Ráðstöfun ríkisjarða. Auglýsing jarða sem lausar eru til ábúðar. Rannsóknarregla. Sjónarmið sem stjórnvaldsákvörðun verður byggð á. Stjórnvaldsákvörðun verður að vera bæði ákveðin og skýr. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda um kæruheimild.

(Mál nr. 1025/1994)

A og B kvörtuðu yfir málsmeðferð landbúnaðarráðuneytisins á umsókn þeirra um kaup eða leigu á ríkisjörðinni Y, sem þau hugðust sameina bújörð sinni, Z. Þá kvörtuðu A og B yfir ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins um ráðstöfun jarðarinnar Ö í Þ-hreppi til D, en A og B héldu því fram að landbúnaðarráðuneytið hefði áður gefið þeim munnlegt vilyrði fyrir jörðinni. Umboðsmaður vísaði til álits síns í máli nr. 993/1994 að því er lýtur að almennum atriðum um málsmeðferð við ákvarðanir um leigu ríkisjarða. Um kvörtun A og B tók umboðsmaður fram að þar sem ákvarðanir sveitarstjórnar Þ-hrepps og jarðanefndar Æ-sýslu, voru ekki kærðar til æðra stjórnvalds, skv. 17. gr. jarðalaga, yrðu þær ekki teknar til athugunar að öðru leyti en að því er laut að afgreiðslu landbúnaðarráðuneytisins á umsóknum A og B. Um afgreiðslu landbúnaðarráðuneytisins á umsókn A og B um jörðina Y, tók umboðsmaður fram að landbúnaðarráðuneytið hefði sent sveitarstjórn og jarðanefnd erindi A og B til umsagnar í samræmi við ákvæði jarðalaga. Jarðanefnd var samþykk sameiningu jarðanna Y og Z, en sveitarstjórn mælti ekki með sölu jarðarinnar Y eða sameiningu við Z, þar sem mestur hagur væri fyrir sveitarfélagið að fá ábúendur á sem flest býli í sveitinni. Umboðsmaður tók fram, að sveitarstjórn og jarðanefnd bæri að gæta rannsóknarreglu, áður en ákvörðun væri tekin um ráðstöfun eignar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976, og að líta yrði til markmiða jarðalaga við afmörkun á því, á hvaða sjónarmiðum ákvörðun yrði byggð. Í 1. gr. jarðalaga væri gert ráð fyrir því að lögin tryggðu eðlilega og hagkvæma nýtingu lands og að eignarráð og búseta á jörðum væri í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra sem landbúnað stunda. Tók umboðsmaður fram að ekki hefði komið fram að sveitarstjórn hefði lagt mat á þau sjónarmið og hagsmuni sem vógust á í málinu eða útskýrt nánar þá hagsmuni sveitarfélagsins sem úrslitum réðu. Taldi umboðsmaður svör sveitarstjórnar hafa verið með þeim hætti, að landbúnaðarráðuneytinu hefði borið að ganga eftir nánari skriflegum rökstuðningi og að ef þá hefði komið fram að ákvörðun sveitarstjórnar hefði ekki verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum, hefði ráðuneytinu í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti borið að leiðbeina A og B um úrræði jarðalaga til að fá umrædda ákvörðun endurskoðaða. Landbúnaðarráðuneytið hafði veitt A og B munnlegt vilyrði fyrir jörðinni Ö, eftir umsókn þeirra, og tilkynnt sveitarstjórn og jarðanefnd um þá ákvörðun að leita samninga við A og B. Þó sendi landbúnaðarráðuneytið bæði umsókn A og B, og umsókn D til sveitarstjórnar og jarðanefndar til afgreiðslu samkvæmt 6. gr. jarðalaga. Umboðsmaður taldi þá annmarka á ákvörðun beggja umsagnaraðila, að erindi landbúnaðarráðuneytisins var ekki tekið til samþykktar eða synjunar, svo sem skylt er samkvæmt 6. gr. jarðalaga. Jarðanefnd gerði í svari sínu ekki upp á milli umsækjenda en sveitarstjórn mælti með því að D yrði byggð jörðin. Taldi umboðsmaður svör þessi gefa sérstaka ástæðu til að ganga eftir því hvort synjað hefði verið um fyrirhugaða ráðstöfun jarðarinnar og ef svo var, með hvaða rökum. Þá taldi umboðsmaður að landbúnaðarráðuneytinu hefði átt að vera ljóst að ákvarðanirnar fóru í bága við þá óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttar, að stjónvaldsákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr. Hvíldi sérstök skylda á ráðuneytinu í þessu efni, að því marki sem erindi ráðuneytisins var orsök þessa óskýrleika og vegna þess, að ákvarðanir samkvæmt 2. mgr. 6. gr. jarðalaga eru almennt íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila. Þá benti umboðsmaður á, að synjun samkvæmt 2. mgr. 6. gr. jarðalaga yrði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum og að almennt yrði að ganga út frá því, að ekki yrði synjað samþykkis nema ljóst væri að ráðstöfunin væri andstæð þeim hagsmunum sveitarfélags sem verndaðir eru í jarðalögum. Sveitarstjórn færði ekki önnur rök fyrir þeirri niðurstöðu að mæla með veitingu jarðarinnar til D, en að A og B hefðu þegar jörð til ábúðar í sveitarfélaginu. Benti umboðsmaður einnig á, að ef sveitarstjórn synjaði um ráðstöfun eignar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. jarðalaga, hefði hún ekki forræði á því að gengið væri til samninga við aðra aðila um jörðina. Umboðsmaður taldi svo verulega annmarka á afgreiðslu sveitarstjórnar og jarðanefndar að ráðuneytinu hefði borið að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim, áður en ákvörðun yrði tekin um ráðstöfun jarðarinnar. Þá taldi umboðsmaður, að í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, hefði átt að veita A og B leiðbeiningar um kæruheimild til landbúnaðarráðuneytisins vegna umræddra ákvarðana sveitarstjórnar og jarðanefndar samkvæmt 17. gr. jarðalaga.

I. Hinn 21. febrúar 1994 leituðu til mín A og B, og kvörtuðu yfir ákvörðun landbúnaðarráðuneytisins um ráðstöfun jarðarinnar Ö í Þ-hreppi. Í kvörtuninni er því haldið fram, að A og B hafi verið búin að fá munnlegt vilyrði landbúnaðarráðuneytisins fyrir jörðinni í júní árið 1992. Engu að síður hafi ráðuneytið síðar tekið ákvörðun um að byggja D jörðina. Einnig kvörtuðu A og B yfir málsmeðferð landbúnaðarráðuneytisins, að því er snertir umsókn þeirra um kaup eða leigu á jörðinni Y. Telja þau meðal annars, að landbúnaðarráðuneytinu hafi borið að ganga eftir rökstuðningi sveitarstjórnar fyrir því, að hún samþykkti ekki að þeim yrði seld eða leigð jörðin. Benda þau á, að það sé ekki á valdsviði sveitarstjórnar að velja að eigin geðþótta ábúendur á ríkisjarðir. II. Í gögnum málsins kemur fram, að hinn 5. nóvember 1990 og 11. október 1991 sóttu A og B um ríkisjörðina Y, þegar henni yrði sagt lausri. Með bréfi, dags. 6. desember 1991, sagði þáverandi ábúandi jarðarinnar, C, upp ábúðinni miðað við næstu fardaga. Hinn 19. febrúar 1992 gerðu A og B kauptilboð í jarðirnar Z og Y, sameinaðar í eina jörð. Auk umsóknar A og B bárust landbúnaðarráðuneytinu fjórar aðrar umsóknir um ábúð eða leiguafnot. Hinn 6. mars 1992 sendi landbúnaðarráðuneytið hreppsnefnd Þ-hrepps svohljóðandi bréf: "Með bréfi dags. 6. desember 1991 sagði [C] upp ábúð á ríkisjörðinni [Y] í [Þ-hreppi], miðað við komandi fardaga. Jörðin [Y] var skv. byggingarbréfi, útgefnu í landbúnaðarráðuneytinu 15. apríl 1983, byggð [C] til lífstíðarábúðar frá fardögum 1982 samkvæmt ákvæðum ábúðarlaga nr. 64/1976. Með bréfi dags. 19. febrúar s.l. óska [A og B], eftir kaupum á jörðinni [Y] og ábýlisjörð sinni, [Z], með það í huga að sameina jarðirnar í eitt lögbýli. Um ábúð/leiguafnot á jörðinni [Y] sækja neðantaldir: [...] Með bréfi þessu spyrst ráðuneytið fyrir um, hvort nefndin sé reiðubúin að samþykkja fyrir sitt leyti sölu jarðanna eða leigu á [Y] til [A og B] og sameiningu þeirra í eitt lögbýli, sbr. 3. mgr. 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sbr. breytingu með lögum nr. 90/1984. Fallist nefndin ekki á sölu, er þess óskað að nefndin taki framangreindar umsóknir um ábúð/leigu á jörðinni til umfjöllunar og afgreiðslu samkvæmt 6. gr. jarðalaga, sem þyrfti að berast ráðuneytinu fyrir 10. apríl n.k." Hinn 27. mars 1992 sendi sveitarstjórn Þ-hrepps landbúnaðarráðuneytinu svohljóðandi bréf: "Sveitarstjórn [Þ-hrepps] tók á fundi sínum þann 26. mars 1992 fyrir erindi ráðuneytisins varðandi [Y]. Svohljóðandi bókun var gerð: Sveitarstjórn er sammála um að mæla ekki með sölu jarðarinnar eða sameiningu hennar annarri með öðrum hætti, enda nógir umsækjendur um ábúð á henni og mestur hagur fyrir sveitarfélagið að fá ábúendur á sem flest býli í sveitinni. Samþykkt með 3 atkvæðum að mæla með því að [E og F] verði veitt ábúð á jörðinni [Y]. [G] hlaut 2 atkvæði." Umsögn jarðanefndar Æ-sýslu er frá 2. apríl 1992. Hljóðar hún svo: "Erindi landbúnaðarráðuneytisins varðandi [Y í Þ-hreppi]. Jarðanefnd samþykkir fyrir sitt leyti sameiningu jarðanna [Z og Y] og sölu þeirra til ábúenda á [Z], [A og B]." Hinn 6. apríl 1992 sendi sveitarstjórn Þ-hrepps landbúnaðarráðuneytinu eftirfarandi bréf: "Sveitarstjórn Þ-hrepps vill að fram komi að hún styður öll að bújörðin [Y] verði byggð [E] fremur en að hún verði seld eða sameinuð bújörðinni [Z]. Enginn okkar hefur neitt á móti [E] sem ábúanda í [Y]. Þeir sem mæltu með [G] sem ábúanda töldu og telja reyndar enn að það væri sterkast fyrir sveitarfélagið að fá alvöru bónda í [Y] sem við teljum að [G] hefði orðið hefði fullvirðisréttur fylgt. Standi valið á milli sameiningar við [Z] og ábúðar [E], styðjum við hann öll svo sem að ofan greinir." Hinn 5. júní 1992 ritaði landbúnaðarráðuneytið A og B bréf. Segir þar meðal annars: "Ráðuneytið vísar til umsóknar yðar um ábúð á jörðinni [Y í Þ-hreppi í Æ-sýslu], svo og síðari viðræðna um ráðstöfun jarðarinnar. Vegna ósamhljóða umsagna hreppsnefndar [Þ-hrepps] og jarðanefndar [Æ-sýslu] hefur ráðuneytið frestað því að taka ákvörðun um áframhaldandi leigu jarðarinnar. Þau mál verða áfram til athugunar og umfjöllunar hjá ráðuneytinu." III. Í gögnum málsins kemur fram, að hinn 11. desember 1948 hafi M og K gefið íslenska ríkinu jörðina Ö. Í gjafabréfinu var svo kveðið á, að jarðeignin skyldi hagnýtt á þann hátt að til menningarauka horfði, t.d. að rekin yrði þar tilraunastarfsemi í landbúnaði, byggðasafn, bókasafn, skjalasafn, listasafn, skóli, sjúkrahús, hressingarhæli, barnahæli eða elliheimili. Árið 1992 var jörðin í leigu Búnaðarsambands Austurlands. Þeim leiguafnotum lauk í október 1992. Hinn 19. maí 1992 rituðu A og B landbúnaðarráðuneytinu bréf og lýstu því yfir að þau væru orðin langeyg eftir afgreiðslu ráðuneytisins á umsókn þeirra um Y og þau sæktu því um jörðina Ö. Auk umsóknar A og B barst landbúnaðarráðuneytinu ein önnur umsókn. Hinn 18. ágúst 1992 sendi landbúnaðarráðuneytið jarðanefnd Æ-sýslu svohljóðandi bréf: "Eins og yður er kunnugt hefur jörðin [Ö] verið í leigu Búnaðarsambands Austurlands. Þeim leiguafnotum lýkur í októbermánuði næstkomandi. Ráðuneytið telur rétt að jörðin sé áfram leigð til landbúnaðarnota, en að búrekstur og störf leigutaka jarðarinnar þurfi að samræma notum og rekstri [...]. Ráðuneytinu hafa borist umsóknir um leiguafnot jarðarinnar frá [A og B] annarsvegar og hinsvegar frá [D] [Ö]. Ráðuneytið hefur ákveðið að leita samninga við [A og B] um leiguafnot af [Ö] með búsetu á [...]. Náist samningar við [A og B] losnar jörðin [Z], sem ráðuneytið mun þá gefa [E] kost á til ábúðar. Ljósrit af umsóknum beggja aðila fylgja bréfi þessu og eru send yður til afgreiðslu skv. 6. gr. laga nr. 65/1976." Hinn 31. ágúst 1992 sendi sveitarstjórn Þ-hrepps landbúnaðarráðuneytinu svohljóðandi bréf: "Sveitarstjórn [Þ-hrepps] átelur harðlega meðferð ráðuneytisins á málum [Ö], og telur það óeðlileg vinnubrögð að auglýsa ekki bújörðina [Ö] lausa til ábúðar, þannig að allir sem áhuga hafa á geti sótt um ábúð. Þá þykir sveitarstjórn einkennilegt að ráðuneytið skuli hafa ákveðið að leita samninga við annan umsækjandann, áður en umsögn sveitarstjórnar og jarðanefndar liggur fyrir samkvæmt 6. gr. jarðalaga. Varðandi fyrirliggjandi umsóknir er afstaða sveitarstjórnar [Þ-hrepps] sú að hún mælir með því að [D], [...], verði veitt leiguafnot af bújörðinni [Ö], þar sem hann hefur setið jörðina undanfarin ár með góðum árangri. Sjáum við ekki ástæður til að mæla með hinum umsækjendunum, þar sem þau hafa ágæta jörð til ábúðar hér í hreppnum." Hinn 15. september 1992 sendi jarðanefnd Æ-sýslu landbúnaðarráðuneytinu bréf. Segir þar meðal annars: "Þá kemur fram í þessu bréfi að ráðuneytið hefur ákveðið að leita samninga við [A og B] um ábúð á jörðinni. Jarðanefnd álítur að eðlilegra hefði verið að leita álits jarðanefndar og hreppsnefndar áður en ákveðið var að leita samninga við annan umsækjandann þar sem jarðanefnd telur að þessir umsækjendur séu báðir jafn hæfir til búskapar. Jarðanefnd telur að umsögn hennar nái fyrst og fremst til þess hluta [Ö] sem að búskap lýtur og [álítur] að aðskilja eigi rekstur [hússins] og búsins og ef aðeins er hugsað um þann hluta [Ö] sem þá yrði bújörð í einstaklings rekstri verður ekki gert upp á milli þessara tveggja umsækjenda. Að lokum tekur jarðanefnd fram að hún telur það tæplega sitt hlutverk eins og málefnum [Ö] í heild er komið að fella úrskurð í því máli." Hinn 18. september 1992 sendi landbúnaðarráðuneytið hreppsnefnd Þ-hrepps eftirfarandi bréf: "Vegna bréfs yðar [mótt.] 9. september s.l. skal eftirfarandi tekið fram. Til þessa hefur engin sú breyting náð fram um nýtingu og málefni [Ö] eftir að tilraunastarfsemi var þar lögð niður, sem er í samræmi við vilja gefenda [Ö], hjónanna [M og K]. Til að slíkt megi verða telur ráðuneytið að bæði jörðin [Ö] og [húsið] verði að nýtast á annan veg en nú er. Ráðuneytið hefur lagt áherslu á að eiga um það samráð við sveitarstjórn [Þ-hrepps]. Varðandi sjónarmið hreppsnefndar um óeðlileg vinnubrögð að auglýsa ekki bújörðina [Ö] lausa til ábúðar, skal þetta sagt: Engin skylda er að lögum né heldur venja að auglýsa jarðir sem lausar eru, slíkt ræðst af þörf. Ráðuneytið hefur auk þess litið til þeirrar sérstöðu með [Ö] að nýting bújarðar kann í mörgu að tengjast málefnum [hússins] og nýjum áformum sem upp kunna að koma um nýtingu húss og staðar að vilja gefenda. Þá skal tekið fram að í bréfi ráðuneytisins til hreppsnefndar [Þ-hrepps] dags. 18. ágúst s.l. eru kynnt áform ráðuneytisins um að leita eftir samningum við [A og B]. Í 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 er gert ráð fyrir að tiltekin aðilaskipti að réttindum yfir fasteign séu tilkynnt sveitarstjórn og jarðanefnd viðkomandi sýslu og aflað samþykkis þeirra til hinnar fyrirhuguðu ráðstöfunar. Áðurnefnt bréf ráðuneytisins til yðar er því að öllu leyti samrýmanlegt 1. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976." IV. Hinn 1. október 1993 rituðu A og B landbúnaðarráðuneytinu bréf og lýstu yfir óánægju sinni yfir því, hve mjög afgreiðsla umsókna þeirra um Y og Ö hefði dregist á langinn. Svarbréf ráðuneytisins er dagsett 15. nóvember 1993. Segir þar meðal annars: "Með bréfi þessu mun ráðuneytið leitast við að skýra þann drátt sem orðið hefur á afgreiðslu og ákvörðunum sem snerta ráðstöfun ofangreindra jarða. Jörðinni [Y] var eins og kunnugt er sagt lausri miðað við fardaga 1992. Umsóknir um ábúð á jörðinni bárust frá fjórum aðilum. Auk þess lá fyrir ítrekað erindi yðar um leiguafnot af jörðinni og síðar beiðni um kaup og sameiningu [Z og Y] í eitt lögbýli. Að athuguðu máli og með hliðsjón af því hvernig jörðin [Y] er hýst taldi ráðuneytið eðlilegt að framangreind lögbýli yrðu sameinuð og samnýtt. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 ber að tilkynna fyrirhuguð aðilaskipti að réttindum yfir fasteign eða stofnun slíkra réttinda, s.s. kaup eða leigu, til viðkomandi sveitarstjórnar og jarðanefndar og afla samþykkis þeirra til ráðstöfunarinnar. Þá er sameining lögbýla háð samþykki sömu aðila samkvæmt 3. mgr. 12. gr. Jarðalaga nr. 65/1976. Með bréfi ráðuneytisins dags. 6. mars 1992 var óskað eftir afstöðu hreppsnefndar [Þ-hrepps] og Jarðanefndar [Æ-sýslu] til sölu [Y] og sameiningar [Z] og [Y] í eitt lögbýli. Jafnframt sendi ráðuneytið nefndunum erindi sem borist höfðu um ábúð á jörðinni [Y]. Með framangreindu bréfi ráðuneytisins er engu að síður tekin ákvörðun um að verða við umsókn yðar, fremur en að setja jörðina í ábúð á ný og sú ákvörðun lögð fyrir þær nefndir sem að lögum eiga afskiptarétt að slíkum ákvörðunum. Með bréfi dags. 2. apríl 1992 samþykkti Jarðanefnd [Æ-sýslu] fyrir sitt leyti erindi ráðuneytisins. Á hinn bóginn hafnaði hreppsnefnd [Þ-hrepps] hugmyndum ráðuneytisins um sameiningu og sölu [Z og Y], en samþykkti þess í stað að jörðin yrði óskipt byggð [E]. Þar með var ljóst að ráðuneytið var ekki lengur í aðstöðu til að verða við erindi yðar um sameiningu og sölu jarðanna og því frestaði ráðuneytið að taka endanlega ákvörðun um framtíðarráðstöfun [Y], en ráðstafaði þess í stað ræktuðu landi jarðarinnar sumarið 1992 og 1993, eins og yður er kunnugt um, og auk þess öðrum takmörkuðum afnotum til [E] til 1. júní s.l. Eins og yður er fullkunnugt um leitaði ráðuneytið eftir því að ná samkomulagi um að skipta afnotum af jörðinni [Y] milli yðar og [E], þrátt fyrir að hreppsnefnd [Þ-hrepps] hafði samþykkt að byggja honum jörðina. Hinn 29. september s.l. sendi ráðuneytið [E] til undirskriftar leigusamning um hluta af jörðinni [Y]. Er sá leigusamningur gerður til fimm ára frá fardögum 1993 að telja, en fyrirvari gerður um samþykki sveitarstjórnar og Jarðanefndar [Æ-sýslu] skv. 1. mgr. 6. gr. Undanskilið samkvæmt þeim samningi er annars vegar 0,75 ha lóð sem liggur norðaustast í heimatúni jarðarinnar, en sú lóð er leigð [E] til byggingar íbúðarhúss og hefur þegar verið gengið frá þeim lóðarleigusamningi og hann hlotið samþykki hreppsnefndar [Þ-hrepps] og Jarðanefndar [Æ-sýslu], sbr. áðurgreinda 1. mgr. 6. gr. Jarðalaga nr. 65/1976. Hins vegar er undanskilið allt land jarðarinnar sunnan við [...]. Jafnframt er undanskilið ca 4,5 ha ræktað land jarðarinnar. Þá er í samningnum sú kvöð að leigutaka er óheimilt að girða á landamerkjum [Z og Y] ofan væntanlegrar [...]-girðingar, og jafnframt að hamla ekki beit búfjár frá [Z] á því landi. Tekið skal fram að ráðuneytinu er ókunnugt um hvort umræddur nytjaleigusamningur hefur verið samþykktur af hreppsnefnd [Þ-hrepps] eða Jarðanefnd [Æ-sýslu]. Með bréfi ráðuneytisins til yðar dags. 5. júní 1992 er yður gerð grein fyrir afstöðu hreppsnefndar og jarðanefndar til ráðstöfunar á [Y] og jafnframt upplýst að mál jarðarinnar verði áfram til athugunar og umfjöllunar hjá ráðuneytinu. [Lítur] ráðuneytið svo á að með því bréfi hafi verið svarað, eins og unnt var á þeim tíma, beiðni yðar um samnýtingu og sameiningu jarðanna. Er ráðuneytið algerlega ósammála fullyrðingu yðar um að yður hafi ekki borist svör frá ráðuneytinu varðandi [Y]. Frekari svör og endanleg afstaða verður að bíða þar til ljóst er um afdrif þess nytjaleigusamnings sem áður er vikið að. Með þeirri hugmynd að ráðstöfun jarðarinnar, sem í þeim samningi felst, telur ráðuneytið að verulega sé komið til móts við sjónarmið yðar og ráðuneytisins um samnýtingu jarðanna [Z og Y]. Hvað varðar afdrif umsóknar yðar frá 19. maí 1992 um jörðina [Ö] í [Þ-hreppi] er það að segja að með samhljóða bréfum ráðuneytisins til hreppsnefndar [Þ-hrepps] og Jarðanefndar [Æ-sýslu], dags. 18. ágúst 1992, kemur fram það mat ráðuneytisins að rétt sé að jörðin [Ö] sé áfram leigð til landbúnaðarnota, en samræma þurfi búrekstur og störf leigutaka notkun og rekstri [hússins]. Jafnframt kemur fram að ráðuneytið hafi ákveðið að leita eftir samningum við yður um leiguafnot af jörðinni með búsetu á [...]. Er skemmst frá því að segja að afstaða ráðuneytisins og áform voru átalin af hreppsnefnd [Þ-hrepps] í bréfi dags. 31. ágúst 1992, en í bréfinu mælti nefndin með því að jörðin yrði leigð [D]. Jarðanefnd [Æ-sýslu] svaraði ráðuneytinu með bréfi dags. 15. september s.á., án þess að taka beina afstöðu til umsækjenda um jörðina. Að virtum þeim afgreiðslum sem ráðuneytinu bárust frá hreppsnefnd [Þ-hrepps] og Jarðanefnd [Æ-sýslu] ákvað ráðuneytið að leita eftir samkomulagi við [D] um leigu á hluta af jörðinni [Ö] frá ári til árs, en leigusamningur þar að lútandi er enn ekki frágenginn og þar með liggur ekki fyrir hvort samkomulag næst um ráðstöfun jarðarinnar en það ætti að skýrast á næstu vikum. Með bréfi þessu fylgja ljósrit af þeim bréfum sem ráðuneytinu hafa borist frá hreppsnefnd og jarðanefnd vegna máls þessa, og öðrum bréfum sem til er vitnað í bréfi þessu." V. Hinn 19. apríl 1994 ritaði ég landbúnaðarráðherra bréf og óskaði eftir því, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að landbúnaðarráðuneytið léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A og B. Einnig óskaði ég upplýsinga um, hvað liði afgreiðslu landbúnaðarráðuneytisins á umsókn þeirra um jörðina Y. Þá óskaði ég þess sérstaklega að ráðuneytið veitti mér eftirtaldar skýringar og upplýsingar um umsókn þeirra um Ö: "1. Hvort jörðin hafi verið auglýst laus til ábúðar. "2. Með bréfi, dags. 18. ágúst 1992, leitaði landbúnaðarráðuneytið samþykkis hlutaðeigandi jarðanefndar og sveitarstjórnar fyrir þeirri ráðstöfun, að leigja [A og B] jörðina [Ö], með búsetu á [...], sbr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Í bréfi sveitarstjórnar [Þ-hrepps] segir, að hreppsnefnd hafi ekki séð "ástæðu til að mæla með hinum umsækjendunum", þ.e. [A og B]. Óskað er upplýsinga um, hvort litið var á þessa niðurstöðu hreppsnefndar sem synjun á grundvelli 2. mgr. 6. gr. fyrrnefndra laga. Ef svo var, er óskað greinargerðar um það, hvaða rök lágu til grundvallar þeirrar niðurstöðu, að áformuð ráðstöfun eignarinnar væri "andstæð hagsmunum sveitarfélagsins" í skilningi nefndrar lagagreinar. "3. Á hvaða sjónarmiðum ráðuneytið hafi byggt þá ákvörðun sína, að byggja [D] jörðina, en ekki [A og B]. "4. Þá óska ég eftir því, að mér verði látið í té ljósrit af gjafabréfinu fyrir [Ö]." Hinn 23. júní 1994 ítrekaði ég óskir mínar um upplýsingar til landbúnaðarráðuneytisins. Svör þess bárust mér með bréfi, dags. 14. júlí 1994. Segir þar meðal annars svo: "Jörðin [Ö] var samkvæmt meðfylgjandi bréfi, dags. 11. desember 1948, gefin ríkinu af hjónunum [K og M]. Sérstaklega er tekið fram í gjafabréfinu að eignin skuli vera ævarandi eign íslenska ríkisins og hagnýtt á þann hátt að til menningarauka horfi, t.d. að rekin sé þar tilraunastarfsemi í landbúnaði, "byggðasafn, bókasafn, skjalasafn, listasafn, skóli, sjúkrahús, hressingarhæli, barnahæli eða elliheimili". Á jörðinni var um langt árabil rekin tilraunastöð á vegum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins eða til ársins 1990. Frá 1. janúar 1990 til 1. nóvember 1992 var jörðin leigð Búnaðarsambandi Austurlands og var áfram rekið fjárbú á jörðinni á leigutíma búnaðarsambandsins og annaðist [D] búið. Jörðin [Ö] var ekki sérstaklega auglýst laus til ábúðar við lok leigutíma búnaðarsambandsins, en auk [A og B] sótti ofangreindur [D] um ábúð á jörðinni. Í bréfi ráðuneytisins dags. 18. ágúst 1992 kemur fram það sjónarmið, að rétt sé að jörðin sé áfram leigð til landbúnaðarnota, en samræma þurfi störf og rekstur leigutaka notum og rekstri [hússins]. Í bréfinu tekur ráðuneytið afstöðu til umsækjenda um jörðina, en afstaða ráðuneytisins og ákvörðun hlaut ekki hljómgrunn hjá sveitarstjórn [Þ-hrepps], sbr. bréf nefndarinnar frá 31. ágúst 1992. Að beiðni yðar skal upplýst að ráðuneytið gat ekki túlkað niðurstöðu nefndarinnar á annan veg en að með henni væri hafnað ábúð [A og B] á jörðinni [Ö] eða m.ö.o. hafnað hinum áformuðu aðilaskiptum sem ráðuneytið tilkynnti um, sbr. ákvæði 1. og 2. mgr. 6. gr. Jarðalaga nr. 65/1976. Þannig var augljóst það mat sveitarstjórnar [Þ-hrepps], að áformuð aðilaskipti væru andstæð hagsmunum sveitarfélagsins. Við þær aðstæður taldi ráðuneytið sér ekki annað fært en að hverfa frá fyrri áformum um að byggja [A og B] jörðina [Ö]. Í öllu falli er ljóst að ekki var fyrir hendi viðhlítandi lagagrundvöllur til að byggja þeim jörðina gegn vilja sveitarstjórnar og því var að mati ráðuneytisins ekki um annað að ræða í þeirri stöðu sem upp var komin en að leita eftir samningum við [D] um leigu á jörðinni. Tekið skal fram að ráðuneytið taldi ekki ástæðu til að afla frekari skýringa frá sveitarstjórn, né heldur Jarðanefnd, um þau sjónarmið sem lágu að baki afgreiðslum nefndanna, í því skyni að leggja mat á þau sjónarmið sem æðra stjórnvald í skilningi Jarðalaga. Ekki barst heldur slíkt málskot til ráðuneytisins sem gat gefið tilefni til að fara þá leið. Sé vikið að sjálfri kvörtuninni, sem fylgdi bréfi yðar, þá er rétt að fram komi að sú fullyrðing [A og B], að ráðuneytið hafi veitt þeim munnlegt vilyrði fyrir ábúð á [Ö] er rétt, en það tengdist á sinn hátt áformum um ráðstöfun jarðarinnar [Y], en eins og fyrir liggja upplýsingar um í gögnum málsins, þá taldi ráðuneytið að ekki stæðu rök til að setja þá jörð í ábúð, heldur væri eðlilegra að sameina [Y og Z] í eitt lögbýli, en [Y] og raunar einnig jörðin [X] voru á sínum tíma byggð út úr landi [Z]. Skýringar á því hvers vegna horfið var frá þeim áformum er að finna í bréfi ráðuneytisins til [A og B] frá 15. nóvember s.l. Ráðuneytið telur ástæðu til að mótmæla sjónarmiðum og fullyrðingum sem fram koma í kvörtuninni um "vítavert aðgerðarleysi". Ekki hefur skort á að ráðuneytið hafi gert það sem í þess valdi stóð til að verða við erindum frá þeim sem nú bera fram kvörtun vegna ráðstöfunar jarðanna, enda hafa sjónarmið þeirra og óskir fallið að því sem ráðuneytið hefur talið eðlilegt miðað við aðstæður í landbúnaði. Ekki má horfa framhjá því að ráðstöfunarréttur jarðeigenda og frelsi til að velja sér viðsemjendur sætir verulegum takmörkunum að lögum og nægir þar að nefna ákvæði 6. gr. og IV. kafla Jarðalaga. [...] Hvað varðar ráðstöfun ráðuneytisins á jörðinni [Y] í [Þ-hreppi] þá hefur ráðuneytið haft það að markmiði, þrátt fyrir afstöðu sveitarstjórnar [Þ-hrepps], að ná samkomulagi um að skipta afnotum af jörðinni milli ábúenda á [Z] og [E]. Um það vitnar leigusamningur sem undirritaður var í ráðuneytinu hinn 29. september 1993. Sá samningur hefur nú verið áritaður um samþykki sveitarstjórnar og Jarðanefndar. Sama gildir um lóðarleigusamning ráðuneytisins, [E og F], sem gefinn var út í ráðuneytinu hinn 28. október 1993. Bent er á að samkvæmt skilmálum í áðurnefndum leigusamningi um jörðina [Y], liðir 2.2. og 8.2., er gert ráð fyrir að nýta megi hluta af jörðinni [Y] frá [Z] til slægna og beitar. Með slíkri afnotaskiptingu telur ráðuneytið að koma megi til móts við sjónarmið og óskir [A og B], þrátt fyrir að ekki væri að lögum unnt að sameina lögbýli þessi, sbr. ákvæði 12. gr. Jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum. Af hálfu ráðuneytisins er og hefur verið vilji að gera sérstakan samning við ábúendur á [Z] um leigu á hluta af jörðinni [Y] til slægna og beitar, þ.e. þann hluta hennar sem ekki er þegar leigður [E og F]." Með bréfi, dags. 18. júlí 1994, gaf ég A og B færi á að gera athugasemdir við framangreind svör ráðuneytisins. Athugasemdir þeirra bárust mér með bréfi, dags. 15. ágúst 1994. VI. Í forsendum og niðurstöðum álits míns, dags. 4. janúar 1996, segir: "1. Úrlausnarefnið. A og B hafa kvartað yfir ýmsum þáttum í meðferð umsóknar þeirra um kaup eða leigu á jörðinni Y og leigu á jörðinni Ö. Þar sem þær ákvarðanir sveitarstjórnar Þ-hrepps og jarðanefndar Æ-sýslu, sem málin snerta, voru ekki kærðar til landbúnaðarráðuneytisins skv. 17. gr. jarðalaga nr. 65/1976, innan mánaðar frá því þær voru teknar, verða þær ekki teknar til athugunar að öðru leyti en þýðingu hefur fyrir úrlausn um athafnir landbúnaðarráðuneytisins, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis. Þá var eigi heldur neytt þess úrræðis af hálfu hreppsnefndar eða jarðanefndar að skjóta ágreiningsefninu til ráðherra, sbr. 3. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976 með síðari breytingum, þar sem nefndirnar voru ekki sammála. Af þeim atriðum, sem A og B hafa kvartað yfir, tel ég, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, tilefni til þess að fjalla um kvörtun þeirra yfir því, að ráðuneytið hafi ekki kallað eftir rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu sveitarstjórnar, að samþykkja ekki annars vegar, að jarðirnar Y og Z yrðu sameinaðar og þeim yrði leigð eða seld ríkisjörðin Y, og hins vegar, að þeim yrði leigð jörðin Ö. Samkvæmt 10. tölul. 9. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands, sbr. auglýsingu nr. 96/1969, fer landbúnaðarráðuneytið með mál, er varða ríkisjarðir. Samkvæmt 36. gr. jarðalaga nr. 65/1976, með síðari breytingum, fer jarðadeild landbúnaðarráðuneytisins með málefni jarða í ríkiseign, nema annað sé ákveðið í lögum. Landbúnaðarráðuneytinu ber samkvæmt því að taka ákvörðun um, hverjum það byggir ríkisjörð. Af þessum sökum hvílir jafnframt sú skylda á landbúnaðarráðuneytinu að gæta þess, að meðferð mála, er lúta að ríkisjörðum og ráðstöfun þeirra, sé í samræmi við lög. 2. Almennt um málsmeðferð við ákvarðanir um leigu ríkisjarða. Vegna athugunar á kvörtun A og B hef ég kannað nokkur almenn atriði, sem snerta málsmeðferð við ákvarðanir um leigu ríkisjarða og undirbúning þeirra ákvarðana. Er þar um að ræða sömu atriði og fjallað er um í IV.-V. kafla í áliti mínu frá 4. janúar 1996 (mál nr. 993/1994) og eiga niðurstöður mínar, sem þar koma fram, einnig við í þessu máli, svo sem um auglýsingu ríkisjarða, ákvarðanir um hverjum ríkisjörð skuli leigð, hvernig ráðuneytið leggur slík mál fyrir jarðanefndir og sveitarstjórnir samkvæmt jarðalögum, afgreiðslu jarðanefnda og sveitarstjórna á slíkum erindum og þá skipan, að fela landbúnaðarráðuneytinu bæði að fjalla um málefni ríkisjarða og einnig úrskurðarvald um stjórnsýslukærur vegna ákvarðana jarðanefnda og sveitarstjórna samkvæmt jarðalögunum. 3. Afgreiðsla landbúnaðarráðuneytisins á umsókn A og B um ríkisjörðina Y. A og B sóttu um leigu á ríkisjörðinni Y, sem liggur að ríkisjörðinni Z, sem þau búa á. Höfðu þau í hyggju að sameina jarðirnar í eitt lögbýli, en að þeirra dómi eru tún ríkisjarðarinnar Z svo lítil, að þar verði vart rekið lífvænlegt bú. Í kvörtun A og B kemur fram, að þau hafi rætt við starfsmenn landbúnaðarráðuneytisins, sem hafi talið skynsamlegt að sameina jarðirnar. Hafi þau fengið þær upplýsingar að staða þeirra yrði sterkari, ef þau óskuðu eftir kaupum á jörðunum Z og Y. Hinn 6. mars 1992 ritaði landbúnaðarráðuneytið hreppsnefnd Þ-hrepps og jarðanefnd Æ-sýslu samhljóða bréf. Í bréfinu segir meðal annars svo: "Með bréfi þessu spyrst ráðuneytið fyrir um, hvort nefndin sé reiðubúin að samþykkja fyrir sitt leyti sölu jarðanna eða leigu á [Y] til [A og B] og sameiningu þeirra í eitt lögbýli, sbr. 3. mgr. 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976, sbr. breytingu með lögum nr. 90/1984." Hinn 12. mars 1992 rituðu A og B jarðanefnd og sveitarstjórn bréf og gerðu grein fyrir aðstæðum sínum og hagsmunum af því, að fá að leigja eða kaupa umræddar jarðir svo og að sameina þær. Í bréfi A og B til sveitarstjórnar segir meðal annars svo: "Ástæða þess að við sækjum um aukið landrými er að jörðin [Z] er fremur landlítil jörð og þar er ekkert svigrúm til aukinnar bústærðar þótt áhugi sé fyrir hendi [...]. Með [Y] fengjust þau tún sem vantar til nógs heyskapar, rýmra beitiland í fjallinu svo og húspláss fyrir sauðfé og hross [...]. Við höfum loforð um að fá keypt aukið greiðslumark, en slíkt er óhugsandi nema til komi meira beitiland og tún svo við getum verið viss um að geta fóðrað gripina. Sá heyskapur sem við höfum stundað fram að þessu á [Z] og leigutúnum hefur með útsjónarsemi og sparsemi náð að endast þeim gripum sem hafa verið til, en mun ekki nægja til að fóðra fleiri munna. Við teljum auk þess hæpið að treysta endalaust á leigutún, því hugsanlega vilja nýir ábúendur einhvern tíma nytja tún sín á annan veg. Með þessu bréfi fylgir yfirlit yfir heyskap árin 1986 og 1987 og gefur mynd af þeim heyforða sem við höfum haft til umráða. [Z-tún] hafa eins og sést gefið um 60-80% af heyforða sem notaður hefur verið ..." Svör sveitarstjórnar bárust landbúnaðarráðuneytinu með bréfi 27. mars 1992 og segir þar meðal annars svo: "Sveitarstjórn er sammála um að mæla ekki með sölu jarðarinnar eða sameiningu hennar annarri með öðrum hætti, enda nógir umsækjendur um ábúð á henni og mestur hagur fyrir sveitarfélagið að fá ábúendur á sem flest býli í sveitinni." Jarðanefnd var aftur á móti samþykk því fyrir sitt leyti að jarðirnar Z og Y yrðu sameinaðar og þær seldar A og B. Með bréfi, dags. 5. júní 1992, sem A og B segjast ekki hafa móttekið fyrr en 29. júní, tilkynnti landbúnaðarráðuneytið þeim, að vegna ósamhljóða umsagna sveitarstjórnar og jarðanefndar hefði ráðuneytið frestað því að taka ákvörðun um áframhaldandi leigu jarðarinnar. Með bréfi, dags. 15. nóvember 1993, gerði landbúnaðarráðuneytið A og B endanlega grein fyrir afstöðu sinni til þess, hvernig ráðuneytið teldi sig geta komið til móts við þau. Í erindi landbúnaðarráðuneytisins til sveitarstjórnar fólst í fyrsta lagi ósk um afgreiðslu sveitarstjórnar til samþykktar eða synjunar á sameiningu jarðanna Z og Y á grundvelli 3. mgr. 12. gr. jarðalaga, sbr. nú 5. gr. laga nr. 90/1984. Í öðru lagi fólst ósk um afgreiðslu sveitarstjórnar um samþykki eða synjun á fyrirhugaðri leigu eða sölu jarðarinnar Y til A og B á grundvelli 6. gr. jarðalaga. Áður en sveitarstjórn og jarðanefnd taka ákvörðun um að synja um ráðstöfun eignar skv. 2. mgr. 6. gr. jarðalaga eða sameiningu jarða, verða þessi stjórnvöld að undirbúa og kanna málið á viðhlítandi hátt. Líta verður meðal annars til markmiða jarðalaga, þegar afmarkað er, á hvaða sjónarmiðum heimilt er að byggja ákvörðun um, hvort ráðstöfun jarðar eða sameining jarða skuli synjað. Í 1. gr. jarðalaga segir svo: "Tilgangur laga þessara er að tryggja, að nýting lands utan skipulagðra þéttbýlissvæða sé eðlileg og hagkvæm frá þjóðhagslegu sjónarmiði og að eignarráð á landi og búseta á jörðum sé í samræmi við hagsmuni sveitarfélaga og þeirra, sem landbúnað stunda." Að því er snertir sameiningu jarðanna verður ráðið af gögnum málsins, að afstaða landbúnaðarráðuneytisins annars vegar, og A og B hins vegar hefur aðallega mótast af tilliti til stærðar, legu, húsakosts og landgæða jarðanna Y og Z. Virðist hafa verið gengið út frá því, að sameining jarðanna væri eðlileg og hagkvæm út frá þjóðhagslegu sjónarmiði, en með því væri lagður grundvöllur að hagkvæmri bústærð. Í þessu sambandi hafði einnig þýðingu, að Y var á sínum tíma byggð út úr landi Z. Beinir hagsmunir A og B, sem ætla að stunda landbúnað, vógu einnig þungt við það mat, hvort réttmætt væri að sameina umræddar jarðir, sérstaklega með tilliti til húsakosts og landgæða jarðarinnar Z. Sveitarstjórn taldi aftur á móti að umrædd ráðstöfun jarðanna væri ekki í samræmi við hagsmuni sveitarfélagsins. Í bréfi sveitarstjórnar til landbúnaðarráðuneytisins, dags. 27. mars 1992, kemur ekki fram, að lagt hafi verið mat á þau sjónarmið og hagsmuni, sem vógust á í málinu. Í bréfi sveitarstjórnar er aðeins fullyrt, að "mestur hagur fyrir sveitarfélagið [sé] að fá ábúendur á sem flest býli í sveitinni", án þess að vikið sé að öðrum veigamiklum og málefnalegum sjónarmiðum. Þá eru þeir "hagsmunir" sveitarfélagsins, sem málið er látið velta á, heldur ekki útskýrðir nánar, en í þessu sambandi skal hér áréttað, að einungis er heimilt að líta til markmiða jarðalaga og annarra málefnalegra sjónarmiða, þegar afmarkað er, hvaða "hagsmunir" sveitarfélags njóti verndar samkvæmt jarðalögum og heimilt sé að líta til við úrlausn umræddra mála. Ég tel, að svör sveitarstjórnar hafi verið með þeim hætti, að landbúnaðarráðuneytinu hafi borið að ganga eftir nánari skriflegum rökstuðningi sveitarstjórnar fyrir synjun um samþykki til fyrirhugaðrar ráðstöfunar jarðarinnar Y til A og B, svo og fyrir synjun sveitarstjórnar að samþykkja sameiningu jarðanna Z og Y. Hefði ákvörðun sveitarstjórnar verið augljóslega byggð á frambærilegum og málefnalegum sjónarmiðum, varð ekki að því fundið, að fyrirhugaðir samningar við A og B um Y gengju ekki eftir. Að öðrum kosti var landbúnaðarráðuneytinu rétt í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að leiðbeina A og B um úrræði jarðalaga til þess að fá umrædda ákvörðun sveitarstjórnar endurskoðaða. 4. Afgreiðsla landbúnaðarráðuneytisins á umsókn A og B um jörðina Ö. Með bréfi, dags. 19. maí 1992, sóttu A og B um jörðina Ö. Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins til mín, dags. 14. júlí 1994, kemur fram, að ráðuneytið hafi veitt þeim munnlegt vilyrði fyrir ábúð á Ö. Um jörðina Ö sótti einnig D. Þegar eigandi jarðar hefur tekið ákvörðun um að leigja jörð sína, er skylt, eins og áður segir, að tilkynna það sveitarstjórn og jarðanefnd og afla samþykkis þeirra til ráðstöfunarinnar, sbr. 1. mgr. 6. gr. jarðalaga nr. 65/1976. Í erindi landbúnaðarráðuneytisins til sveitarstjórnar og jarðanefndar, dags. 18. ágúst 1992, kom fram, að ráðuneytið hefði ákveðið að leita samninga við A og B um leiguafnot af Ö með búsetu á.... Þrátt fyrir þetta voru bæði umsókn þeirra og D sendar til nefndanna og tekið fram, að þær væru sendar nefndunum til afgreiðslu skv. 6. gr. laga nr. 65/1976. Því skorti á, að erindi ráðuneytisins til nefndanna væri nægjanlega ákveðið, en miðað við það orðalag, að ráðuneytið hefði ákveðið að leita samninga við ákveðna umsækjendur, fól bréfið í sér ákvörðun og tilkynningu til sveitarstjórnar og jarðanefndar um fyrirhugaða leigu Ö til A og B. Jarðanefnd svaraði landbúnaðarráðuneytinu með bréfi, dags. 15. september 1992, og segir þar meðal annars svo: "Jarðanefnd telur að umsögn hennar nái fyrst og fremst til þess hlutar [Ö] sem að búskap lýtur og álítur að aðskilja eigi rekstur [hússins] og búsins og ef aðeins er hugsað um þann hluta [Ö] sem þá yrði bújörð í einstaklings rekstri verður ekki gert upp á milli þessara tveggja umsækjenda. Að lokum tekur jarðanefnd fram að hún telur það tæplega sitt hlutverk eins og málefnum [Ö] í heild er komið að fella úrskurð í því máli." Þeir annmarkar eru á ákvörðun jarðanefndar, að erindi landbúnaðarráðuneytisins er þar ekki tekið til samþykktar eða synjunar, svo sem skylt er skv. 6. gr. jarðalaga. Vart verður þó talið að í ákvörðuninni felist synjun á ráðstöfuninni, þar sem jarðanefnd gerir ekki upp á milli umsækjendanna, eins og fram kemur í bréfi hennar. Með bréfi, dags. 31. ágúst 1992, svaraði sveitarstjórn erindi landbúnaðarráðuneytisins og segir þar meðal annars svo: "Varðandi fyrirliggjandi umsóknir er afstaða sveitarstjórnar [Þ-hrepps] sú að hún mælir með því að [D], [...], verði veitt leiguafnot af bújörðinni [Ö], þar sem hann hefur setið jörðina undanfarin ár með góðum árangri. Sjáum við ekki ástæðu til að mæla með hinum umsækjendunum, þar sem þau hafa ágæta jörð til ábúðar hér í hreppnum." Þeir annmarkar eru á ákvörðun sveitarstjórnar, að erindi landbúnaðarráðuneytisins er þar heldur ekki tekið til samþykktar eða synjunar, svo sem skylt er skv. 6. gr. jarðalaga, en í þess stað mælti hún með því að D, hreppsnefndarmanni í Þ-hreppi, yrði byggð jörðin. Samkvæmt skýringum landbúnaðarráðuneytisins voru svör sveitarstjórnar skilin svo, að "hafnað [væri] ábúð [A og B] á jörðinni [Ö] [...]. Við þær aðstæður taldi ráðuneytið sér ekki annað fært en að hverfa frá fyrri áformum um að byggja [A og B] jörðina [Ö]". Að mínum dómi gáfu svör jarðanefndar og sveitarstjórnar landbúnaðarráðuneytinu sérstaka ástæðu til þess að ganga eftir því, að jarðanefnd og sveitarstjórn tækju skýrt af skarið um, hvort synjað væri um fyrirhugaða ráðstöfun Ö og, ef svo var, að færð væru fram þau rök, sem lágu til grundvallar þeirri niðurstöðu. Var þetta sérstaklega brýnt, þar sem það erindi, sem ráðuneytið hafði lagt fyrir jarðanefnd og sveitarstjórn, var ekki nægjanleg skýrt orðað og þá þannig að fram kæmi, að jarðanefnd og sveitarstjórn væri ekki ætlað að velja úr hópi umsækjenda, eins og hin almenna framkvæmd við afgreiðslu umsókna um leigu ríkisjarða hefur verið. Í þessu sambandi skal áréttað, að landbúnaðarráðuneytinu átti að vera ljóst, að ákvarðanirnar, og þá sérstaklega ákvörðun jarðanefndar, fóru í bága við þá óskráðu grundvallarreglu stjórnsýsluréttar, að stjórnvaldsákvörðun verði efnislega að vera bæði ákveðin og skýr. Að því marki sem erindi ráðuneytisins sjálfs var þar orsökin, hvíldi sérstök skylda á ráðuneytinu að bæta þar úr. Er sérstök ástæða til að gera ríkar kröfur um ákvarðanir, sem teknar eru á grundvelli 2. mgr. 6. gr. jarðalaga, þar sem synjun á fyrirhugaðri ráðstöfun eignar er almennt íþyngjandi fyrir hlutaðeigandi aðila. Þá er rétt að benda á, að synjun skv. 2. mgr. 6. gr. jarðalaga verður að vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum og almennt verður að ganga út frá því, að ekki verði synjað samþykkis á ráðstöfun jarðar nema ljóst liggi fyrir, að ráðstöfunin sé andstæð þeim hagsmunum sveitarfélags, sem verndar njóta af jarðalögum nr. 65/1976. Í bréfi sveitarstjórnar er einungis vísað til þess, að A og B hafi þegar jörð til ábúðar í sveitarfélaginu. Ekki er gerð grein fyrir því, hvernig þessi rök áttu að geta réttlætt synjun sveitarstjórnar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. jarðalaga, eins og skýra verður það ákvæði með hliðsjón af markmiðum laganna. Að öðru leyti voru ekki færð fram frambærileg og málefnaleg sjónarmið fyrir þeirri niðurstöðu sveitarstjórnar, að veita ekki samþykki sitt til ráðstöfunar jarðarinnar til A og B. Þess í stað mælir sveitarstjórn með því að jörðin verði veitt D. Af þessu tilefni er sérstök ástæða til að árétta, að þegar sveitarstjórn synjar um fyrirhugaða ráðstöfun eignar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. jarðalaga, hefur hún að lögum ekki forræði á því að gengið verði til samninga við aðra aðila. Ég tel, að framangreindir annmarkar á afgreiðslu sveitarstjórnar og jarðanefndar hafi verið svo verulegir, að ráðuneytinu hafi borið að hafa forgöngu um að bætt yrði úr þeim, áður en tekin var ákvörðun um ráðstöfun jarðarinnar, eftir atvikum með því að leggja málið formlega á ný fyrir sveitarstjórn og jarðanefnd á grundvelli 6. gr. jarðalaga. Þá tel ég, að í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti hefði átt að veita A og B leiðbeiningar um heimild til þess að kæra umræddar ákvarðanir sveitarstjórnar og jarðanefndar skv. 17. gr. jarðalaga. VII. Niðurstaða. Hinn 21. febrúar 1994 leituðu til mín A og B og báru fram kvörtun yfir athöfnum landbúnaðarráðuneytisins. Í stuttu máli voru málavextir þeir, að A og B höfðu sótt um leigu eða kaup á jörðinni Y í því augnamiði að sameina þá jörð nágrannajörðinni Z, sem þau búa á. Sveitarstjórn Þ-hrepps samþykkti ekki þessa ráðstöfun jarðarinnar. Þá sóttu A og B um að fá jörðina Ö leigða. Sveitarstjórn Þ-hrepps hafnaði einnig þeirri ráðstöfun. Að því er snertir afgreiðslu sveitarstjórnar á erindum, er snerta jörðina Y, tel ég, að svör sveitarstjórnar hafi verið með þeim hætti, að landbúnaðarráðuneytið hafi átt að ganga eftir nánari skriflegum rökstuðningi sveitarstjórnar fyrir synjun um samþykki til fyrirhugaðrar ráðstöfunar jarðarinnar Y til A og B, svo og fyrir synjun sveitarstjórnar að samþykkja sameiningu jarðanna Z og Y. Væri ákvörðun sveitarstjórnar augljóslega byggð á frambærilegum og málefnalegum sjónarmiðum, varð ekki að því fundið að fyrirhugaðir samningar við A og B um Y gengju ekki eftir. Að öðrum kosti var landbúnaðarráðuneytinu rétt í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að leiðbeina A og B um úrræði jarðalaga til þess að fá umrædda ákvörðun sveitarstjórnar endurskoðaða. Að því er snertir afgreiðslu jarðanefndar og sveitarstjórnar á fyrirhugaðri ráðstöfun á Ö, tel ég, að svör jarðanefndar og sveitarstjórnar hafi gefið landbúnaðarráðuneytinu sérstaka ástæðu til þess að ganga eftir því, að jarðanefnd og sveitarstjórn tækju skýrt af skarið um, hvort synjað væri um þá ráðstöfun Ö, sem ráðuneytið hafði ákveðið, þ.e. að leigja A og B jörðina og, ef svo var, að færð væru fram þau rök, sem lægju til grundvallar þeirri niðurstöðu. Ennfremur er til þess að líta, að í svörum sveitarstjórnar komu ekki fram nein frambærileg og málefnaleg sjónarmið, sem réttlætt gátu synjun á fyrirhugaðri ráðstöfun jarðarinnar á grundvelli 2. mgr. 6. gr. jarðalaga. Þá er í áliti þessu vísað til umfjöllunar minnar í áliti í máli nr. 993/1994 vegna nokkurra almennra atriða um málsmeðferð við ákvarðanir um leigu ríkisjarða."