Fullvirðisréttur. Endurúthlutun. Formkröfur um undirbúning ákvörðunar. Andmælaréttur.

(Mál nr. 1163/1994)

A kvartaði yfir úrskurði landbúnaðarráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu, að taka af jörð hennar 20 ærgilda fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða og endurúthluta öðru lögbýli framleiðsluréttinum. Úthlutun 20 ærgilda til jarðar A var sérstök úthlutun búnaðarsambands til viðbótar útreiknuðum fullvirðisrétti og var byggð á 4. gr. reglugerðar nr. 443/1987 og 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 157/1987. Slík úthlutun byggðist á því að framleiðendur uppfylltu tiltekin skilyrði, svo sem að þeir hefðu orðið fyrir áföllum í sauðfjárrækt, framleiddu minna en tiltekið lágmark mjólkur og sauðfjár og hefðu meirihluta tekna sinna af mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, hefðu tekið í notkun ný fjárhús eða væru frumbýlingar. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990, um fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1991-1992, skyldi fullvirðisréttur á því verðlagsári vera hinn sami og árið áður. Þó var tekið fram, að búnaðarsamband gæti, með sérstökum rökstuðningi óskað leyfis landbúnaðarráðherra til endurúthlutunar, að hluta eða öllu leyti, og að rökstudd umsókn skyldi í því tilviki send Framleiðsluráði landbúnaðarins. Umboðsmaður tók fram, að með ákvæðum um sérstakan rökstuðning af hálfu búnaðarsambands og rökstudda umsókn hefði landbúnaðarráðherra á grundvelli reglugerðarheimildar bundið heimildina til að taka hinn sérstaka fullvirðisrétt af þeim sem hans höfðu notið sérstökum skilyrðum. Var sú ákvörðun bindandi fyrir landbúnaðarráðherra og aðra sem komu að framkvæmd þessara mála. Í málinu lá ekki fyrir skrifleg, rökstudd umsókn, en búnaðarsambandið fór munnlega fram á það við Framleiðsluráð landbúnaðarins að það nýtti sér heimildina. Þá kom ekki fram sérstakur rökstuðningur eða lýsing á sjónarmiðum stjórnar búnaðarsambandsins í bréfi framleiðsluráðs til landbúnaðarráðuneytisins, þar sem ósk búnaðarsambandsins var komið á framfæri við ráðuneytið. Grundvöllur og undirbúningur ákvörðunar landbúnaðarráðherra um að leyfa Búnaðarsambandi Vestur-Húnavatnssýslu að endurúthluta fullvirðisréttinum var því ekki í samræmi við ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990. Í kjölfar leiðbeininga umboðsmanns skaut A máli sínu til landbúnaðarráðherra til leiðréttingar á rétti jarðarinnar. Um stjórnsýslukæru var að ræða og kom sérstaklega fram í erindi A að hún hefði ekki fengið upplýsingar um ástæður flutnings fullvirðisréttarins og að hún óskaði eftir að fá þær upplýsingar. Landbúnaðarráðuneytið leitaði eftir skýringum Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu vegna kæru A. Að þeim skýringum fengnum afgreiddi ráðuneytið erindi A þannig að búnaðarsambandinu hefði verið heimilt að endurúthluta umræddum 20 ærgilda fullvirðisrétti. Upplýsingar og gögn frá búnaðarsambandinu voru ekki kynntar A áður en ráðuneytið afgreiddi erindi hennar. Umboðsmaður tók fram, að hafa bæri í huga að A hefði sérstaklega óskað eftir því að fá umbeðnar upplýsingar og að þær hefðu haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Hefði A í raun hvorki fengið tækifæri til þess að tjá sig um þau atriði sem réðu úrslitum í málinu hjá búnaðarsambandinu né landbúnaðarráðuneytinu. Taldi umboðsmaður að eins og mál þetta væri vaxið hefði landbúnaðarráðuneytinu borið að veita A tækifæri til að tjá sig um skýringar búnaðarsambandsins, áður en málinu væri ráðið til lykta, í samræmi við hina óskráðu grundvallarreglu um andmælarétt. Niðurstaða umboðsmanns var að verulegir annmarkar hefðu verið á grundvelli og undirbúningi ákvörðunar landbúnaðarráðherra að heimila endurúthlutun fullvirðisréttarins, sem gætu leitt til ógildingar ákvörðunarinnar. Á þessu var ekki tekið er A skaut máli sínu til landbúnaðarráðuneytisins og andmælaréttar A var ekki gætt. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til landbúnaðarráðuneytisins að taka mál A til afgreiðslu að nýju, en tók fram, að ekki væri tekin afstaða til efnis þeirra sjónarmiða sem færð höfðu verið fram af hálfu Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu í málinu.

I. Hinn 9. júlí 1994 leitaði til mín A, G-bæ í F-hreppi. A kvartaði yfir úrskurði landbúnaðarráðuneytisins frá 27. júní 1994, þar sem staðfest var sú ákvörðun Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu, að taka af G-bæ 20 ærgilda fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða og endurúthluta öðru lögbýli þeim framleiðslurétti. II. Málavextir eru þeir, að hinn 11. júlí 1991 ákvað stjórn Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu að fella niður úthlutun á 20 ærgildum, er búnaðarsambandið hafði ráðstafað til G-bæjar hinn 11. mars 1987. Var þessi ákvörðun tilkynnt Framleiðsluráði landbúnaðarins með bréfi, dags. 12. júlí sama ár, ásamt öðrum breytingum á fullvirðisrétti til sauðfjárframleiðslu, er taka skyldu gildi, að því er tæki til innleggs 1992. Kemur þar fram, að þeim 20 ærgildum, er hafði áður verið úthlutað G-bæ, hefði nú verið úthlutað N-bæ. Ákvörðun þessi var tilkynnt A með bréfi, dags. 20. ágúst 1991, þar sem meðal annars segir svo: "Stjórn Búnaðarsambands Vestur Húnavatnssýslu nýtti sér heimild í reglugerð um endurskoðun á eldri úthlutunum á fullvirðisrétti þeim er Búnaðarsambandið hafði ráðstafað. Við þá endurskoðun ákvað stjórn B.S.V.H. að 20 ærg. úthlutun að [G-bæ] félli niður frá og með verðlagsárinu 1992 til 1993. þ.e.s. um leið og nýr búvörusamningur tekur gildi. Þetta tilkynnist hér með." Hinn 9. nóvember 1992 bar A fram kvörtun við mig vegna framangreindrar ákvörðunar Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu. Með bréfi, dags. 15. desember 1992, gerði ég A grein fyrir því, að samkvæmt ákvæðum 30. gr. laga nr. 46/1985, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, væri landbúnaðarráðherra heimilt með reglugerð að skipta framleiðslu innan hvers svæðis eða fela stjórn búnaðarsambands að skipta framleiðslunni milli einstakra framleiðenda. Í 31. gr. sömu laga væri síðan gert ráð fyrir því, að sérstök nefnd, er landbúnaðarráðherra skipaði, skyldi úrskurða um rétt einstakra framleiðenda samkvæmt ákvæðum b- og c-liða 30. gr. laganna. Slíkum úrskurði yrði síðan skotið til landbúnaðarráðherra innan 30 daga frá því að nefndin hefði kveðið upp úrskurð sinn. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, væri ekki hægt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta mætti máli til æðra stjórnvalds og það hefði ekki áður fellt úrskurð sinn í málinu. Brysti því skilyrði til þess að ég gæti tekið kvörtun A að svo stöddu til frekari athugunar, en ef hún teldi sig enn órétti beitta, að fenginni niðurstöðu landbúnaðarráðuneytisins, væri henni heimilt að leita til mín á ný. Hinn 3. desember 1993 kærði A ákvörðun Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu til landbúnaðarráðuneytisins. Í bréfi sínu til ráðuneytisins óskaði A eftir því, að 20 ærgilda fullvirðisrétturinn yrði færður til G-bæjar á ný, enda teldi hún framangreindan tilflutning á fullvirðisréttinum eigi standast að lögum. A kvaðst hafa leitað eftir því að fá upplýsingar um ástæður tilflutningsins, en ávallt verið synjað um slíkar upplýsingar, bæði hjá Búnaðarsambandi Vestur-Húnavatnssýslu og hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins. Auk þess að fara fram á leiðréttingu sinna mála, óskaði A eftir því við ráðuneytið, að hún fengi upplýsingar um ástæður þess, að umræddur fullvirðisréttur hefði verið færður frá G-bæ og til N-bæjar. Í tilefni af kæru A óskaði landbúnaðarráðuneytið hinn 22. febrúar 1994 eftir því, að Búnaðarsamband Vestur-Húnavatnssýslu veitti ráðuneytinu upplýsingar, skýringar og gögn vegna málsins. Í svari búnaðarsambandsins til ráðuneytisins, dags. 10. mars 1994, segir meðal annars svo: "Samkv. reglugerð um framleiðslurétt sauðfjárafurða frá 12. okt. 1990 fyrir verðlagsárið 1991/1992 var gefin heimild til handa búnaðarsamböndum til endurúthlutunar á áðurúthlutuðum rétti. Þar sem frestur var mjög skammur eða til 20. okt. 1990 var óskað [eftir] munnlegu leyfi til að nýta sér þessa heimild við Framleiðsluráð og að fá nokkurra daga frest til að ganga formlega frá skriflegri beiðni þar sem ekki tókst að koma á stjórnarfundi, en haft var [samband] við stjórnarmenn í síma. Á stjórnarfundi B.S.V.H. er haldinn var 26. október 1990 var svo gengið frá þessari beiðni og bréf sent til staðfestingar fyrra símtali. Á fundi stjórnar B.S.V.H. 11. júlí 1991 var svo gengið frá endurúthlutun. Þar var færður fullvirðisréttur frá [S-bæ] og [G-bæ]. Þessum rétti var síðan endurúthlutað að [U-bæ] og [N-bæ]. Þessir bæir eru allir í [F-hreppi]. [...] Hver voru þá megin rök fyrir því að færa fullvirðisrétt frá [G-bæ]. Stjórn B.S.V.H. gat ekki litið framhjá þeirri staðreynd að [A] hafði 1989 leigt Framleiðnisjóði landbúnaðarins 200 ærg. af þeim 239 ærg. sem [G-bær] hafði. Stjórn B.S.V.H. taldi óeðlilegt að aðili sem fengið hafði úthlutun af þeim rétti sem sambandið hafði til jöfnunar væri notað á þann hátt. Þegar margir aðrir voru í miklum vanda með sína framleiðslu. Af þessum ástæðum var líka hægt að draga þá ályktun að til stæði að draga úr búskap í [G-bæ] þegar ekki stóðu eftir nema 39 ærg. (19 ærg. að frádregnum 20 ærg. frá B.S.V.H.) og allir hljóta að sjá að þá er það ekki grundvöllur til búskapar með þann rétt. Að hinu væri kannski rétt að huga hvort bústofn í [G-bæ] hefði verið í samræmi við þessa leigu til Framleiðnisjóðs og það hlýtur að verða kannað haldi þessar bréfaskriftir [A] áfram." Með bréfi landbúnaðarráðuneytisins til A, dags. 27. júní 1994, vísaði ráðuneytið til framangreindra upplýsinga og skýringa Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu. Þá segir í bréfi ráðuneytisins: "Að virtum þeim upplýsingum sem fyrir liggja í málinu er það mat ráðuneytisins að stjórn Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu hafi verið heimilt að endurúthluta þeim 20 ærgilda fullvirðisrétti til sauðfjárframleiðslu sem áður hafði verið ráðstafað á jörðina [G-bæ]. Vísast í því sambandi til ákvæða 3. og 4. gr. reglugerðar nr. 407 12. október 1990 um fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1991-1992. [...] beiðni yðar er því hafnað." Í kvörtun sinni setti A fram eftirfarandi athugasemdir við málsmeðferð Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu og landbúnaðarráðuneytisins í máli hennar: "1) Búnaðarsambandið gaf aldrei skýringu á ákvörðun sinni. Ég fékk hins vegar þær upplýsingar í landbúnaðarráðuneytinu, að viðkomandi hefði m.a. haft lítinn fullvirðisrétt og ekki haft aðrar tekjur. Hvort sem þetta var ástæðan eða ekki, þá var það ekki rétt að ábúandi [N-bæjar] hefði ekki haft neinar aðrar tekjur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér voru til skrifleg gögn þar sem búnaðarsambandið rökstuddi sérstaklega tilflutninginn. Þau gögn hef ég aldrei fengið að sjá, hvað þá að koma að mínum skýringum. 2) Ég var með minnsta kvótann í hreppnum og eini starfandi bóndinn, sem búnaðarsambandið skerti framleiðsluréttinn hjá, - hafði tekið kvóta af. Með ákvörðun sinni var sambandið í raun að ákveða að ég hefði ekki rétt til þess að stunda landbúnað lengur. 3) Að því er varðar landbúnaðarráðuneytið vil ég taka fram, að mér var aldrei gefinn kostur á að koma að athugasemdum mínum við bréf búnaðarsambandsins en á því byggir ráðuneytið sína niðurstöðu. Tel ég að það hafi skipt verulegu máli fyrir mig að koma að mínum athugasemdum, þar sem í niðurlagi bréfs búnaðarsambandsins eru dregin fram mjög svo ómálefnaleg sjónarmið. 4) Í niðurstöðu landbúnaðarráðuneytisins er þess fyrst getið, að þær ástæður hafi legið að baki skerðingunni, að ég hafi leigt framleiðnisjóði 200 ærgildi af fullvirðisrétti [G-bæjar]. Ég hef aldrei fengið að tjá mig um þessa ástæðu og tel þessa röksemd vera nýja í málinu. Enda virðist ráðuneytið ekki hafa kannað málið nægilega þar sem ég leigði réttinn í mars 1990 og sagði honum upp í ágúst 1990. Ákvörðun búnaðarsambandsins er tekin rétt um 11 mánuðum eftir að ég hafði sagt upp samningnum og átti því að vera sambandinu kunnugt." III. Ég ritaði landbúnaðarráðherra bréf 25. júlí 1994 og óskaði eftir því, að ráðuneyti hans léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Svar ráðuneytisins barst mér, ásamt gögnum málsins, 19. september 1994. Segir þar meðal annars svo: "Tildrög málsins eru þau að með bréfi dags. 20. ágúst 1991 tilkynnti stjórn Búnaðarsambands V-Húnavatnssýslu [A] þá ákvörðun sína að fella niður við endurúthlutun þau 20 ærgildi sem jörðin [G-bær] hafði haft til ráðstöfunar. Ákvörðunin er byggð á heimild a-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990 um fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1991-1992 og miðaðist við verðlagsárið 1992-1993. Í bréfi dags. 3. desember 1993 óskaði [A] eftir því að landbúnaðarráðherra hlutaðist til um að framleiðsluréttur [G-bæjar] yrði leiðréttur til samræmis við það sem hann "hefði orðið áður en Búnaðarsamband Vestur-Húnavatnssýslu úthlutaði fullvirðisrétti í kindakjöti, 20 ærgildum, til [N-bæjar] sem áður hafði tilheyrt [G-bæ]". Með bréfi dags. 22. febrúar s.l. óskaði ráðuneytið eftir því að búnaðarsambandið veitti allar nauðsynlegar upplýsingar, skýringar og gögn vegna tilfærslu fullvirðisréttarins milli ofangreindra jarða. Í svarbréfi þess frá 10. mars s.l. koma fram þau rök fyrir ákvörðuninni að [A] hafi á árinu 1989 leigt Framleiðnisjóði landbúnaðarins 200 ærgilda fullvirðisrétt til sauðfjárframleiðslu, af þeim 239 ærgildum sem jörðin hafði. Ljóst er að það var mat stjórnar búnaðarsambandsins að við þær aðstæður væri óeðlilegt að aðili sem fengið hafði úthlutað af þeim framleiðslurétti sem samböndin fengu til ráðstöfunar til jöfnunar, héldi slíkum framleiðslurétti, á sama tíma og margir aðrir framleiðendur væru í miklum vanda með sína framleiðslu vegna lítils framleiðsluréttar. Rétt er að fram komi í þessu sambandi að búnaðarsamböndin höfðu nokkuð rúmar heimildir til úthlutunar á framleiðslurétti, sbr. t.d. 9. gr. reglugerðar nr. 445/1986 um fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1987-1988, sbr. breytingu með rg. nr. 157/1987. Umsóknir um aukinn framleiðslurétt fóru yfirleitt langt fram úr möguleikum búnaðarsambanda til jöfnunar og leiðréttingar, þannig að hafna varð mörgum umsóknum um aukinn framleiðslurétt. Að mati ráðuneytisins var ekki óeðlilegt að þegar framleiðandi, sem hafði til ráðstöfunar hluta af framleiðslurétti frá búnaðarsambandi, ráðstafar framleiðslurétti sínum að stórum hluta af lögbýlinu, þá sé slík tímabundin úthlutun búnaðarsambands tekin til endurmats í ljósi breyttra aðstæðna. Að því virtu taldi ráðuneytið að ekki væru fyrir hendi fullgild rök til að taka til greina beiðni [A] um leiðréttingu á framleiðslurétti jarðarinnar [G-bæjar], sbr. bréf ráðuneytisins dags. 27. júní s.l. Það er rétt sem fram kemur í kvörtuninni að upplýsingar þær og skýringar sem fram koma í bréfi Búnaðarsambands V-Húnavatnssýslu dags. mars s.l. voru ekki sérstaklega kynntar [A]. Tekið skal fram að ráðuneytið leit svo á að ekki væri þörf á slíkri kynningu, enda mátti [A] vera fullljóst að tímabundnar úthlutanir búnaðarsambandsins væru ætlaðar til leiðréttingar hjá þeim framleiðendum sauðfjárafurða sem af einhverjum ástæðum hefðu lítinn framleiðslurétt miðað við framleiðslumöguleika en væru ekki ætlaðar þeim framleiðendum sem leigðu grunnrétt jarða og væru að draga úr framleiðslu sinni. Í niðurlagi kvörtunarinnar er því haldið fram að ráðuneytið hafi ekki kannað málið nægilega vel áður en ákvörðunin var tekin, vegna þess að leigusamningi við Framleiðnisjóð landbúnaðarins hafi verið sagt upp í ágústmánuði 1990, eða ellefu mánuðum áður en Búnaðarsamband V-Húnavatnssýslu tók ákvörðun um úthlutunina. Ráðuneytið leyfir sér hér með að mótmæla slíkum fullyrðingum. Tekið skal fram að uppsögn á umræddum leigusamningi um ráðstöfun fullvirðisréttarins gilti aðeins frá lokum samningstímans. þ.e. 31. ágúst 1992, en ekki frá uppsagnardegi." Með bréfi, dags. 20. september 1994, gaf ég A kost á því að gera athugasemdir við framangreind svör landbúnaðarráðuneytisins. Athugasemdir A bárust mér með bréfi, dags. 8. desember 1994. IV. Með bréfi, dags. 6. október 1995, til landbúnaðarráðuneytisins vísaði ég til þess að ég hefði með bréfi ráðuneytisins frá 16. september 1994 fengið send þau gögn, "sem tiltæk [væru] í ráðuneytinu vegna málsins". Kvörtun A varðaði beitingu á a-lið 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990, en þar sagði, að búnaðarsamband gæti með sérstökum rökstuðningi óskað leyfis landbúnaðarráðherra til endurúthlutunar á ákveðnum fullvirðisrétti og átti "rökstudd umsókn" að hafa borist Framleiðsluráði landbúnaðarins fyrir 20. október 1990. Af þessu tilefni óskaði ég eftir að fá upplýsingar um, hvenær rökstudd umsókn um endurúthlutunina hefði borist Framleiðsluráði landbúnaðarins og hvenær landbúnaðarráðherra hefði veitt leyfi til hennar í tilviki G-bæjar. Jafnframt óskaði ég eftir ljósritum af umsókninni og leyfisbréfi ráðherra. Svarbréf ráðuneytisins barst 3. nóvember 1995 og kemur þar fram, að ráðuneytið hafi aflað upplýsinga um málið frá Framleiðsluráði landbúnaðarins og síðan segir í bréfinu: "Samkvæmt því sem næst verður komið mun Búnaðarsambandið hafa óskað munnlega eftir því við Framleiðsluráð að nýta sér heimild a-liðar 3. gr. rg. nr. 407/1990 til að endurskoða fyrri úthlutanir fullvirðisréttar til sauðfjárframleiðslu og var þeirri ósk komið á framfæri í bréfi Framleiðsluráðs til ráðuneytisins dags. 30. október 1990. Heimild ráðuneytisins er að finna í bréfi Framleiðsluráðs landbúnaðarins dags. 15. nóvember 1990." Í tilvitnuðu bréfi Framleiðsluráð landbúnaðarins frá 30. október 1990 til ráðuneytisins segir: "Með tilvísun til a. liðar 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990 hafa eftirtalin búnaðarsambönd og búmarksnefndir óskað eftir heimild til að endurskoða fyrri úthlutanir sínar: ... Búnaðarsamband Vestur-Húnvetninga ... Mælt er með því að framangreindir aðilar fái leyfi til endurúthlutunar." Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins til Framleiðsluráðs landbúnaðarins, dags. 15. nóvember 1990, vísar ráðuneytið til áðurgreinds bréfs Framleiðsluráðs frá 30. október 1990 og samþykkir að nefnd búnaðarsambönd fái leyfi til endurúthlutunar. Vegna þeirra ummæla í bréfi Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu, dags. 10. mars 1994, sem birt er í II. kafla hér að framan, að gengið hafi verið frá beiðni sambandsins á stjórnarfundi 26. október 1990 "og bréf sent til staðfestingar fyrra símtali" ræddi starfsmaður minn sérstaklega við starfsmann landbúnaðarráðuneytisins og spurðist fyrir um nefnt bréf búnaðarsambandsins. Fram kom af hálfu starfsmanns ráðuneytisins, að slíkt bréf væri hvorki finnanlegt í gögnum Framleiðsluráðs eða ráðuneytisins og rökstuðningur fyrir beiðni sambandsins hefði komið fram munnlega í samtali við starfsmann Framleiðsluráðs, sem síðan hefði sent áðurgreinda beiðni. V. Í áliti mínu, dags. 4. janúar 1996, segir svo um kvörtun A: "Kvörtun A beinist að því, að hún hafi með ákvörðun Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu, sem landbúnaðarráðuneytið staðfesti með úrskurði sínum, ranglega verið svipt þeim 20 ærgilda fullvirðisrétti til framleiðslu sauðfjárafurða, sem Búnaðarsambandið hafði á árinu 1987 úthlutað til G-bæjar. Umrædd úthlutun á 20 ærgilda fullvirðisrétti, sem byggðist á ákvæðum 4. gr. reglugerðar nr. 443/1987 og 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 157/1987, var sérstök úthlutun búnaðarsambands til viðbótar útreiknuðum fullvirðisrétti og byggðist sú úthlutun á því, að viðkomandi framleiðendur uppfylltu tiltekin skilyrði, t.d. um að þeir hefðu orðið fyrir áföllum í sauðfjárrækt, framleiddu minna en 400 ærgildisafurðir mjólkur og sauðfjár verðlagsárið 1985/1986 og hefðu meirihluta tekna sinna af mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt, hefðu tekið í notkun ný fjárhús eða væru frumbýlingar. Í reglugerðum um úthlutun fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða næstu verðlagsár voru sérstök ákvæði, sem heimiluðu búnaðarsambandi að láta kalla inn fullvirðisrétt, sem það hafði úthlutað á þessum grundvelli og takmarkanir voru á aðilaskiptum að. Sá 20 ærgilda fullvirðisréttur, sem hér er fjallað um, var fyrst til nýtingar á jörðinni G-bæ haustið 1987 eða á verðlagsárinu 1987-1988. Með ákvörðun stjórnar Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu var þessi réttur fluttur frá jörðinni frá og með haustinu 1992, en A var tilkynnt um að rétturinn félli niður með bréfi Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu, dags. 20. ágúst 1991. Fullvirðisréttur þessi var því til afnota á G-bæ í 5 verðlagsár. Í 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990, um fullvirðisrétt til framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1991-1992, var sett sú meginregla, að fullvirðisréttur einstakra framleiðenda sauðfjárafurða á verðlagsárinu 1991/1992 skyldi vera hinn sami og þeim var úthlutað árið áður með frávikum, sem tilgreind voru í sex stafliðum, en a-liður hljóðaði svo: "Með sérstökum rökstuðningi getur búnaðarsamband óskað leyfis landbúnaðarráðherra til endurúthlutunar á þeim fullvirðisrétti sem ákveðinn var skv. 4. gr. reglugerðar nr. 443/1987, og skv. 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 157/1987, að hluta eða öllu leyti. Rökstudd umsókn skal hafa borist Framleiðsluráði landbúnaðarins fyrir 20. október 1990." Aðrir stafliðir greinarinnar fjalla um breytingar vegna leigu eða aðilaskipta að fullvirðisrétti. Í 4. gr. reglugerðar nr. 407/1990 sagði, að viðkomandi búnaðarsambandi væri heimilt að ráðstafa fullvirðisrétti samkvæmt a-lið 3. gr. til framleiðenda, sem búa við þröngan kost vegna lítils fullvirðisréttar, og þá í þeim tilvikum, sem sérstaklega eru tilgreind í ákvæðinu. Umsókn, ásamt staðfestum upplýsingum um búrekstraraðstöðu, átti að senda viðkomandi búnaðarsambandi fyrir 20. október 1990 og búnaðarsamband átti að tilkynna umsækjendum og Framleiðsluráði landbúnaðarins um afgreiðslu umsókna fyrir 30. október 1990. Því hefur áður verið lýst, að það var meginreglan við úthlutun fullvirðisréttar til framleiðslu sauðfjárafurða verðlagsárið 1991-1992 að hann væri sá sami hjá hverjum framleiðanda og verðlagsárið 1990-1991. Heimild a-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990 var samkvæmt skýru orðalagi sínu háð því, að fram kæmi af hálfu búnaðarsambands sérstakur rökstuðningur fyrir því að taka hinn sérstaklega úthlutaða fullvirðisrétt af þeim framleiðendum, sem haft höfðu hann til afnota, og endurúthluta honum. Tekið var fram að "rökstudd umsókn" ætti að hafa borist Framleiðsluráði landbúnaðarins fyrir ákveðinn tíma. Hinn úthlutaði fullvirðisréttur fól í sér hlutdeild þess, sem hann hafði til afnota, í verðábyrgð ríkissjóðs á því magni, sem fullvirðisrétturinn svaraði til. Í höndum framleiðanda var fullvirðisrétturinn því verðmæt réttindi og grundvöllur að ákvörðunum hans um umfang búrekstursins og þ.m.t. fjárfestinga hans vegna búrekstursins. Þegar litið er til þeirra forsendna, sem kveðið var á í reglugerðunum fyrir hinum sérstöku viðbótarúthlutunum búnaðarsambandanna, er ljóst að slíkar úthlutanir höfðu ekki síður þýðingu fyrir framleiðendur, sem þeirra nutu, en hinar almennu úthlutanir fullvirðisréttar, þó að munur væri þó almennt á hinu úthlutaða magni. Það skipti því þann framleiðanda, sem fengið hafði sérstaka úthlutun búnaðarsambands, almennt miklu, hvort hann héldi slíkri úthlutun og þá á hvaða grundvelli hún væri tekin af honum. Með ákvæðum a-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990 um sérstakan rökstuðning af hálfu búnaðarsambands og rökstudda umsókn hafði landbúnaðarráðherra á grundvelli reglugerðarheimildar bundið heimildina til að taka hinn sérstaklega úthlutaða fullvirðisrétt af þeim framleiðendum, sem hans höfðu notið, sérstökum skilyrðum. Sú ákvörðun var í senn bindandi fyrir landbúnaðarráðherra og aðra aðila, sem komu að framkvæmd þessara mála, þ.e. viðkomandi búnaðarsamband og Framleiðsluráð landbúnaðarins. Í þessu máli liggur ekki fyrir skrifleg "rökstudd umsókn" af hálfu stjórnar Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu og í bréfi Framleiðsluráðs landbúnaðarins til landbúnaðarráðuneytisins, dags. 30. október 1990, þar sem ósk Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu um að beita a-lið 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990 er komið á framfæri við ráðuneytið, kemur ekki heldur fram sérstakur rökstuðningur eða lýsing á sjónarmiðum, sem sagt er að komið hafi verið munnlega til Framleiðsluráðs af hálfu stjórnar búnaðarsambandsins. Ekki er fram komið, að landbúnaðarráðuneytið hafi sérstaklega óskað eftir rökstuðningi fyrir umsókn Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu, áður en það veitti leyfi sitt með bréfi, dags. 15. nóvember 1990. Grundvöllur og undirbúningur ákvörðunar landbúnaðarráðherra um að leyfa Búnaðarsambandi Vestur-Húnavatnssýslu með bréfi, dags. 15. nóvember 1990, að endurúthluta þeim fullvirðisrétti, sem ákveðinn var skv. 4. gr. reglugerðar nr. 443/1987 og skv. 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 157/1987, var ekki í samræmi við ákvæði a-liðar 3. gr. reglugerðar nr. 407/1990. A skaut máli sínu til landbúnaðarráðherra með bréfi, dags. 3. desember 1993, og gerði kröfu um að ráðherra hlutaðist til um, að réttur G-bæjar yrði leiðréttur og færður í það horf, sem hann var í, áður en stjórn Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu færði 20 ærgilda fullvirðisrétt frá G-bæ að N-bæ. A tók fram í bréfi sínu, að hún hefði ítrekað reynt að fá upplýsingar um ástæður tilflutningsins, en án árangurs. Í tilefni af þessu erindi A óskaði ráðuneytið bréflega hinn 22. febrúar 1994 eftir því, að Búnaðarsamband Vestur-Húnavatnssýslu veitti ráðuneytinu allar nauðsynlegar upplýsingar, skýringar og gögn um umrædda tilfærslu framleiðsluréttar milli jarðanna G-bæjar og N-bæjar. Umbeðnar upplýsingar voru látnar í té af hálfu búnaðarsambandsins með bréfi, dags. 10. mars 1994, og er gerð grein fyrir efni þess í II. kafla hér að framan. Ráðuneytið afgreiddi síðan erindi A með bréfi, dags. 27. júní 1994, og taldi, að virtum þeim upplýsingum, sem fyrir lægju í málinu, að stjórn búnaðarsambandsins hefði verið heimilt að endurúthluta umræddum 20 ærgilda fullvirðisrétti, og hafnaði því beiðni A. Með erindi sínu til landbúnaðarráðherra var A að skjóta ákvörðun stjórnar Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu til æðra stjórnvalds. Í erindi A kom sérstaklega fram, að hún hefði ekki fengið upplýsingar um ástæður flutnings fullvirðisréttarins og óskaði sérstaklega eftir að ráðuneytið hlutaðist til um að hún fengi þær upplýsingar. Í bréfi landbúnaðarráðuneytisins til mín, dags. 16. september 1994, kemur fram, að þær upplýsingar og skýringar, sem fram komu í bréfi Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu, dags. 10. mars 1994, voru ekki sérstaklega kynntar A, áður en ráðuneytið afgreiddi erindi hennar. Í bréfi ráðuneytisins er tekið fram, að það hafi litið svo á, að ekki væri þörf á slíkri kynningu og eru ástæður þess nánar skýrðar í bréfinu og vísast um það til texta bréfsins, sem birtur er í III. kafla hér að framan. Að því er varðar andmælarétt A ber að hafa í huga, að hún hafði sérstaklega óskað eftir því að fá umbeðnar upplýsingar. Þessar upplýsingar höfðu verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og leiddu samkvæmt skýringum búnaðarsambandsins til þeirrar óhagstæðu niðurstöðu, sem A skaut til ráðuneytisins. A var ókunnugt um efni þeirra upplýsinga, sem réðu úrslitum hjá búnaðarsambandinu. Þar sem ráðuneytið veitti henni ekki færi á að tjá sig um upplýsingarnar, áður en ráðuneytið tók ákvörðun í málinu, fékk A í raun hvorki tækifæri til þess að tjá sig um þau atriði, sem málið valt á hjá Búnaðarsambandi Vestur-Húnavatnssýslu eða landbúnaðarráðuneytinu, áður en ákvarðanir í máli hennar voru teknar. Það er skoðun mín, að landbúnaðarráðuneytinu hafi borið, eins og mál þetta var vaxið að veita A sérstakt tækifæri til þess að tjá sig um skýringar Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu, áður en ráðuneytið réði málinu til lykta, í samræmi við hina óskráðu grundvallarreglu um andmælarétt, er þá gilti, sbr. Hrd. 1994:1949 (1951). Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan, voru bæði annmarkar á grundvelli og undirbúningi þeirrar ákvörðunar landbúnaðarráðherra frá 15. nóvember 1990, að leyfa Búnaðarsambandi Vestur-Húnavatnssýslu að endurúthluta fullvirðisréttinum, og afgreiðslu landbúnaðarráðuneytisins frá 27. júní 1994 í tilefni af málskoti A. Annmarkar þessir eru með þeim hætti, að hin upphaflega ákvörðun ráðuneytisins frá 15. nóvember 1990 var ekki tekin á grundvelli þeirra gagna, sem reglugerð áskildi, og því án þess að tekin væri afstaða til sérstaks rökstuðnings af hálfu viðkomandi búnaðarsambands, að því er séð verður. Verður að telja, að sá annmarki, að fylgja ekki fyrirmælum eigin reglugerðar um undirbúning ákvörðunar og þar með án þess að fyrir liggi, á hvaða grundvelli hún var byggð, sé verulegur og geti leitt til ógildingar á ákvörðuninni. Til þessa var ekki tekið tillit við afgreiðslu ráðuneytisins á erindi A, sem hún bar fram í bréfi, dags. 3. desember 1993, og þá var einnig sá annmarki á þeirri afgreiðslu, að hún fékk ekki tækifæri til að tjá sig um þær skýringar, sem ráðuneytið hafði aflað, áður en erindi hennar var afgreitt. Í samræmi við það, sem að framan greinir, beini ég þeim tilmælum til landbúnaðarráðuneytisins, að það taki mál A vegna endurúthlutunar á áðurgreindum 20 ærgilda fullvirðisrétti til afgreiðslu að nýju með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum. Tekið skal fram, að í þessu áliti hef ég í engu tekið afstöðu til efnis þeirra sjónarmiða, sem færð hafa verið fram af hálfu stjórnar Búnaðarsambands Vestur-Húnavatnssýslu til stuðnings þeirri ákvörðun, að endurúthluta umræddum 20 ærgilda fullvirðisrétti, og þar með hvort réttur lagagrundvöllur að efni til hafi verið til þeirra ákvarðana, sem teknar voru."