Málsmeðferð stjórnvalda.

(Mál nr. 7113/2012)

A kvartaði yfir því að yfirskattanefnd hefði vísað frá máli sem skattrannsóknarstjóri vísaði til sektarmeðferðar hjá nefndinni vegna staðgreiðsluskila hans. Frávísunin var byggð á því að afstaða A til meðferðar málsins fyrir yfirskattanefnd lægi ekki fyrir og því væru ekki skilyrði til að fjalla um það hjá nefndinni, sbr. 4. mgr. 31. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í kjölfar frávísunarinnar send skattrannsóknarstjóri málið til meðferðar sérstaks saksóknara.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum yfirskattanefndar til umboðsmanns kom fram að nefndinni hefði borist beiðni A um endurupptöku málsins á þeim grundvelli að hann hefði, áður en málið var borið undir yfirskattanefnd, óskað þess að vera gefinn kostur á að ljúka málinu með stjórnvaldssekt hjá skattrannsóknarstjóra en yrði ekki fallist á það yrði málið afgreitt með sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd. Afstaða hans hefði því legið fyrir. Jafnframt kom fram að málið hefði verið tekið til meðferðar að nýju hjá nefndinni. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að halda áfram athugun sinni á kvörtuninni og lauk umfjöllun sinni um hana.