A og B leigðu íbúð hjá húsnæðisnefnd sveitarfélags. Árið 2009 fór nefndin þess á leit við innheimtuaðila að krafa vegna húsaleiguskuldar þeirra yrði innheimt og útburðardómur fenginn sem allra fyrst. Leigusamningnum var rift á grundvelli 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994, en þá hafði verið skorað á A og B með viku fyrirvara að greiða skuldina. Rúmri viku síðar krafðist húsnæðisnefnd þess fyrir dómi að þau yrðu borin út úr húsnæðinu. Dómstóll tók kröfuna til greina með úrskurði. Þremur dögum eftir að úrskurðurinn var kveðinn upp staðfesti úrskurðarnefnd húsnæðismála ákvörðun húsnæðisnefndar í málinu, m.a. með vísan til þess að úrskurður dómstóls um útburð lægi fyrir. A og B kvörtuðu yfir aðdraganda, ákvarðanatöku og framkvæmd riftunar félagslegs leiguréttar, riftun félagslegs leigusamnings og útburðarkröfu sem staðfest var með úrskurði héraðsdóms og úrskurði kærunefndar húsnæðismála.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Ákvarðanir sveitarfélagsins um að rifta leigusamningnum og fara fram á útburðinn voru teknar utan við ársfrest samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og komu því ekki til umfjöllunar umboðsmanns. Þá voru ekki fyrir hendi lagaskilyrði fyrir umfjöllun hans um þau atriði í erindi A og B sem héraðsdómur hafði tekið afstöðu til, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Þegar úrskurður kærunefndar húsnæðismála var kveðinn upp lá úrskurður héraðsdóms um útburðarkröfu sveitarfélagsins fyrir. Í úrskurðinum var m.a. lagt til grundvallar að heimilt hefði verið að rifta leigusamningnum og að ekki yrði byggt á því að starfsmenn húsnæðisnefndarinnar eða sveitarfélagsins hefðu ekki haft umboð til að hrinda málinu af stað. Í ljósi þessa taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugsemdir við það að kærunefndin hefði ekki hnekkt ákvörðun sveitarfélagsins í málinu eða til umfjöllunar um úrskurð nefndarinnar að öðru leyti og þá m.a. með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem búa að baki b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu.
Hann ákvað þó að rita sveitarfélaginu bréf vegna málsins. Umboðsmaður gerði ekki athugasemdir við að sveitarfélag setti þeim sem fær úthlutað félagslegri leiguíbúð nánari skilmála um afnot og leigugreiðslur í gagnkvæmum leigusamningi sem gerður væri í samræmi við húsaleigulög. Þar sem ekki varð annað séð en að lokum leiguafnota A og B hefði eingöngu verið ráðið til lykta á grundvelli ákvæða í húsaleigusamningi og samkvæmt lögum sem um slíka samninga gilda vakti hann hins vegar athygli sveitarfélagsins á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga og kom þeirri ábendingu á framfæri að betur yrði hugað að því hvaða reglum bæri að fylgja þegar sveitarfélagið teldi þörf á að breyta eða ljúka afnotum einstaklinga, sem fengið hefðu úthlutað félagslegu leiguhúsnæði, af hinni úthlutuðu íbúð, þ.m.t. vegna vanskila á leigugreiðslum. Umboðsmaður tók fram að það gæti vart samrýmst lagagrundvelli félagsþjónustu sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 40/1991 að afnotum af félagslegu leiguhúsnæði væri alfarið lokið á grundvelli einkaréttarlegra reglna og án þess að gætt væri samhliða að þeim skyldum sem hvíla að lögum á sveitarfélaginu um aðstoð og félagsþjónustu við viðkomandi íbúa þess. Umboðsmaður tók jafnframt fram að þeir sem kæmu að slíkum málum fyrir hönd sveitarfélagsins yrðu að gæta að því að sinna leiðbeiningarskyldu við þá sem í hlut ættu um réttindi þeirra og möguleg úrræði.