Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 7137/2012)

Hinn 29. ágúst 2012 kvartaði A yfir töfum á afgreiðslu sýslumannsembættis við að aflýsa lóðarleigusamningi. Í erindi A kom fram að hann hefði skilað inn gögnum vegna málsins fyrir rúmlega sex mánuðum síðan. Svar hefði borist frá fulltrúa sýslumanns 17. ágúst 2012 þar sem fram hefði komið að málið væri enn í skoðun.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum sýslumanns til umboðsmanns vegna málsins kom fram að tafir á afgreiðslu málsins skýrðust af því að krafa A hefði verið óljós og ekki studd gögnum en embættið myndi óska eftir frekari gögnum og taka í kjölfarið ákvörðun um beiðnina. Í ljósi þessara skýringa taldi umboðsmaður rétt að ljúka athugun sinni á málinu en tók fram að ef það drægist úr hófi að taka málið til frekari afgreiðslu væri A unnt að leita til sín á ný með kvörtun af því tilefni. Umboðsmaður ákvað jafnframt að rita sýslumanni bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að ekki hefði fyrr verið gerður reki að því að óska nánari skýringa frá A á erindi hans og benti á að hann hefði óskað eftir skýringum á afgreiðslu málsins í ágúst 2012 án þess að hafa þá verið greint frá því að nánari útskýringar og gögn vantaði til að hægt væri að taka málið til skoðunar. Umboðsmaður beindi því þess vegna til sýslumannsembættisins að gæta betur að þessu í störfum sínum framvegis.