Samgöngumál. Siglingamál.

(Mál nr. 6894/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með erindi sem laut að útskýringum á tilteknum hugtökum í reglugerð nr. 122/2004, um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri í mestu lengd.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 22. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður hafði áður haft til athugunar hvort þessi reglugerð væri nógu skýr en hætt þeirri athugun í ljósi þess að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, sem þá fór með málaflokkinn, ákvað að flýta endurskoðun reglugerðarinnar og átti sú endurskoðun fara fram í samráði við Siglingastofnun Íslands. Í skýringum innanríkisráðuneytisins vegna þessa máls kom fram að við nánari athugun hefði komið í ljósi að umrædd reglugerðarákvæði hefðu ekki valdið vandkvæðum í framkvæmd. Því hefði verið ákveðið að ráðast ekki strax í breytingar á reglugerðinni heldur hafa þessi atriði í huga við næstu endurskoðun reglugerðarinnar sem gert væri ráð fyrir að yrði lokið í árslok 2013. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar A og lauk meðferð sinni á málinu. Umboðsmaður ritaði innanríkisráðherra hins vegar bréf og gerði athugasemdir við að það hefði tekið ráðuneyti hans sex mánuði að svara ítrekuðum fyrirspurnum sínum vegna málsins og benti á að þess yrði að gæta þess að svara erindum sínum innan hæfilegs tíma.