Almannatryggingar. Sjúkra- og slysatryggingar.

(Mál nr. 7209/2012)

A kvartaði yfir ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn hennar um greiðslu styrks vegna talþjálfunar sonar hennar á þeim grundvelli að hann hefði notið þjónustu talmeinafræðings sem ekki væri með samning við stofnunina.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í kvörtun A kom fram að hún hefði samhliða kvörtun sinni til umboðsmanns sent málið til úrskurðarnefndar almannatrygginga og væri niðurstaða ekki komin frá nefndinni. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði laga til að geta tekið kvörtunina til frekari athugunar að svo stöddu. Hann lauk því umfjöllun sinni um hana en tók fram að A væri að sjálfsögðu heimilt að leita til sín að nýju þegar niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga lægi fyrir í málinu, teldi hún sig enn rangindum beitta.