Almannatryggingar. Lífeyristryggingar.

(Mál nr. 6793/2012)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja hann um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árunum 2007 til 2008 á þeim grundvelli að á því tímabili hefði hann ekki verið búsettur í landi sem væri aðili að EES-samningnum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 22. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefnd almannatrygginga aflaði frá Þjóðskrá Íslands um lögheimilisskráningu A var hann hvorki skráður með lögheimili á Íslandi né á Norðurlöndunum. Flutningar hans til tiltekins EES-ríkis og flutningur hans aftur heim til Íslands var skráður en Þjóðskrá Íslands bjó ekki yfir frekari upplýsingum um búsetu hans á þeim tíma. Samkvæmt upplýsingum frá stjórnvaldi í EES-ríkinu sem A flutti til var hann ekki búsettur í því ríki á tímabilinu sem um ræddi. Lögmanni A var gefinn kostur á að leggja fram opinbera staðfestingu á lögheimili A umrætt tímabil en sú staðfesting barst ekki. Með vísan til þess og eftir að hafa kynnt sér gögn málsins taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við það mat úrskurðarnefndarinnar að upplýsingarnar sem lágu fyrir nefndinni hefðu verið þess eðlis að ekki væri upplýst um búsetu á umræddu tímabili. Umboðsmaður lauk því umfjöllun sinni um málið en tók fram að ef A hefði undir höndum önnur gögn en opinbera staðfestingu á lögheimili sem gætu varpað betra ljósi á málið væri ekkert því til fyrirstöðu að freista þess að óska eftir endurupptöku málsins, án þess þó að hann tæki afstöðu til þess hvor nefndinni væri skylt að fallast á slíka beiðni.

Þá ákvað umboðsmaður að rita úrskurðarnefndinni bréf þar sem hann gerði m.a. athugasemdir við að A hefðu ekki verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar um þau gögn eða upplýsingar sem nefndin taldi skorta í málinu og að ekki lægi fyrir um að honum hefði verið leiðbeint um það hvers konar gögn hann gæti lagt fram til stuðnings endurupptökubeiðni. Hann mæltist því til þess að nefndin hugaði betur að leiðbeiningarskyldu sinni við meðferð sambærilegra mála í framtíðinni og liti þá sérstaklega til þess að leiðbeiningarnar væru nákvæmar og nægilega skýrar til að ráðið yrði af þeim að hvaða markmiði rannsókn máls stefndi. Umboðsmaður taldi jafnframt að úrskurður nefndarinnar í máli A hefði ekki verið nægilega skýr og glöggur og sama ætti við um synjun á endurupptökubeiðni hans.