Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 7197/2012)

A kvartaði yfir ráðningu í sumarafleysingarstarf á fréttastofu Ríkisútvarpsins ohf.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að samkvæmt lögum nr. 6/2007 væri Ríkisútvarpið ohf. opinbert hlutafélag sem m.a. væri starfrækt á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Félagið starfaði því á grundvelli einkaréttar þótt það væri í eigu ríkisins. Samkvæmt því félli félagið ekki undir starfssvið umboðsmanns Alþingis, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður taldi því að ákvörðun Ríkisútvarpsins ohf. um ráðningu í starf væri einkaréttarlegs eðlis en ekki ákvörðun um rétt eða skyldu manna, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna. Því voru ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður gæti tekið kvörtunina til meðferðar. Með vísan til þess lauk hann athugun sinni á málinu.