggingaráði bréf 4. júlí 1996 og óskaði eftir að tryggingaráð sendi mér þær athugasemdir, sem það teldi ástæðu til að gera í tilefni bréfs A. Svarbréf tryggingaráðs, dags. 10. júlí 1996, hljóðar svo: "Samkvæmt upplýsingum læknadeildar Tryggingastofnunar ríkisins hafa vinnureglur lækna ekkert breyst svo sem ályktað er í bréfi [A] frá 18. júní 1996. Óumdeilt er að læknisfræðileg örorka [A] er a.m.k. 75%. Við ákvörðun örorku skv. 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, koma fleiri þættir til álita svo sem vinnugeta/vinnuframlag. Eins og áður hefur komið fram og gögn sýna óskaði tryggingaráð eftir áliti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á því hvort breyta mætti túlkun 1. mgr. 12. gr. á þá vegu að læknisfræðileg örorka vægi þyngra eftir að tekjutengingarákvæði 3. mgr. 12. gr. tók gildi. Svar ráðuneytisins var á þá vegu að framkvæmd við örorkumöt skyldi vera óbreytt." Örorka A var endurmetin 12. október 1995, eins og mælt er fyrir um í örorkumatinu frá 1992. Með vísan til aðstæðna hennar er öroka metin óbreytt, þ.e. 65%, og mælt með hæsta leyfilega örorkustyrk. IV. Í forsendum og niðurstöðu álits míns, frá 20. nóvember 1996, segir: "1. Eins og rakið hefur verið hér að framan, byggir tryggingaráð synjun sína um hækkun örorkumats frá endurmati tryggingayfirlæknis frá 1. desember 1992, á svohljóðandi ákvæði b-liðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971, sbr. nú laga nr. 117/1993, um almannatryggingar: "Rétt til örorkulífeyris eiga þeir menn sem lögheimili eiga á Íslandi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, eru á aldrinum 16-67 ára og: a. [...] b. eru öryrkjar til langframa á svo háu stigi að þeir eru ekki færir um að vinna sér inn 1/4 þess er andlega og líkamlega heilir menn eru vanir að vinna sér inn í því sama héraði við störf sem hæfa líkamskröftum þeirra og verkkunnáttu og sanngjarnt er að ætlast til af þeim með hliðsjón af uppeldi og undanfarandi starfa." Samkvæmt framangreindu ákvæði er réttur til örorkulífeyris háður því, að viðkomandi sé ekki fær um að vinna sér inn 25% af launum eftir tiltekinni viðmiðun ákvæðisins, þ.e. launahlutfalli. Tryggingaráð telur, að með hliðsjón af starfshlutfalli A, þ.e. 62%, sé ekki lagaheimild til að hækka örorkumat hennar, en ráðið gerir ráð fyrir því að launahlutfall jafngildi starfshlutfalli. Ég tel rétt að víkja að forsögu ákvæðisins að þessu leyti, en frá upphafi hefur hlutfall launa í framkvæmd verið viðmiðun samkvæmt ákvæði þessu. Í 52. gr. laga nr. 26/1936 og laga nr. 74/1937, um alþýðutryggingar, er að finna skilgreiningu á því, hverjir skuli eiga rétt til örorkulífeyris samkvæmt lögunum, þ.e. þeir, sem ekki eru lengur færir um ..., að vinna sér inn helming þess er andlega og líkamlega heilbrigðir menn eru vanir að vinna sér inn í sama héraði. Skilgreining samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 50/1946 var sú sama, en samsvaraði hins vegar 12. gr. núgildandi laga hvað launahlutfall varðar, þ.e. 1/4. Í athugasemdum við 2. mgr. 18. gr. í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 50/1946, segir, að réttur til örorkulífeyris sé bundinn við 75% örorku. Að öðru leyti sé skilgreining á því, hverjir eigi rétt til örorkulífeyris, að mestu óbreytt frá því, sem sé í alþýðutryggingalögunum. Samkvæmt framansögðu tel ég ljóst, að réttur til örorkulífeyris samkvæmt b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, sbr. nú lög nr. 117/1993, hafi ráðist af því, að skerðing eða skortur á starfsgetu eða starfshlutfalli væri a.m.k. 75%. Tel ég, að niðurstaða úrskurðar tryggingaráðs frá 3. september 1993 fari ekki í bága við b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971. 2. Samkvæmt gögnum málsins hefur örorka A verið metin 75% frá árinu 1981, með þeirri undantekningu, að í endurmati í nóvember 1986 var hún metin 65%. Það mat var hins vegar hækkað á ný í 75% í desember sama ár. Samkvæmt kvörtun A hafa hvorki orðið breytingar á læknisfræðilegum eða félagslegum forsendum fyrra örorkumats, enda starfshlutfall hennar hið sama á tímabilinu. Jafnframt telur hún, að samræmis- og jafnræðissjónarmiða hafi ekki verið gætt við ákvörðun réttar einstaklinga til örorkulífeyris samkvæmt 12. gr. almannatryggingalaga. Eins og fram hefur komið hér að framan, byggir tryggingaráð niðurstöðu sína í málinu á því, að samkvæmt orðalagi ákvæðisins beri að meta rétt til örorkulífeyris með hliðsjón af færni eða hæfni viðkomandi til öflunar vinnutekna. Í bréfi mínu 23. júní 1994 óskaði ég upplýsinga um þá framkvæmd, sem mótast hefði við skýringu umrædds ákvæðis, og með sérstakri vísan til þess, að aðstæður A hefðu verið óbreyttar í 13 ár, óskaði ég með bréfi 8. nóvember 1994 eftir því, að tryggingaráð léti mér í té nánari skýringar og upplýsingar um þær forsendur, er legið hefðu til grundvallar breytingu á örorkumati hennar. Í svarbréfi tryggingaráðs er vísað til bréfs tryggingayfirlæknis frá 18. ágúst 1994. Þar segir, að undantekning hafi verið gerð frá þeirri reglu, að ákveða örorku með hliðsjón af starfshlutfalli, ef um verndað starf hafi verið að ræða. Þá segir í bréfi tryggingaráðs, dags. 28. desember 1994, að breyting á örorkumati A hafi ekki byggst á breyttum reglum, en lagaákvæðinu sé nú strangar fylgt en áður. Jafnframt segir í bréfi tryggingaráðs, að örorkumat A hafi verið lækkað vegna hækkaðs starfshlutfalls í starfi, sem ekki væri talið verndað starf. Ég tel ljóst af gögnum málsins, að síðastgreind skýring tryggingaráðs, að um hækkað vinnuhlutfall hafi verið að ræða, eigi ekki við rök að styðjast. Skýringar tryggingaráðs, sem og önnur gögn í máli þessu, gefa hins vegar til kynna, að í framkvæmd hafi verið vikið frá umræddu ákvæði, sem hefur haldist nánast óbreytt frá því fyrst var kveðið á um rétt til örorkulífeyris. Af því tilefni tel ég rétt að víkja að sögu ákvæðisins með tilliti til framkvæmdar þess. Samkvæmt fyrstu ákvæðum um rétt til örorkulífeyris í lögum nr. 26/1936, um alþýðutryggingar, skyldi örorkulífeyrir lækka með hækkandi tekjum og falla niður, ef tekjur færu yfir tiltekið hámark, hvað sem örorkumati liði. Slík tekjuskerðingarákvæði voru í gildi allt til ársins 1961, sbr. t.d. 22. gr. laga nr. 24/1956. Á framangreindu tímabili komst á sú hefð hjá Tryggingastofnun ríkisins, að meta örorku eftir læknisfræðilegum mælikvarða, þ.e. mati læknis á sjúkdómsástandi og líklegri starfsorku. Voru því ekki bein tengsl milli athugana læknis á sjúkdómsástandi og vinnugetu. Margir voru því metnir 75% öryrkjar, en fengu engan lífeyri vegna tekjutengingarinnar. Þegar tekjuskerðingarákvæði voru felld niður, var hins vegar farið að leggja áherslu á raunverulega þekkta vinnugetu og afstaða til örorkustigs tekin með tilliti til sjúkdóms og vinnugetu viðkomandi (sjá um þetta efni: Páll Sigurðsson: Örorkumöt, Tímarit lögfræðinga, 2. hefti 1972). Athygli er hér vakin á því, að með lögum nr. 1/1992, um ráðstafanir í ríkisfjármálum á árinu 1992, var aftur tekið ákvæði í almannatryggingalög um að örorkulífeyri skyldi skerða, færu árstekjur upp fyrir ákveðin mörk. Í 13. gr. laga nr. 40/1963, um almannatryggingar, voru gerðar smávægilegar orðalagsbreytingar frá eldri ákvæðum um örorkulífeyri. Ljóst er af athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi því, sem varð að framangreindum lögum, að talið var, að misræmi hefði verið milli orðalags ákvæðisins og framkvæmdar þess. Þar segir meðal annars svo: "...breytingin er gerð til þess, að orðalag greinarinnar verði í betra samræmi við framkvæmd en nú er. Hæpið er að nefna alla þá, sem örorkulífeyris njóta varanlega öryrkja á svo háu stigi, sem tiltekið er í lögunum. Munu einkum tvær ástæður liggja til þess, að ekki hefur verið fylgt stranglega orðalagi laganna. Vegna framfara í læknavísindum valda ýmsir sjúkdómar nú sjaldan varanlegri örorku, þótt slíkt hafi verið algengt fyrir aldarfjórðungi, en við örorkumat hefur ekki verið tekið tillit til hinna breyttu aðstæðna, og í öðru lagi er oft knýjandi þörf fyrir fjárhagsaðstoð vegna langvarandi veikinda, eftir að greiðsla sjúkradagpeninga fellur niður." (Alþt. 1962, A-deild, bls. 1144-5.) Af framangreindu tel ég ljóst, að framkvæmdin hafi ekki alveg verið í samræmi við umrætt ákvæði almannatryggingalaga, þrátt fyrir þá stefnubreytingu, sem lýst er hér að framan. Niðurstaða tryggingaráðs í máli því, sem hér um ræðir, virðist þó vera í samræmi við sjónarmið um breytta framkvæmd þess, eftir að tekjuskerðingarákvæði voru felld úr lögunum, þ.e. að örorku skyldi meta með tilliti til hæfni til tekjuöflunar. Hins vegar tel ég gögn málsins og ýmsar fyrirliggjandi upplýsingar um framkvæmd ákvæðisins eftir 1961 benda til þess, að mat á örorku hafi í raun ekki ávallt verið í fullu samræmi við þá skýringu ákvæðisins. Eins og fram hefur komið hér að framan, var örorka A í 13 ár metin 75%, þrátt fyrir að starfshlutfall hennar væri 62%. Með tilvísun til þess, að starfshlutfall hefur ekki undantekningarlaust ráðið örorkustigi í tilviki A, óskaði ég upplýsinga frá tryggingaráði í bréfi mínu frá 12. desember 1995, hvort læknisfræðilegir þættir hefðu komið til athugunar við mat örorku samkvæmt 12. gr. laga um almannatryggingar, og ef svo væri ekki, óskaði ég upplýst, hvort önnur sjónarmið en starfshlutfall hefðu þar áhrif og þá hver. Í bréfi tryggingalæknis, dags. 8. janúar 1996, sem tryggingaráð vísar til, meðal annars vegna framangreindrar spurningar, er staðfest, að læknisfræðileg örorka A sé óumdeilanlega 75%. Í bréfinu er ekki að finna bein svör við framangreindri spurningu minni. Hins vegar er meðferð máls A rakin, eins og að framan hefur verið lýst. Þar kemur meðal annars fram, að umtalsverður kostnaður af læknishjálp og þjálfun, til þess að geta stundað það starf, er hún gegni, hafi legið að baki þeirri ákvörðun tryggingayfirlæknis, að endurskoða örorku A á árinu 1986 og færa hana aftur til 75%. Af því verður ráðið, að önnur sjónarmið en starfshlutfall hafi haft áhrif á ákvörðun örorku hennar samkvæmt ákvæðinu. Sama ályktun verður dregin af bréfi tryggingaráðs til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, dags. 16. ágúst 1994, en þar segir meðal annars: "Við framkvæmd örorkumata hefur verið litið til læknisfræðilegs svo og félagslegs þáttar. Einstaklingur sem læknisfræðilega er 75% öryrki en er í vinnu (starfshlutfall t.d. 50-100%) hefur jafnan fengið örorkustyrk, en ekki lífeyri og því orðið af ýmsum lífeyristengdum réttindum." Í bréfi tryggingaráðs frá 10. júlí 1996 segir ennfremur, að við ákvörðun örorku skv. 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, komi fleiri þættir en læknisfræðileg örorka til athugunar, svo sem vinnugeta/vinnuframlag. Samkvæmt framangreindu er það skoðun mín, að við ákvörðun örorku, með tilliti til réttar til örorkulífeyris samkvæmt b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, hafi í framkvæmd ekki eingöngu verið tekið tillit til starfshlutfalls. 3. Samkvæmt framansögðu, skil ég skýringar tryggingaráðs í málinu svo, að það sé meginregla við túlkun b-liðar 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, að höfð skuli hliðsjón af starfshlutfalli. Í málinu hefur hins vegar komið fram, að framangreind meginregla er ekki án undantekninga. Samkvæmt skýringum tryggingaráðs eru upplýsingar um slík undantekningartilvik ekki tiltækar. Af því tilefni óskaði ég eftir upplýsingum um, við hvaða sjónarmið hefði verið stuðst, er slíkar undantekningar hefðu verið gerðar. Í bréfi tryggingalæknis 8. janúar 1996 kemur fram, að það hafi yfirleitt verið vinnuregla tryggingalækna, að meta fólki, sem hafi verið í minna en hálfu starfi, örorkulífeyri. Vinni viðkomandi meira en hálft starf, sé reglan sú, að meta honum örorkustyrk, sé ekki um að ræða verndaða vinnu. Í bréfi mínu 8. nóvember 1994 óskaði ég nánari skýringa á forsendum þess, að aðeins þeir, sem eru í verndaðri vinnu, geti verið undanþegnir reglu b-liðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og við hvaða lög eða reglur sú framkvæmd styðjist. Samkvæmt svarbréfi tryggingaráðs, dags. 28. desember 1994, hefur verið litið fram hjá starfshlutfalli þeirra, sem starfa á vernduðum vinnustöðum, með það fyrir augum, að aðstoða sjúka/fatlaða við að "koma sér út í lífið". Síðan segir í bréfinu: "Til að aðstoða enn fleiri sem teljast læknisfræðilega 75% öryrkjar hefur við ákvörðun á vernduðu starfi verið litið svo á, að um verndað starf væri að ræða ef ekki hefur verið ráðið í starfið á ný við starfslok þess sjúka/fatlaða við eðlilegar aðstæður í þjóðfélaginu. B-liður 1. mgr. 12. gr. er engu að síður afdráttarlaus. Litið er svo á sem starfshlutfall sé sambærilegt tekjuhlutfalli. Starfshlutfall fellir því margan á hinum almenna vinnumarkaði niður í mati." Samkvæmt framansögðu styðst undantekning frá annars "afdráttarlausu" ákvæði 12. gr. laga um almannatryggingar við það sjónarmið, að aðstoða beri þá, sem eru öryrkjar á háu stigi samkvæmt læknisfræðilegum mælikvarða. Í skýringum tryggingaráðs er að finna skilgreiningu á því, hvað telja beri til verndaðra vinnustaða, sem falli undir undanþáguna. Hvað umræddar undantekningar varðar, segir í bréfi tryggingalæknis, að það hafi yfirleitt verið vinnuregla tryggingalækna, að meta fólki, sem sé í minna en hálfu starfi, örorkulífeyri. Vinni viðkomandi meira en hálft starf, sé reglan sú, að meta honum örorkustyrk, sé ekki um verndaða vinnu að ræða. Samkvæmt framansögðu er þessari undantekningarreglu "yfirleitt" beitt, en ekki er ljóst, hvaða sjónarmið búi nánar að baki ákvörðun um undantekningu á þessum grundvelli í einstökum tilvikum. Samkvæmt ákvæði 13. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að veita örorkustyrk þeim, sem skortir að minnsta kosti helming starfsorku sinnar og uppfyllir skilyrði 1. mgr. 12. gr. að öðru leyti en því, er örorkustig varðar. Ennfremur má veita örorkustyrk þeim, sem stundar fullt starf, en verður fyrir verulegum aukakostnaði sökum örorku sinnar. Ég tel ljóst, að undanþága þeim til handa, sem stunda minna en 50% vinnu, byggist á sömu sjónarmiðum og undanþága á grundvelli þess, að um verndaða vinnustaði sé að ræða, þ.e. að aðstoða þá, sem vegna örorku sinnar hafa skert hæfi til að afla sér tekna. Þeir sem hafi meira en 50% vinnugetu eigi kost á örorkustyrk, sem bæti þeim aukakostnað vegna örorku sinnar. A hefur, eins og oftlega hefur komið fram hér að framan, unnið meira en 50% vinnu allt frá því örorka hennar var metin fyrst. Ákvæði um örorkustyrk hefur verið óbreytt, hvað starfshlutfall varðar, frá því það kom fyrst inn í lög um almannatryggingar með bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 50/1949. Ákvæði um örorkustyrk skýrir því ekki síðari breytingu á örorkumati hennar. 4. Vinnustaður A telst ekki til verndaðra vinnustaða samkvæmt þeirri skilgreiningu, sem tryggingaráð vísar til og fjallað hefur verið um hér að framan. Þá hefur starfshlutfall hennar ávallt verið yfir 50%. Undanþága A í 13 ár frá þeirri meginreglu, sem samkvæmt skýringum í málinu er talin afdráttarlaus, verður því ekki skýrð með þeim undantekningarreglum, sem tryggingaráð vísar til og fjallað er um í kafla 3 hér að framan. Tryggingaráð og tryggingayfirlæknir hafa í svörum sínum vísað til meginreglu ákvæðis b-liðar 12. gr. laga nr. 117/1993 og lagt áherslu á, að sjónarmið, sem byggist á læknisfræðilegum eða félagslegum ástæðum, komi þar almennt ekki til athugunar. Samkvæmt skýringum tryggingaráðs og tryggingalæknis, sem raktar eru í kafla 2, virðast slík sjónarmið hins vegar að einhverju leyti hafa haft áhrif á ákvörðun örorku A samkvæmt ákvæðinu. Með vísan til framangreinds tel ég, að ekki sé alveg ljóst, hvaða sjónarmið, önnur en þau, sem rakin eru í kafla 3, búi að baki undantekningu frá þeirri meginreglu umrædds ákvæðis, að starfsgeta ráði örorkumati. Er það því skoðun mín, að ekki hafi komið nægilega skýrt fram, að sömu sjónarmið liggi að baki ákvörðun örorkubóta í einstökum tilvikum. Þá vísa ég til þess, framangreindri skoðun minni til stuðnings, að tryggingaráð hefur ekki getað aflað upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins um þau tilvik, þar sem undantekning hefur verið gerð frá meginreglu ákvæðisins. 5. Í framkvæmd hefur samkvæmt framansögðu verið vikið frá b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, sbr. nú lög nr. 117/1993. Upplýst er, að slík undantekning hefur verið fólgin í hærra örorkumati en nefnt ákvæði mælir fyrir um, þegar um var að ræða öryrkja í svonefndu vernduðu starfi og öryrkja, sem ekki náðu því að vera í hálfu starfi. Nánari upplýsingar skortir um þau tilvik, þar sem slíkar undantekningar hafa verið gerðar, en ég tel, að ekki verði fullyrt, að jafnréttisreglur hafi verið brotnar í tilviki A. Með hliðsjón af þeirri óvissu, sem að framan er lýst, tel ég hins vegar ástæðu til að mælast til þess, að tryggingaráð beiti sér fyrir því, að kannað verði, hvort og þá hvers konar undantekningar séu nú gerðar frá skilyrðum b-liðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og síðan leyst úr því, eftir því sem við á, hvort á A sé hallað, miðað við jafnréttisreglur. Um breytingu þá, sem varð á örorkumati A á grundvelli b-liðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971, sbr. nú b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, hefur ekki komið fram önnur viðhlítandi skýring en sú, að tekið hafi verið að fylgja nefndu lagaákvæði strangar en áður. Ekki liggja hins vegar fyrir upplýsingar um, hvenær þessi breyting átti sér stað né um hve víðtæka breytingu var að ræða. Ég hef áður lagt áherslu á, að þegar breytt er stjórnsýsluframkvæmd, án þess að til komi breyting á réttarreglum, beri í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að gera þá kröfu til stjórnvalda, að þau kynni breytinguna fyrirfram, þannig að þeir aðilar, sem málið snertir, geti brugðist við og gætt hagsmuna sinna, sbr. t.d. álit mín frá 3. ágúst 1989 (SUA 1989:28) og 18. mars 1993 (SUA 1993:29). Ekki kemur fram í máli þessu, að nein slík kynning hafi farið fram, og ekki verður séð, að A hafi verið gefnar slíkar skýringar. Það er ekki fyrr en í greinargerð tryggingaráðs til mín 28. desember 1994, að slík skýring kemur fram. Í gögnum málsins kemur fram, að tryggingaráð óskaði álits heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á því, hvernig skýra bæri þau lagaákvæði, sem hér hafa verið til umræðu. Slíkt var út af fyrir sig heimilt, en leggja verður áherslu á, að það var hlutverk tryggingaráðs sem hlutlauss úrskurðaraðila, að taka sjálfstæða afstöðu til þess álitaefnis. V. Skoðun mín er samkvæmt framansögðu sú, að úrskurður tryggingaráðs frá 3. september 1993 í máli A hafi ekki farið í bága við b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar, sbr. nú b-lið 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993. Ekki hefur annað komið fram en að breytingu þá frá fyrri mötum á örorku A, sem þar er fjallað um, hafi verið að rekja til breyttrar stjórnsýsluframkvæmdar við skýringu á nefndu lagaákvæði. Þar hefur, að mínum dómi, skort á, að breyting þessi væri kynnt fyrirfram og að breytingin væri skýrð fyrir A. Tryggingaráði var heimilt að óska álits heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins á skýringu nefnds lagaákvæðis, en leggja verður áherslu á, að það var hlutverk tryggingaráðs sem hlutlauss úrskurðaraðila að taka sjálfstæða afstöðu til þess álitaefnis. Fullnægjandi upplýsingar skortir um undantekningar í stjórnsýsluframkvæmd frá skilyrði b-liðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993 og eldri lagaákvæðum um sama efni, en ég tel, að á grundvelli þeirra gagna, sem fyrir liggja, verði ekki fullyrt, að með úrskurði tryggingaráðs frá 3. september 1993 hafi verið hallað á A með hliðsjón af jafnréttisreglum. Með hliðsjón af þeirri óvissu, sem hér er um að ræða, tel ég hins vegar ástæðu til að mælast til þess, að tryggingaráð beiti sér fyrir því, að kannað verði, hvort og þá hvers konar undantekningar séu nú gerðar frá skilyrðum b-liðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 117/1993, og síðan leyst úr því, eftir því sem við á, hvort á A sé hallað miðað við jafnréttisreglur." VI. Með bréfi, dags. 20. mars 1997, óskaði ég eftir upplýsingum tryggingaráðs um, hvort A hefði leitað til ráðsins á ný. Mér barst svar tryggingaráðs með bréfi, dags. 14. apríl 1997. Þar kom fram, að bókað hefði verið á fundi, að farið yrði yfir, hvort jafnræðis væri gætt varðandi tillit til tekna og starfsgetu þegar úrskurðað væri um örorku. Með bréfi, dags. 4. júlí 1997, ítrekaði ég fyrirspurn mína um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í málinu. Svar tryggingaráðs hafði ekki borist mér þegar skýrslan fór í prentun.