Fangelsismál. Frestun afplánunar.

(Mál nr. 6857/2012)

A kvartaði yfir úrskurði innanríkisráðuneytisins þar sem ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins um að synja honum um frekari frest á að hefja afplánun fangelsisrefsingar var staðfest. Kvörtunin beindist jafnframt að afstöðu ráðuneytisins til hæfis tiltekins starfsmanns fangelsismálastofnunar til aðkomu að máli hans.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þegar A var synjað formlega um frestunina hafði honum þegar veittur níu mánaða frestur, sem er umfram það sem er heimilað samkvæmt 11. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga. Í niðurstöðu innanríkisráðuneytisins var vísað til þessa, alvarleika brotsins sem A hlaut dóm fyrir og þess að annað mál honum tengt var til rannsóknar hjá lögreglu. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins. Umboðsmaður tók jafnframt fram að það félli utan starfssviðs umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist við lagasetningu, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og því væru ekki lagaskilyrði til að fjalla um kvörtunina að því marki sem hún kynni að lúta að fyrirkomulagi sem mælt værir fyrir um í 11. gr. laga nr. 49/2005. Þá taldi umboðsmaður kvörtunina ekki gefa sér tilefni til að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort meinbugir væru á lögunum.

Að lokum tók umboðsmaður fram að til þess að óvinátta ylli vanhæfi yrði að vera um einhverjar sannanlegar hlutlægar ástæður að ræða sem almennt yrðu taldar til þess fallnar að draga mætti óhlutdrægni starfsmanns í efa. Þá ylli það ekki vanhæfi eitt og sér að starfsmaður hefði áður haft afskipti af sama máli í starfi sínu nema afstaða eða framkoma hans hefði þá verið með þeim hætti að draga mætti óhlutdrægni hans í efa með réttu. Í ljósi þessa og með vísan til gagna málsins taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu innanríkisráðuneytisins að umræddur starfsmaður fangelsismálastofnunar teldist hafa verið hæfur til þess að fara með mál A. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu.