Almannatryggingar. Sjúkra- og slysatryggingar.

(Mál nr. 7188/2012)

A kvartaði yfir ferðakostnaði vegna sérhæfðrar læknisþjónustu sem hann þurfti að sækja út fyrir heimabyggð sína og taldi fyrirkomulag við endurgreiðslu kostnaðarins úr sjúkratryggingu fela í sér mismunun eftir búsetu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera umkvörtunarefni sitt undir úrskurðarnefnd almannatrygginga, eftir atvikum eftir að hafa borið málið formlega undir Sjúkratryggingar Íslands hefði hann þá ekki þegar gert það, sbr. 36. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Umboðsmaður lauk meðferð sinni á kvörtuninni en tók fram að ef A færi þá leið að leita með erindið til úrskurðarnefndar almannatrygginga gæti hann að fenginni niðurstöðu nefndarinnar leitað til sín á nýjan leik.