Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7023/2012)

Hinn 14. maí 2012 kvartaði A yfir því að umhverfisráðuneytið hefði ekki kveðið upp úrskurð í kærumáli sem varðaði framkvæmd Umhverfisstofnunar á námskeiðahaldi í tengslum við veitingu leyfis til að starfa sem leiðsögumaður við hreindýraveiðar. A lagði fram umsókn 28. júlí 2008 en Umhverfisstofnun hafnaði henni 18. maí 2011. A lagði fram kæru hjá ráðuneytinu 24. maí 2011 og lagði fram athugasemdir við umsögn Umhverfisstofnunar 5. október það ár.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum umhverfisráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að kæru A hefði verið vísað frá ráðuneytinu 24. ágúst 2012 á þeim grundvelli að ákvörðun um að hafna umsókn um þátttöku í námskeiði á vegum Umhverfisstofnunar teldist ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga og væri þ.a.l. ekki kæranleg til ráðuneytisins. Þar sem málið hafði hlotið afgreiðslu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar og lauk athugun sinni á málinu. Hann tók fram að ef A teldi á rétt sinn hallað með niðurstöðu ráðuneytisins ætti hann kost á að leita til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Hins vegar benti hann á að breytingar hefðu orðið á lagareglum frá því að A lagði erindi sitt fram. Ef hann kysi að leita eftir umræddum réttindum og setu á undanfarandi námskeiði kynni því að vera rétt að leggja málið í farveg samkvæmt hinum nýju reglum.

Umboðsmaður ákvað jafnframt að rita umhverfis- og auðlindaráðuneytinu bréf þar sem gerði athugasemdir við að mál A hefði ekki verið afgreitt fyrr en 15 mánuðum eftir að hann lagði kæru sína fram og tók fram að það hefði ekki samrýmst málshraðareglu stjórnsýslulaga. Í því sambandi benti hann á að þegar A skaut málinu til ráðuneytisins voru þegar liðin tæp þrjú ár frá umsókn hans til Umhverfisstofnunar og því hefði verið brýnt tilefni til að hraða meðferð málsins eftir föngum. Þá vakti umboðsmaður athygli ráðuneytisins á því að eftir breytingu sem gerð var á lögum árið 2011 væri ljóst að ákvörðun Umhverfisstofnunar um að synja umsókn um þátttöku í námskeiðum stofnunarinnar hefði afgerandi þýðingu fyrir möguleika á að öðlast réttindi til að starfa sem leiðsögumaður við hreindýraveiðar. Í ljósi þeirra hagsmuna, sem kynnu m.a. eftir atvikum að njóta verndar atvinnufrelsisákvæðis 75. gr. stjórnarskrár, taldi umboðsmaður ekki unnt að ganga út frá því að slík ákvörðun teldist ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga. Hann kom því ábendingu á framfæri við ráðuneytið að huga eftirleiðis að þessu atriði.