Eftirlit stjórnsýsluaðila.

(Mál nr. 6861/2012)

A kvartaði yfir ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að vísa frá kæru vegna ákvörðunar Flugmálastjórnar Íslands um að aðhafast ekki vegna ákvörðunar Isavia ohf. um að víkja A úr starfsnámi í flugumferðarstjórn.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í tilefni af athugun umboðsmanns á málinu ákvað innanríkisráðuneytið að óska eftir afstöðu Flugmálastjórnar Íslands til kvörtunarinnar með tilliti til þess hvort flugmálastjórn ætlaði í ljósi eftirlitshlutverks síns, sbr. t.d. 28. gr. b. laga nr. 60/1998, um loftferðir, að taka málið fyrir. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til þess að fjalla frekar um erindið að svo stöddu. Þar sem ekki lá fyrir með hvaða hætti Flugmálastjórn Íslands kæmi til með að hafa aðkomu að málinu, og eftir atvikum hvort til frekari aðkomu innanríkisráðuneytisins kæmi, tók umboðsmaður fram að ef A yrði enn ósáttur við afstöðu flugmálastjórnar og ráðuneytisins í málinu þegar hún lægi fyrir væri honum frjálst að leita til sín að nýju.