Opinberir starfsmenn. Ráðingar í opinber störf.

(Mál nr. 7147/2012)

A kvartaði yfir því að hafa ekki fengið fullnægjandi rökstuðning frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu fyrir ákvörðun ráðuneytisins um skipun í embætti rektors.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af kvörtun A varð ráðið að athugasemdir hans lytu einkum að því að af rökstuðningi ráðuneytisins yrði ekki ráðið af hvaða ástæðu hann og annar tiltekinn umsækjandi voru taldir standa þeim sem hlaut ráðninguna að baki. Umboðsmaður rakti efni rökstuðningsins og taldi í ljósi þess, og jafnframt þess að umsækjandi um opinbert starf ætti ekki kröfu á að stjórnvald lýsti í rökstuðningi til hans hvaða ástæður hefðu ráðið því að hann var ekki ráðinn til starfans, ekki sérstakt tilefni til að aðhafast frekar vegna þessa atriðis. Af erindi A var ekki skýrlega ráðið hvort kvörtun hans beindist jafnframt að því að honum hefðu ekki borist svör og gögn málsins frá ráðuneytinu. Umboðsmaður tók því fram að ef svo væri gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi þar sem gerð væri nánari grein fyrir málsatvikum og þeim gögnum sem A hefði fengið afhent.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók að lokum fram að A gæti leitað til sín að nýju ef hann óskaði eftir því að meðferð ráðuneytisins við skipun í embættið yrði tekin til skoðunar í heild sinni. Í því sambandi vakti umboðsmaður athygli A á því skilyrði 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því að stjórnsýslugerningur er til lykta leiddur.