Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7068/2012)

Í október 2011 ritaði umboðsmaður Alþingis Samkeppniseftirlitinu bréf og óskaði eftir vissum upplýsingum um málsmeðferðartíma stofnunarinnar. Tildrög fyrirspurnarinnar voru kvartanir og ábendingar sem umboðsmanni höfðu borist frá félögum og einstaklingum. Í svörum Samkeppniseftirlitsins til umboðsmanns kom fram að stofnunin væri meðvituð um þann vanda sem uppi væri og leitaði leiða til að bregðast við. Umboðsmaður taldi að miðað við aðstæður hefði ekki þýðingu að aðhafast frekar gagnvart Samkeppniseftirlitinu enda gæti niðurstaða slíkrar athugunar aldrei orðið önnur en að beina tilmælum til stofnunarinnar um að huga betur að málsmeðferð sinni. Umboðsmaður ákvað hins vegar að rita efnahags- og viðskiptaráðherra, sem þá fór með málaflokk samkeppnismála, bréf í ljósi þess að ráðuneyti hans fór með almennt eftirlit með starfrækslu og fjárreiðum stofnunarinnar. Í bréfinu óskaði umboðsmaður, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að sér yrðu veittar upplýsingar um það hvort ráðuneytið hefði vitneskju um þá stöðu sem Samkeppniseftirlitið væri í og þá hvort lagt hefði verið mat á stöðuna og gripið til einhverra aðgerða af því tilefni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, sem tók við samkeppnismálum af efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, kom m.a. fram að ráðuneytið tæki undir það að álag á Samkeppniseftirlitið hefði aukist mjög á síðustu misserum og hefði lagt áherslu á að vekja athygli á þörf fyrir viðbótarfjárheimildir til að gera því kleift að sinna hlutverki sínu. Því var síðan nánar lýst hvað gert hefði verið í þeim efnum og að fyrirhugað væri að kynna málið á vettvangi fjárlaganefndar Alþingis vegna fjárlaga 2013 og fjáraukalaga 2012. Í ljósi þessara svara taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins að sinni enda var ljóst að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu væri kunnugt um stöðu Samkeppniseftirlitsins og einnig væri boðað að málið yrði tekið upp á vettvangi Alþingis. Umboðsmaður lauk því meðferð sinni á málinu en tók fram að hann myndi áfram fylgjast með málshraða Samkeppniseftirlitsins og taka hann til frekari athugunar ef ástæða yrði til þess.