Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 7063/2012)

A kvartaði yfir ákvörðun innanríkisráðuneytisins um skipun í embætti skrifstofustjóra. A var á meðal umsækjenda um starfið.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 22. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þær menntunar- og hæfniskröfur sem innanríkisráðuneytið gerði í starfsauglýsingu enda taldi hann þau lögmæt og málefnaleg að virtu eðli starfsins. Við ákvörðun um ráðningu í starfið var m.a. lagt til grundvallar að að umsækjandi yrði að búa yfir reynslu eða þekkingu á opinberri stjórnsýslu. Við mat á hæfni umsækjenda var talið að reynsla A af stjórnsýslu væri lítil. Að virtum fyrirliggjandi gögnum málsins, þar sem m.a. komu fram upplýsingar um reynslu A annars vegar og þess umsækjanda sem hlaut starfið hins vegar, taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari athugunar á málinu og lauk athugun sinni á því.