Fullnustugerðir og skuldaskil. Aðfarargerðir.

(Mál nr. 7169/2012)

A kvartaði yfir því að sýslumannsembætti á landinu virtust taka við gögnum frá lánastofnunum og fyrirtækjum án þess að kanna réttmæti þeirra. Þá taldi A að sýslumenn sinntu ekki skyldu sinni til að rannsaka gögn sem lögð væru til grundvallar við framkvæmd aðfarargerða.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður lagði þann skilning í kvörtunina að hún lyti almennt að starfsháttum sýslumanna, m.a. við framkvæmd aðfarargerða. Þar sem málefni sýslumanna heyra undir innanríkisráðherra og hann fer með yfirstjórn og eftirlit með störfum þeirra taldi umboðsmaður rétt, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, að A freistaði þess að leita með erindið til innanríkisráðherra áður en það kæmi til umfjöllunar hjá embætti sínu. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu en tók fram að ef A kysi að leita með erindi til ráðherra ætti hann þess að sjálfsögðu kost, teldi hann enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu í málinu, að leita til sín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi.