Vopn.

(Mál nr. 6707/2011)

A kvartaði yfir synjun ríkislögreglustjóra á beiðni um leyfi til innflutnings á þremur tegundum örvarodda fyrir veiði og staðfestingu dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins á hinni kærðu ákvörðun með úrskurði. Synjunin var byggð á því að ekki yrði séð að fullnægt væri skilyrði undanþáguákvæðis 3. mgr. 30. gr. vopnalaga nr. 16/1998 um að sérstakar ástæður yrðu að mæla með því að víkja frá banni við innflutningi slíkra vopna. Enn fremur var vísað til þess að veiðar með örvum væru óheimilar hér á landi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 9. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi þess orðalags 2. mgr. 30. gr. vopnalaga að bann taki ekki til boga og, samkvæmt skýringum innanríkisráðuneytisins, annars nauðsynlegs búnaðar sem er „ætlaður“ til æfinga eða keppni í bogfimi taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemd við að ráðuneytið teldi þá undanþágu ekki eiga við í tilviki A, enda sótti hann um leyfi til innflutnings á örvaroddum fyrir veiði og hafði í bréfaskiptum vegna málsins dregið fram að eiginleikar þeirra væri aðrir en t.d. svokallaðra „markodda“.

Umboðsmaður tók jafnframt fram að undanþáguákvæði 3. mgr. 30. gr. vopnalaga um sérstakar ástæður fæli í sér verulega matskennda undanþágu frá einni af mörgum bannreglum laganna og að ráðuneytið hefði nokkuð svigrúm til að meta hvort undanþágan ætti við. Fyrir lá að greinarmunur var gerður á afgreiðslu umsókna um undanþáguheimild vegna sérstakra ástæðna, annars vegar vegna riffla með meira en 8 mm hlaupvídd og hins vegar vegna innflutnings á örvaroddum til veiða. Í skýringum innanríkisráðuneytisins var m.a. rakið að ástæður þessa greinarmunar væri að strangar kröfur væru gerðar til skotvopnaeignar og meðferðar skotvopna, s.s. um sérstök próf sem gangast þyrfti undir og skotvopnaleyfi sem þyrfti að endurnýja og heimilt væri að afturkalla. Engin slík ákvæði giltu hins vegar um þau vopn sem A óskaði eftir að flytja inn og þeir sem notuðu slík vopn gengjust ekki undir próf eða hefðu sambærileg leyfi til meðferðar þeirra og gilti um skotvopn. Þá væri eftirlit með slíkum vopnum með öðrum hætti, m.a. þar sem óheimilt væri að stunda bogveiðar á Íslandi. Með vísan til þessara röksemda taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að fullyrða að umræddur greinarmunur teldist ómálefnalegur. Af því leiddi jafnframt að umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemd við það að dómsmála- og mannréttindaráðuneytið hefði staðfest synjun ríkislögreglustjórans á umsókn A um undanþágu vegna sérstakra ástæðna.

Að lokum benti umboðsmaður A á að synjun ríkislögreglustjóra á nýrri umsókn hans um innflutning veiðiodda, sem var byggð á öðrum forsendum en fyrri umsóknin, yrði að bera undir innanríkisráðherra, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áður en hún gæti komið til umfjöllunar hjá sér. Að fenginni niðurstöðu ráðherra gæti hann leitað til sín, teldi hann sig þá enn beittan rangsleitni.


Sjá tengt mál
Sjá tengt mál