Sveitarfélög.

(Mál nr. 7217/2012)

A og B kvörtuðu yfir því að sveitarfélag hefði hafnað því að greiða þeim kostnað sem hlaust af málaferlum vegna eignarnáms á landi í þeirra eigu. Í erindinu kom fram að sveitarfélagið hefði greitt eignarnámsþolum í sambærilegum málum hluta kostnaðar og að þau teldu ákvörðun um að hafna beiðninni því í andstöðu við jafnræðisreglu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. taldi umboðsmaður rétt að A og B freistuðu þess að bera erindi sitt undir innanríkisráðherra áður en það kæmi til frekari umfjöllunar hjá embætti sínu, sbr. ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sem voru í gildi þegar umrædd ákvörðun sveitarfélagsins var tekin, og síðar ákvæði sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að ef A og B kysu að leita með erindi sitt til innanríkisráðherra ættu þau þess kost, að fenginni afstöðu ráðherra til erindisins, að leita til sín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi.