Almannatryggingar. Félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 6702/2011)

A kvartaði yfir þeirri niðurstöðu úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja honum um greiðslur sem foreldri á vinnumarkaði samkvæmt lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna, vegna sonar hans. Úrskurðurinn byggðist á því að sonur A hefði greinst fyrir 1. október 2007 og því ætti hann eingöngu rétt á almennri fjárhagsaðstoð.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í málinu var ágreiningur um hvort sonur A hefði hlotið greiningu fyrir 1. október 2007. Úrskurðarnefndin taldi að greining hefði legið fyrir samkvæmt læknisvottorðum barnalæknis 15. ágúst 2006 og 24. janúar 2007. A taldi hins vegar að fyrsta greining hefði farið fram mánaðamótin október/nóvember 2007 á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins sem væri eina sérhæfða greiningarmiðstöð landsins. Í skýringum úrskurðarnefndarinnar á túlkun sinni á hugtakinu greiningu í skilningi laga nr. 22/2006 var m.a. vísað til ummæla í lögskýringargögnum um að á meðal skilyrða fyrir greiðslunum væri að upp kæmu aðstæður þar sem barn „þarfnaðist“ þjónustu þriðja stigs greiningar- eða meðferðarstofnunar eins og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins en ekki væri gerð krafa um að greining frá slíkum aðila lægi fyrir. Í því sambandi var vísað til þess að slík túlkun myndi leiða til skerðingar á réttindum foreldra samkvæmt lögunum þar sem þeir þyrftu þá að bíða slíkrar greiningar áður en þeir gætu lagt niður störf og sótt um tekjutengdar greiðslur. Í ljósi skýringa nefndarinnar og markmiðs laga nr. 22/2006 taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þessa afstöðu nefndarinnar og taldi nægja að fyrir lægi greining hjá barnadeild sjúkrahúss, greiningarteymi heilbrigðisstofnunar o.s.frv. Þá fékk umboðsmaður ekki séð að endanleg greining yrði að liggja fyrir svo að foreldri gæti átt rétt á tekjutengdum greiðslum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 22/2006. Í ljósi fyrirliggjandi læknisvottorða taldi umboðsmaður því ekki tilefni til athugasemda við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að greining á veikindum/fötlun sonar A, í skilningi 8. gr. laga nr. 22/2006, hefði átt sér stað fyrir 1. október 2007. Að því virtu taldi umboðsmaður ekki forsendur til þess að taka umrætt atriði kvörtunarinnar til frekari athugunar.

Að lokum tók umboðsmaður fram að það félli utan starfssviðs síns, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist um efni lagasetningar á Alþingi og þar með að taka afstöðu til þess hvort sá greinarmunur sem væri gerður á foreldrum miðað við tímamark greiningar samkvæmt lögum nr. 22/2006 bryti gegn jafnréttis- og sanngirnissjónarmiðum. Þar sem Alþingi tók beinlínis afstöðu til gildistöku og lagaskila milli yngri og eldri reglna um greiðslurnar taldi hann jafnframt ekki tilefni til þess að fjalla frekar um það á grundvelli heimilda sinna til að tilkynna Alþingi um meinbugi á lögunum.