A kvartaði yfir því að einstæðir foreldrar gætu ekki nýtt persónuafslátt barna sem þeir hefðu á framfæri sínu á meðan hjón gætu nýtt persónuafslátt maka síns. A taldi sig sem einstætt foreldri þar af leiðandi ekki njóta sömu kjara og hjón.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður rakti að af a-lið 2. mgr. 67. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, leiddi að óráðstafaður persónuafsláttur hjá hjónum færðist til maka og kæmi til lækkunar á reiknuðum tekjuskatti eða gengi til greiðslu á útsvari, eftir atvikum. Löggjafinn hefði þannig tekið skýra afstöðu til þess með hvaða hætti hægt væri að nýta óráðstafaðan persónuafslátt en þar væri ekki gert ráð fyrir að persónuafsláttur barns 16 ára og eldri færðist til foreldris. Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, og almennt er það því ekki í verkahring umboðsmanns Alþingis að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett taldi umboðsmaður bresta skilyrði til þess að geta tekið málið til frekari athugunar. Hann lauk því athugun sinni á erindinu.