Opinberir starfsmenn. Starfslok.

(Mál nr. 6265/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun ríkislögreglustjóra um að veita sér lausn frá embætti lögreglumanns og málsmeðferð við töku þeirrar ákvörðunar.

Settur umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 11. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

A taldi m.a. vafa leika á því hvort réttur aðili hefði sagt sér upp störfum þar sem utanríkisráðherra, sem áður fór með lögreglumál innan marka varnarsvæðanna, hafði skipað hann í embættið. Með vísan til þess að lögum hefur verið breytt og ríkislögreglustjóri fer nú með heimild til að veita störf almennra lögreglumanna, sbr. 28. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, og þar með einnig heimildir til að veita þeim lausn frá störfum taldi settur umboðsmaður ekki forsendur til að aðhafast vegna þessa atriðis í kvörtuninni.

Í skýringum ríkislögreglustjóra kom fram að A hefði verið frá vinnu í tvígang samfellt í eitt ár vegna sjúkdóms og fá störfum lengur en svarar 1/18 af samfelldum starfstíma hjá ríkinu. Þá taldi embættið að A hefði ekki starfshæfisvottorð trúnaðarlæknis til starfa sem lögreglumaður. Þar sem sá sem gegnir starfi lögreglumanns þarf að vera í góðu líkamlegu og andlegu formi, sbr. m.a. 3. tölul. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og c-lið 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga, taldi settur umboðsmaður sig, með vísan til 30. gr. laga nr. 70/1996, ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu lögreglustjóra. Í ljósi skýringa ríkislögreglustjóra á því hvers vegna ekki var talið unnt að nýta starfskrafta A til annarra verka sem ekki krefðust líkamlegrar áreynslu áður en honum var veitt lausn frá störfum taldi settur umboðsmaður sig ekki heldur hafa forsendur til að fullyrða að sú lausn A frá störfum hefði farið í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til alls þessa var það niðurstaða setts umboðsmanns að hann hefði ekki forsendur til að draga í efa að ákvörðun ríkislögreglustjóra um að veita A lausn frá embætti lögreglumanns sökum heilsubrests hefði verið lögmæt. A fékk afhent formlegt lausnarbréf eftir að hann lagði fram kvörtun sína hjá umboðsmanni. Settur umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast vegna kvörtunar A yfir því að hann hefði ekki fengið slíkt bréf í hendur. Að fengnum skýringum ríkislögreglustjóra taldi umboðsmaður að lokum ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af tilhögun við greiðslu lausnarlauna til A.

Settur umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað þó að rita ríkislögreglustjóra bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að hvorki í lausnarbréfi embættisins né í bréfi frá lögreglustjóra í viðkomandi umdæmi vegna málsins væri tekið fram af hvaða ástæðum A væri veitt lausn. Þá varð ekki séð af lausnarbréfinu að A hefði verið leiðbeint um heimild hans til að fá ákvörðun um lausnina rökstudda. Settur umboðsmaður benti ríkislögreglustjóra því á að gæta framvegis að þessum atriðum.