A kvartaði yfir fyrirkomulagi við lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, nánar tiltekið því að lífeyrissjóðsgreiðslur kæmu til frádráttar greiðslunum, en það taldi A fela í sér brot á stjórnarskrá, þ.e. jafnræðisreglu 65. gr., eignarréttarákvæði 72. gr. og ákvæði 76. gr. um efnahagsleg og félagsleg réttindi. Af kvörtuninni varð ráðið að greiðslurnar sem A vísaði til væru sérstakar uppbætur á lífeyri samkvæmt lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð. Af kvörtuninni varð ekki ráðið að hún beindist að tiltekinni ákvörðun stjórnvalda í máli sem varðaði A heldur að almennri framkvæmd við greiðslu lífeyris sem leiðir af lögum.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður tók fram að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 og því væri það almennt ekki á verksviði hans að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort meinbugir væru á umræddri löggjöf. Umboðsmaður lauk athugun sinni á erindinu en tók fram að ef kvörtunin hefði átt að lúta að öðrum atriðum gæti A leitað til sín á nýjan leik þar sem hann gerði frekari grein fyrir kvörtunarefninu.