Dómstólar og réttarfar.

(Mál nr. 7157/2012)

Hinn 13. september 2012 kvörtuðu A og B yfir því að erindi þeirra til innanríkisráðuneytisins, dags. 31. júlí 2012, varðandi embættisfærslur dómara í málum sem þeir höfðu lagt fyrir dómstóla, hefði ekki verið svarað. Hinn 25. september 2012 upplýstu þeir umboðsmann um að svarbréf hefði borist 14. september 2012 og fylgdi það með bréfinu. Kvörtun þeirra beindist upp frá því að svörum ráðuneytisins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki annað séð en að athugasemdir A og B beindust í raun fyrst og fremst að efnislegri niðurstöðu dómstóla í málum þeirra og taldi ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að fjalla um hana, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Þá tók umboðsmaður fram að innanríkisráðuneytið væri ekki bært til að endurskoða efnislega niðurstöður dómstóla en ef A og B teldu ástæðu til gætu þeir freistað þess að óska eftir endurupptöku umræddra mála hjá Hæstarétti Íslands, sbr. XXVII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Umboðsmaður vakti enn fremur athygli á að unnt væri að freista þess að bera umkvörtunarefnið undir nefnd um dómarastörf, sbr. 27. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla. Að lokum tók umboðsmaður fram að af kvörtuninni og meðfylgjandi gögnum yrði ekki ráðið á hvaða lagagrundvelli A og B reistu kröfu sína um að skipuð yrði þriggja manna nefnd til að rannsaka ásakanir þeirra á hendur tilteknum dómurum. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá afstöðu innanríkisráðuneytisins að verða ekki við kröfu um skipun slíkrar nefndar.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að ef A og B færu þá leið að leita með mál sitt til nefndar um dómarastörf gætu þeir leitað til sín vegna úrlausnar hennar og myndi hann þá taka afstöðu til þess hvort og að hvaða marki það félli undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um niðurstöður nefndarinnar.