Sveitarfélög.

(Mál nr. 7124/2012)

A kvartaði yfir því að innanríkisráðuneytið hefði vísað frá kæru þar sem hann krafðist úrskurðar um að tilgreind afgreiðsla bæjarstjórnar sveitarfélags yrði ógilt og henni fyrirskipað að taka málið til meðferðar að nýju. Ráðuneytið vísaði kærunni frá á þeim grundvelli að ekki yrði séð að bæjarstjórnin hefði tekið stjórnvaldsákvörðun í fyrirliggjandi máli er varðaði A umfram aðra heldur hefði verið um almennan ágreining um fundarsköp og fundarstjórn að ræða. Kæran hefði því ekki fallið undir kæruheimild 1. mgr. 111. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í kjölfar úrskurðar innanríkisráðuneytisins ritaði A ráðuneytinu bréf þar sem hann gerði m.a. athugasemdir við niðurstöðu málsins og forsendur hennar. Í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að bréfið hefði ekki verið borist en A hygðist senda það að nýju. Í ljósi þessa og þess að A hugðist óska eftir því að það erindi yrði afgreitt í ráðuneytinu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna málsins að svo stöddu. Hann lauk því meðferð sinni á málinu en tók fram að ef A teldi sig enn rangindum beittan að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins gæti hann leitað til sín að nýju. Þá ritaði hann innanríkisráðuneytinu bréf þar sem hann tók fram að þau álitaefni sem byggju að baki máli A kynnu að hafa þýðingu í öðru nánar tilgreindu máli sem væri til athugunar hjá umboðsmanni og lyti að framkvæmd ráðuneytisins á eftirliti með sveitarfélögum á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.