Almannatryggingar. Sjúkra- og slysatryggingar.

(Mál nr. 7202/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist að Sjúkratryggingum Íslands, velferðarráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Sambandi íslenskra sveitarfélaga vegna greiðslu kostnaðar við talþjálfun sonar hennar. Í kvörtuninni kom m.a. fram að umrædd stjórnvöld legðu ekki sama skilning í það hver bæri ábyrgð á talþjálfun barna.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af kvörtun A var ljóst að hún hefði átt í tilteknum samskiptum við Sjúkratryggingar Íslands vegna málsins, en m.a. kom fram að stofnunin teldi grunnskóla barnsins eiga að standa skil á greiðslunum. Með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera umkvörtunarefni sitt undir úrskurðarnefnd almannatrygginga, eftir atvikum eftir að hafa borið málið formlega undir Sjúkratryggingar Íslands hefði hún þá ekki þegar gert það, sbr. 36. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Umboðsmaður lauk meðferð sinni á málinu en tók fram að ef A kysi að leita til úrskurðarnefndar almannatrygginga gæti hún leitað til sín á nýjan leik að fengnum úrskurði nefndarinnar teldi hún sig enn rangindum beitta.