Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6995/2012)

Hinn 19. apríl 2012 kvartaði A yfir því að innanríkisráðuneytið hefði ekki svarað erindi sem hann bar fram í tveimur bréfum sumarið 2011 og laut að beiðni hans um endurupptöku máls vegna umsóknar hans um gjafsókn. Einnig vísaði hann sérstaklega til tveggja bréfa sinna til ráðuneytisins, dags. 22. febrúar og 26. mars 2012, en af kvörtuninni varð ráðið að með þeim hefði A krafist svars við fyrrnefndu erindi sínu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom m.a. fram að vegna umfangs málsins, anna í ráðuneytinu og forgangsröðunar verkefna hefði ekki tekist að ljúka afgreiðslu málsins en að stefnt væri að því að ljúka meðferð á málum A í nóvember 2012. Umboðsmaður taldi því rétt að ljúka málinu en tók fram að ef meðferð mála A drægist enn á langinn gæti hann leitað til sín á ný.