Landbúnaður. Úthlutun tollkvóta vegna innflutnings á ferskum eggjum. Lagaheimild. Þjóðréttarlegar skuldbindingar.

(Mál nr. 6527/2011)

Samtökin A leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefði ekki auglýst tollkvóta vegna innflutnings á lambakjöti og matareggjum.

Í bréfaskiptum við umboðsmann vegna málsins lýsti ráðuneytið þeirri afstöðu að það kynni að vera ósamrýmanlegt skuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni að úthluta ekki tollkvótum af lambakjöti. Settur umboðsmaður taldi því ekki þörf á að fjalla um þann þátt málsins og beindi athugun sinni að því hvort sú ákvörðun ráðuneytisins að láta hjá líða að auglýsa tollkvóta vegna innflutnings á ferskum eggjum hefði verið í samræmi við lög og samningsskuldbindingar Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Settur umboðsmaður tók fram að þegar orðalag 1. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (búvörulögum) væri virt, og þá í samhengi við 1. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 88/2005, yrði ekki dregin önnur ályktun en að á ráðuneytinu hvíldi skylda til að úthluta tollkvótum fyrir allar vörur á sviði landbúnaðar samkvæmt viðauka IIIA við tollalög. Egg sem tilheyrðu vöruliðunum 0407 og 0408 féllu undir þessa tollkvóta þar sem þeir væru tilgreindir í viðauka IIIA. Í viðaukunum væri jafnframt sérstaklega áréttað að vörulýsingin og vöruliðirnir ættu við um „egg í skurn“. Þá taldi settur umboðsmaður að í samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og undirsamningum hans væri ekki fyrir hendi heimild til að takmarka úthlutun almennra tollkvóta með þeim hætti að binda hana við tollskrárnúmer tiltekinna vöruliða nema um það væri sérstaklega samið. Í þessu sambandi nefndi settur umboðsmaður að það grundvallarsjónarmið byggi að baki samningnum að almennir tollkvótar ættu að tryggja lágmarksaðgang að vörum sem enginn eða óverulegur innflutningur hefði verið á á tilteknu viðmiðunartímabili.

Settur umboðsmaður taldi að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir þeirri afstöðu að því bæri ekki skylda að lögum til að úthluta tollkvóta vegna innflutnings á ferskum eggjum samkvæmt tollalögum, búvörulögum og skuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að það gerði viðeigandi ráðstafanir til að endurskoða framkvæmd sína við úthlutun tollkvóta og hefði þá þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu í huga. Hann tók hins vegar fram að það yrði að vera hlutverk dómstóla að fjalla um réttarúrræði innflutningsaðila eða annarra sem kynnu að eiga lögvarða hagsmuni af umræddum ákvörðunum ráðuneytisins.

I. Kvörtun.

Hinn 11. júlí 2011 leituðu samtökin A til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir því að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefði ekki auglýst tollkvóta vegna innflutnings á lambakjöti og matareggjum. Var því haldið fram að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið virti ekki lögbundna skyldu sína til að auglýsa tollkvóta vegna lambakjöts og ferskra eggja (hænueggja) sem byggir á samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Með bréfi forseta Alþingis 14. nóvember sl. var undirritaður settur á grundvelli 2. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis til að fjalla um mál þetta, þar sem kjörinn umboðsmaður hafði ákveðið að víkja sæti í því.

Samkvæmt forsetaúrskurði nr. 99/2012 um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti tók atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið við verkefnum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Þar sem atvik málsins sem álitið lýtur að gerðust áður en úrskurðurinn tók gildi verður hér stuðst við heitið sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið eftir því sem við á.

Ég lauk máli þessu með áliti 12. mars 2013.

II. Málavextir.

A rituðu bréf til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins 5. apríl 2011 og vöktu athygli þess á því að ráðherra bæri skylda til að auglýsa ár hvert tollkvóta vegna innflutnings á lambakjöti. Um væri að ræða skuldbindingar samkvæmt samningi um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sbr. 12. gr. tollalaga nr. 88/2005, sbr. 65. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, sbr. viðauka IIIA. Í viðaukanum kæmi fram hvaða tollkvóta skylt væri að leyfa innflutning á. Um væri að ræða alls 354 tonn. Þá bentu A á að þau teldu einnig ráðuneytið ekki hafa uppfyllt skyldu sína til að auglýsa tollkvóta til innflutnings á hefðbundnum matareggjum. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið svaraði bréfi A 21. júní 2011. Í bréfi ráðuneytisins sagði svo:

„Ráðuneytinu er kunnugt um kvaðir er fylgja samningnum en bendir á að samkvæmt honum er heimilt að beita allt að 127% verðtolli á tollkvóta vegna innflutnings á lambakjöti sem fellur undir lágmarksmarkaðsaðgang. Miðað við þá framkvæmd væri ódýrara fyrir innflutningsfyrirtæki að flytja inn lambakjöt samkvæmt samningi við ESB, sem gerður var á grundvelli 19. gr. EES-samningsins, þar sem tollur á innflutt lambakjöt er einungis 18% verðtollur og 164 kr./kg magntollur, í heilum og hálfum skrokkum. Sé um beinlaust kjöt að ræða er tollurinn 18% og 568 kr./kg í tilfelli lambalunda.

Varðandi aðfinnslur samtaka yðar um að ráðuneytið hafi ekki uppfyllt skyldur um að auglýsa tollkvóta til innflutnings á hefðbundnum matareggjum, er um misskilning að ræða. Skuldbindingin tekur til tveggja vöruliða, þ.e. 0407 og 0408, en markaðsaðgangur undir umræddum vöruliðum er 76 tonn á ári. Þessari skuldbindingu hefur verið framfylgt og nam t.d. innflutningur undir fyrri vöruliðnum 16 tonnum og þeim síðari tæpum 80 tonnum. Heildarinnflutningur var því tæplega 96 tonn frá 1. júlí 2009 til 30. júní 2010, en þessum tollkvótum er úthlutað frá miðju ári.“

III. Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda.

Umboðsmaður Alþingis ritaði bréf til þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 14. september 2011. Með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis var þess óskað að ráðuneytið veitti honum upplýsingar og skýringar um tiltekin atriði.

Í fyrsta lagi var spurt hvort það væri óumdeilt að sú skylda hvíldi á ráðuneytinu að auglýsa opinberlega jafnan umsamda tollkvóta vegna innflutnings á lambakjöti og matareggjum. Ef svo væri, var óskað eftir að fram kæmu skýringar á því hvort það væri rétt að það hefði ekki verið gert vegna innflutnings frá 1. júlí 2010 til 30. júní 2011 eða vegna innflutnings þessara vara fram til 1. október 2011. Hefðu þessir tollkvótar ekki verið auglýstir var óskað eftir að fram kæmi hvernig ráðuneytið teldi það samrýmast gildandi lögum og samningsskuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Í öðru lagi var ráðuneytið beðið um að afhenda gögn um auglýsingar á tollkvótum af vörum sem féllu undir þessa vöruliði á tímabilinu 1. júlí 2010 til 30. júní 2011 eða vegna innflutnings þessara vara fram til 1. október 2011. Hefðu þessir tollkvótar ekki verið auglýstir var óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til þess á hvaða lagagrundvelli það teldi sér heimilt að takmarka úthlutun tollkvóta af lambakjöti með þessum hætti, þ.e. með því að auglýsa eingöngu tollkvóta af unnum kjötvörum sem féllu undir vöruliðinn 1602, en ekki þeim afurðum lambakjöts sem féllu undir vöruliðina 0204, 0206 og 0210, og hvort það samrýmdist skuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Í þriðja lagi var óskað eftir því að ráðuneytið afhenti gögn um auglýsingar á tollkvótum og úthlutun þeirra vegna innflutnings á þeim tæplega 96 tonnum sem flutt voru inn á tímabilinu frá 1. júlí 2008 til 20. júní 2010 og féllu undir vöruliðina 0407 og 0408. Jafnframt var óskað eftir að fram kæmi hversu mikið af þessum innflutningi hefðu verið hefðbundin mataregg. Í fjórða lagi var óskað eftir því að ráðuneytið lýsti afstöðu sinni til þess hvort og þá hvernig gildandi lög og samningar heimiluðu að taka aðrar afurðir sem féllu undir vöruliðina 0407 og 0408 fram yfir hefðbundin mataregg við úthlutun tollkvóta eða leyfi til innflutnings, væri það reyndin að ekki hefði verið heimilað að flytja mataregg til landsins miðað við þá lýsingu sem fram kæmi í kvörtun A.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið svaraði framangreindum spurningum með bréfi til umboðsmanns Alþingis 29. nóvember 2011. Í bréfinu kom eftirfarandi fram:

„1. Fyrsta spurning yðar lýtur að því hvort óumdeilt sé að sú skylda hvíli á ráðuneytinu að auglýsa opinberlega jafnan umsamda tollkvóta vegna innflutnings á lambakjöti og matareggjum. Í 1. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum segir: „Ráðherra úthlutar tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt viðaukum IIIA og B við tollalög, nr. 88/2005, á þeim tollum sem tilgreindir eru í 12. gr. í tollalögum.“ Í viðauka IIIA eru taldir upp tollkvótar sem skylt er að leyfa innflutning á, meðal annars vöruliðir 0204, 0206, 0210, 1502 og 1602 undir vörulýsingunni „Kjöt og ætir hlutar af dýrum“ og vöruliðir 0407 og 0408 undir vörulýsingunni „Egg“. Úthlutun tollkvóta skal, eftir því sem við getur átt, vera í samræmi við samninginn um málsmeðferð við veitingu innflutningsleyfa sem birtur er í 1. viðauka A við samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993. Fram kemur í athugasemdum með frumvarpi er síðar varð að lögum nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, að gert væri ráð fyrir tvenns konar fyrirkomulagi við úthlutun tollkvóta í frumvarpinu. Aðalreglan væri sú að tollkvótum væri úthlutað til umsækjenda. Slíkt úthlutunarfyrirkomulag væri heppilegt þegar um væri að ræða lítið magn sem heimilt væri að flytja inn á lægri tollum. Jafnframt væri gert ráð fyrir víðtækum heimildum til að nota sjálfvirka tollkvóta án úthlutunar, með því að veita almenna heimild til innflutnings eða með því að stýra tollkvótum með tímabilum. (Alþt. 1995, A-deild, bls. 486). Með birtingu reglugerðar í B-deild Stjórnartíðinda er tollkvótum úthlutað og eftir atvikum eru þeir auglýstir á heimasíðu ráðuneytisins, þegar um er að ræða úthlutun á takmörkuðu magni. Framangreindar reglugerðir eru einnig birtar á heimasíðu ráðuneytisins.

Í erindi yðar óskið þér eftir afritum af þeim auglýsingum og upplýsingum um hverjir hafi fengið tollkvóta vegna innflutnings á framangreindum vörum að því marki sem tollkvótar hafa verið auglýstir á tímabilinu 1. júlí 2010 til 30. júní 2011 eða vegna innflutnings þessara vara fram til 1. október 2011. Meðfylgjandi eru afrit af reglugerðum um úthlutun tollkvóta að því marki sem þeir hafa verið auglýstir á framangreindum vörum. Í ráðuneytinu eru ekki til upplýsingar um hverjir hafi fengið þessa opnu kvóta en slíkar upplýsingar má finna hjá tollyfirvöldum. Allt frá því að lög nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, voru samþykkt hefur það verið afstaða þeirra landbúnaðarráðherra sem gegnt hafa embætti að auglýsa ekki tollkvóta á lambakjöti.

2. Í öðru lagi óskið þér sérstaklega eftir að ráðuneytið afhendi yður gögn um auglýsingar á tollkvótum af vörum sem falla undir vöruliði 0204, 0206 og 0210 á tímabilinu 1. júlí 2010 til 30. júní 2011. Upplýsist hér með að tollkvótar af framangreindum vörum voru ekki auglýstir.

3. Í þriðja lagi óskið þér eftir að ráðuneytið afhendi yður gögn um auglýsingar á tollkvótum og úthlutun þeirra vegna innflutnings á tæplega 96 tonnum sem fluttar voru inn á tímabilinu frá 1. júlí 2008 til 20. júní 2010 og féllu undir vöruliðina 0407 og 0408. Þá óskið þér eftir upplýsingum um hversu mikið af þessum innflutningi hafi verið hefðbundin mataregg. Meðfylgjandi eru umbeðin gögn. Ráðuneytið vill af þessu tilefni taka fram að skuldbinding Íslands sem fram kemur í viðauka IIIA við tollalög, er ekki bundin við einstök tollskrárnúmer heldur við ákveðna vöruliði, þ.e. 0407 og 0408. Ráðuneytið telur sig uppfylla skuldbindingar Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni þótt ekki öll tollskrárnúmer sem falla undir framangreinda vöruliði séu flutt inn samkvæmt tollkvótum. Ráðuneytið hefur úthlutað svokölluðum „opnum“ tollkvótum, en það eru tollkvótar þar sem leyfilegt er að flytja inn ótilgreint magn. Reglugerðir þessar hafa verið birtar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. t.d. reglugerð nr. 937/2010 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á frjóeggjum og reglugerð nr. 938/2010 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á soðnum eggjum og eggjaafurðum. Þau tollskrárnúmer sem um ræðir er 0407.0001 (frjóegg), 0408.9901 (soðin egg í 10 kg. umbúðum eða stærri) og 0408.190 (gerilsneyddar eggjarauður með 7% saltinnihaldi í stærri umbúðum en 5 kg.). Frá 1. júlí 2008-30. júní 2009 var heildarinnflutningur um 157 tonn og á tímabilinu 1. júlí 2009-30. júní 2010 var heildarinnflutningur um 96 tonn. Í bréfi ráðuneytisins til [A] var misritað að heildarinnflutningur á tímabilinu 1. júlí 2008-30. júní 2010 hafi verið 96 tonn en hið rétta er að heildarinnflutningur á þessu tímabili var 253 tonn. Tollkvóti sem skylt er að leyfa innflutning á samkvæmt viðauka IIIA varðandi vöruliði 0407 og 0408 er 76 tonn á hverju tímabili.

4. Í fjórða lagi óskið þér eftir að ráðuneytið lýsi afstöðu sinni til þess hvort og þá hvernig gildandi lög og samningar heimila að taka aðrar afurðir sem falla undir vöruliðina 0407 og 0408 fram yfir hefðbundin mataregg við úthlutun tollkvóta eða leyfi til innflutnings sé það reyndin að ekki hafi verið heimilað að flytja inn mataregg til landsins miðað við þá lýsingu sem kemur fram í kvörtun [A]. Eins og að framan greinir telur ráðuneytið sig uppfylla skuldbindingar Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni þótt ekki öll tollskrárnúmer sem falla undir framangreinda vöruliði séu flutt inn samkvæmt tollkvótum.

Hvað varðar framangreinda liði vill ráðuneytið vekja athygli yðar á því að samkvæmt ákvæðum samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina veitir ráðuneytið reglulega upplýsingar um magn afurða sem fluttar eru inn og falla undir ákvæði samningsins. Fram til þessa hafa samningsaðilar ekki gert formlegar athugasemdir um framkvæmd Íslands á samningnum.“

Með bréfi til A 30. nóvember 2011 gaf umboðsmaður Alþingis þeim kost á að senda honum þær athugasemdir sem A teldu ástæðu til að gera í tilefni af svarbréfi ráðuneytisins. Athugasemdirnar bárust embættinu 13. desember 2011.

Umboðsmaður ritaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á ný bréf 30. desember 2011. Vísaði hann til þess að í svarbréfi ráðuneytisins 29. nóvember 2011 hefði ekki komið fram nema að hluta til skýr svör við fyrirspurnum hans. Komið hefði fram að allt frá samþykkt laga nr. 87/1995 hefði það verið afstaða þeirra sem hefðu gegnt embætti landbúnaðarráðherra að auglýsa ekki tollkvóta á lambakjöti. Aftur á móti hefði ráðuneytið látið ósvarað spurningum um það hvernig slíkt samrýmdist gildandi lögum og samningsskuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997 ítrekaði umboðsmaður því beiðni sína um að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið léti honum í té rökstudda afstöðu sína til þessara atriða. Svarbréf ráðuneytisins barst umboðsmanni með bréfi 24. janúar 2012. Í bréfinu kom eftirfarandi fram:

„Í fyrsta lagi óskið þér eftir upplýsingum um það hvort óumdeilanlegt sé að sú skylda hvíli á ráðuneytinu að auglýsa opinberlega umsamda tollkvóta vegna innflutnings á lambakjöti og matareggjum og þá hvort rétt sé að það hafi ekki verið gert á tilteknu tímabili. Í bréfi ráðuneytisins til yðar, dags. 29. nóvember 2011, er fyrirkomulagi við úthlutun tollkvóta lýst. Úthlutun tollkvóta fer fram með tvenns konar hætti, annars vegar úthlutun til umsækjenda samkvæmt umsóknum og hins vegar með auglýstum opnum tollkvótum. Í viðauka IIIA við tollalög nr. 88/2005 eru taldir upp tollkvótar sem skylt er að leyfa innflutning á, meðal annars vöruliðir 0204, 0206 og 0210 undir vörulýsingunni „Kjöt og ætir hlutar af kindum“ og vöruliðirnir 0407 og 0408 undir vörulýsingunni „Egg“. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum úthlutar ráðherra tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt viðauka IIIA við tollalög. Ráðuneytinu ber að úthluta framangreindum tollkvótum, ýmist með úthlutun til umsækjenda eða með því að nota opna tollkvóta án úthlutunar þar sem veitt er almenn heimild til innflutnings. Ráðuneytið hefur úthlutað svokölluðum „opnum“ tollkvótum fyrir ákveðnar vörur undir vöruliðum 0407 og 0408 á tímabilinu 1. júlí 2010 til 30. júní 2011 og voru gögn þess efnis send yður með bréfi dags. 29. nóvember 2011. Hluti þeirra vara sem úthlutað er á framangreindan hátt verða taldar til matareggja. Í erindi yðar má leiða líkum að því að spurt sé um ósoðin egg í skurn sem falla almennt undir tollnúmer 0407.2100 (hænuegg). Tollkvóta fyrir slík egg hefur ekki verið úthlutað. Ráðuneytið telur engu að síður samningsskuldbindingar Íslands við Alþjóðaviðskiptamálastofnunina uppfylltar, eins og nánar er lýst í bréfi til yðar, dags. 29. nóvember sl. Undir vöruliði 0204, 0206 og 0210 falla meðal annars tollskrárnúmer fyrir kjöt og æta hluta af kindum. Ráðuneytið hefur ekki auglýst né úthlutað tollkvótum vegna innflutnings á kindakjöti úr framangreindum vöruliðum, eins og fram kom í fyrrgreindu svarbréfi ráðuneytisins.

Í öðru lagi óskið þér eftir upplýsingum um hvernig ráðuneytið telji það samrýmast gildandi lögum og samningsskuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni að auglýsa ekki framangreinda tollkvóta. Ráðuneytið hefur úthlutað tollkvótum fyrir ákveðnar vörur undir vöruliðum 0407 og 0408, sem nánar er lýst í bréfi til yðar, dags. 29. nóvember sl., og telur skuldbindingar Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni hvað varðar þá vöruliði uppfylltar. Tollkvótum vegna innflutnings á kindakjöti undir vöruliðum 0204, 0206 og 0210 hefur hins vegar ekki verið úthlutað. Ráðuneytið viðurkennir að það kunni að vera ósamrýmanlegt samningsskuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Eins og fram kemur í framangreindu bréfi hefur það verið afstaða þeirra landbúnaðarráðherra sem gegnt hafa embætti allt frá því að lög nr. 87/1995 tóku gildi, að auglýsa ekki tollkvóta fyrir lambakjöt. Núverandi ráðherra hefur ákveðið að taka þessi mál til endurskoðunar.

... “

Með bréfi til A 30. janúar 2012 gaf umboðsmaður Alþingis þeim kost á að senda honum þær athugasemdir sem þau teldu ástæðu til að gera í tilefni af framangreindu svarbréfi. Athugasemdir bárust embættinu 2. febrúar 2012.

Umboðsmaður ákvað að rita þriðja fyrirspurnarbréfið til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins 19. september 2012. Í bréfinu vék hann að skýringarbréfi ráðuneytisins frá 24. janúar 2012 og tók fram að samkvæmt því ætlaði ráðuneytið að taka mál er lutu að auglýsingu og úthlutun tollkvóta fyrir lambakjöt til endurskoðunar. Óskaði hann eftir að ráðuneytið upplýsti hann um hvort það hefði gengið eftir og, ef svo væri, gerði honum grein fyrir því í hverju nákvæmlega endurskoðunin væri fólgin.

Í svarbréfi sínu til umboðsmanns 9. október 2012 tók ráðuneytið fram að með reglugerð nr. 343/2012 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á svína-, kinda-, geita- og alifuglakjöti hefði ráðherra úthlutað tollkvótum samkvæmt viðaukum IIIA og IVA við tollalög nr. 88/2005 í samræmi við tillögur nefndar samkvæmt 87. gr. laga nr. 99/1993, þar á meðal tollkvótum vegna innflutnings á kindakjöti undir vöruliðum 0204 og 0210. Ein umsókn hefði borist um innflutning á kindakjöti fyrir samtals 50.000 kg. Ráðuneytið hefði úthlutað tollkvóta samkvæmt umsókn með úthlutunarbréfi 18. júní 2012.

Hinn 28. janúar átti ég ásamt starfsmanni mínum fund með starfsmanni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem tiltekin atriði voru rædd vegna þessa máls. Ákveðið var að ráðuneytið myndi senda mér bréf sem hefði að geyma viðbótarskýringar þess í málinu. Í bréfi ráðuneytisins 11. febrúar 2013, sem mér barst af þessu tilefni 13. s.m., segir svo:

„Frá því samningurinn vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni tók gildi hér á landi með lögum nr. 87/1995, hefur það verið skilningur og túlkun ráðuneytisins að skuldbinding Íslands sem fram kemur í viðauka IIIA við tollalög, sé ekki bundinn við einstök tollskrárnúmer heldur við ákveðna vöruliði. Telur ráðuneytið þá túlkun vera í samræmi við ákvæði samningsins. Í þessu sambandi skal bent á að ef vilji samningsaðila hefði staðið til þess að veita markaðsaðgang fyrir öll tollskrárnúmer er falla undir viðkomandi vörulið í viðauka IIIA, hefði mátt ætla að þau tollskrárnúmer hefðu verið sérstaklega tilgreind niður á átta stafa tollskrárnúmer. Með því að binda markaðsaðganginn hins vegar við ákveðna vöruliði (fjóra stafi) eins og Ísland gerði í viðauka IIIA veitir það þeim aðildarríkjum WTO ákveðið frjálsræði við að útfæra nánar þann markaðsaðgang sem skuldbinding þeirra lýtur að. Þessi staða á líklega ekki við þau aðildarlönd sem tilgreindu markaðsaðganginn niður á einstök tollskrárnúmer, t.d. Noreg.

Varðandi fuglsegg er um að ræða vörulið 0407 og 0408. Fyrrnefndur vöruliður hafði upphaflega að geyma einungis eitt tollskrárnúmer, þ.e. 0407.0000 fuglsegg, í skurn, ný, varin skemmd eða soðin. Nokkrum árum síðar var þessu tollskrárnúmeri skipt upp í frjóegg til útungunar og önnur fersk egg. Um langt árabil hefur verið innflutningur á frjóeggjum til að viðhalda varphænu- og alifuglastofni landsmanna og af þeirri ástæðu ákvað ráðuneytið að nauðsynlegt væri að nýta hluta af tollkvótanum úr viðauka IIIA til þessa innflutnings. Einnig er rétt að útskýra að innflutningur á gerilsneyddum eggjarauðum hefur verið stundaður til fjölda ára, ekki hvað síst þar sem ekki fengust gerilsneyddar eggjarauður hér á landi. Þessi innflutningur var liður í því að tryggja öryggi gegn sýkingu örvera í matvælum.

Fyrstu árin var umræddur innflutningur heimilaður af fjármálaráðuneytinu, einungis til þeirra fyrirtækja sem stunduðu framleiðslu á mayonesi. Framkvæmdin samræmdist hins vegar ekki stjórnsýslulögum og því var ákveðið að tillögu ráðgjafarnefndar um inn- og útflutning landbúnaðarvara að veita almenna og opna heimild til innflutningsins í formi tollkvóta. Þessu var breytt með reglugerð nr. 445/2003 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á soðnum eggjum og eggjarauðum. Skyldi sá innflutningur einnig ganga upp í lágmarks markaðsaðgangskvótann (Minimum Access). Þessi ákvörðun byggði m.a. á ósk um að veita markaðsaðgang fyrir soðin egg, svokölluð langegg til aðila sem einkum þurfa á slíkri vöru að halda vegna atvinnustarfsemi sinnar.

Með því fyrirkomulagi sem lýst hefur verið hér að framan um úthlutun á opnum tollkvótum í eggjum og eggjaafurðum telur ráðuneytið sig hafa málefnalegar ástæður fyrir forgangi og nýtingu umrædds lágmarks markaðsaðgangs er fellur undir vöruliði 0407 og 0408. Skylt er að leyfa innflutning á 76 tonnum á hverju tímabili samkvæmt viðauka IIIA við tollalög. Á hinn bóginn hefur ekki verið skortur á markaði á ferskum eggjum og því hefur ráðuneytið ekki talið ástæðu til að ráðstafa takmörkuðum eggjakvóta til innflutnings á matareggjum í skurn.“

Með bréfi til A 15. febrúar 2013 var þeim gefinn kostur á að senda þær athugasemdir sem þau teldu ástæðu til að gera vegna framangreinds svarbréfs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Athugasemdir A bárust 22. febrúar 2013.

IV. Álit setts umboðsmanns Alþingis.

1. Afmörkun athugunar.

Athugun mín á máli þessu hefur beinst að því hvort sú ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að láta hjá líða að auglýsa tollkvóta vegna innflutnings á ferskum eggjum (hænueggjum) sé í samræmi við lög og samningsskuldbindingar Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Eins og ráðið verður af bréfasamskiptum umboðsmanns Alþingis, sem rakin eru í kafla III, beindist athugunin einnig að því hvort ráðuneytinu hafi borið að auglýsa tollkvóta vegna innflutnings á tilteknum afurðum kjöts sem falla undir vöruliði 0204, 0206 og 0210. Í skýringum sínum segir ráðuneytið að tollkvótum vegna innflutnings á kjöti undir þessum vöruliðum hafi ekki verið úthlutað. Það viðurkenni þó að það kunni að vera ósamrýmanlegt samningsskuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Það hafi verið afstaða þeirra landbúnaðarráðherra sem gegnt hafa embætti allt frá því að lög nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, tóku gildi að auglýsa ekki tollkvóta fyrir lambakjöt. Núverandi ráðherra hafi þó ákveðið að taka þessi mál til endurskoðunar. Samkvæmt skýringum ráðuneytisins 9. október 2012 hefur ráðherra nú úthlutað tollkvótum vegna innflutnings á kjötafurðum undir vöruliðum 0204 og 0210, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 453/2012 um úthlutun á tollkvótum vegna innflutnings á svína-, kinda-, geita- og alifuglakjöti, sem var birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 25. maí 2012. Aftur á móti stendur það eftir að ráðherra hefur ekki úthlutað tollkvótum vegna innflutnings á kjöt-afurðum sem falla undir vörulið 0206, en skýringar á ástæðu þess að það var ekki gert koma ekki fram í ofangreindu bréfi ráðuneytisins frá 9. október 2012. Hvað sem því líður er ekki þörf á að fjalla hér frekar um þennan þátt málsins í ljósi fyrirliggjandi afstöðu ráðuneytisins um lögbundna skyldu íslenska ríkisins til úthlutunar tollkvóta vegna þessara vöruliða og samræmi hennar við skuldbindingar Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

2. Lagagrundvöllur málsins.

Í 1. gr. tollalaga nr. 88/2005 er hugtakið tollkvóti skýrt svo: „Tiltekið magn vöru sem flutt er inn á lægri tollum en getið er um í 5. gr.“ Ákvæði 5. gr., sem 1. gr. vísar til, hefur að geyma þá meginreglu tollalaga, eins og segir í 1. mgr. fyrrnefndu greinarinnar, að „[af] vörum, sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, [skuli] greiða toll eins og mælt er fyrir í tollskrá í viðauka I með lögunum. Tollur [skuli] lagður sem verðtollur á tollverð vöru eða sendingar eins og það er ákveðið samkvæmt ákvæðum 14.-16. gr. og sem magntollur á vörumagn eftir því sem í tollskrá samkvæmt viðauka I greinir. Aðra tolla og gjöld, sem mismuna innlendum og innfluttum framleiðsluvörum, [megi ekki] leggja á vöruna við innflutning.“

Í 12. gr. tollalaga eru nánari ákvæði um tollkvóta sem ráðherra er fer með málefni landbúnaðar úthlutar. Í fyrsta málsl. 1. mgr. 12. gr. laganna er mælt svo fyrir að í „viðaukum IIIA og B“ séu tilgreindir tollkvótar samkvæmt skuldbindingum Íslands í samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar vegna innflutnings á því magni sem tilgreint er fyrir hvert áranna 1995 til og með 2000. Um úthlutun þeirra fari samkvæmt 65. gr. laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nú lög nr. 99/1993. Í 3. mgr. 12. gr. tollalaga, sbr. 7. gr. laga nr. 160/2012, segir síðan að í „viðaukum IV A og B“ séu tilgreindir tollkvótar sem ráðherra, er fer með málefni landbúnaðar, úthluti samkvæmt 65. gr. A laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Í 1. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993, sem 1. mgr. 12. gr. tollalaga vísar til, er mælt svo fyrir að ráðherra úthluti tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt „viðaukum IIIA og B“ við tollalög nr. 88/2005 á þeim tollum sem tilgreindir eru í 12. gr. í tollalögum. Í viðauka IIIA við tollalögin er vísað til texta sem birtist á bls. 581 í A-deild Stjórnartíðinda sem komu út á árinu 1995. Á bls. 582 eru tilgreind egg sem falla undir vöruliðina 0407 og 0408 og er sérstaklega tekið fram að markaðsaðgangur eggjanna sé 35 tonn í upphafi tímabils og 76 tonn í lok tímabils. Við vörulýsinguna „egg“ í viðaukanum er sérstaklega að finna þá áréttingu í neðanmálsgrein, merktri með númerinu „2?, að vörulýsingin og vöruliðirnir 0407 og 0408 eigi „við um egg í skurn?. Árétta ber að í áliti þessu reynir á túlkun og beitingu framangreindrar 1. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993 að því leyti sem það ákvæði snýr að skyldu ráðherra til að úthluta tollkvótum samkvæmt viðauka IIIA við tollalög nr. 88/2005. Í 1. mgr. 65. gr. A, sbr. 3. gr. laga nr. 160/2012, er aftur á móti kveðið á um að ráðherra sé „heimilt? að úthluta tollkvótum fyrir landbúnaðarvörur samkvæmt „viðaukum IVA og B“ við tollalög nr. 88/2005 á þeim tollum sem tilgreindir eru í 12. gr. í tollalögum. Í viðauka IVA við tollalögin er einnig vísað til texta sem birtist á bls. 609 í A-deild Stjórnartíðinda sem komu út á árinu 1995. Á bls. 610 er meðal annars vikið að eggjum sem falla undir vöruliðina 0407 og 0408 og tekið fram að heildartollkvótar í eggjum séu 80 tonn. Um beitingu þessa ákvæðis er ekki fjallað frekar í þessu áliti, eins og nánar má ráða af umfjölluninni í kafla IV.3 hér síðar.

Með lögum nr. 87/1995, um breytingar á lögum vegna aðildar Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, voru framangreind ákvæði um tollkvóta lögfest í eldri tollalög nr. 55/1987 og lög nr. 99/1993. Í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 87/1995 sagði meðal annars að með gildistöku samningsins um Alþjóðaviðskiptastofnunina yrðu afnumin innflutningshöft á landbúnaðarvörur sem undanfarna áratugi hefðu þróast mjög á skjön við almennar reglur hins almenna samnings um tolla og viðskipti frá 1994, svokallaðs GATT-samnings. Ekki yrði lengur hægt að hefta innflutning á þessum vörum nema samkvæmt þröngum undanþáguheimildum GATT-samningsins er lytu meðal annars að takmörkun innflutnings vegna heilbrigðis manna, dýra eða plantna. Í staðinn yrði gert ráð fyrir tollvernd auk þess sem „tollkvótar á lægri tolltöxtum [ættu] að tryggja lágmarksinnflutning“ á bannvörum. Þá yrði innflutningur á leyfavörum ekki minni en hann var á árunum 1986-1988. Landbúnaðarsamningurinn gerði ráð fyrir úthlutun tollkvóta til að tryggja, þrátt fyrir tollvernd, „lágmarksaðgang á bannvörum“ og að markaðsaðgangur leyfavöru yrði ekki verri en hann hefði verið á viðmiðunartímabilinu (ríkjandi markaðsaðgangur). Veita „[skyldi] lágmarksmarkaðsaðgang fyrir bannvörur“, þ.e. vörur sem enginn eða óverulegur innflutningur hefði verið á viðmiðunartímabilinu 1986-1988. Hér væri um að ræða vörur sem innflutningur hefði verið 5% eða minna af innanlandsneyslu. Samningstilboð Íslands kvæði á um að heimilt yrði að flytja inn tiltekið magn á tollum ekki hærri en sem næmi 32% af upphafstollabindingu. Í byrjun yrði magnið sem næmi 3% af innanlandsneyslu á viðkomandi vöru á viðmiðunartímabilinu og yrði aukið í 5% á sex árum. Þær vörur sem féllu undir þessa skuldbindingu væru „kjöt“, „egg“, smjör, ostur og kartöflur. Þá kom fram í athugasemdunum að veita skyldi ríkjandi markaðsaðgang fyrir haftavörur, þ.e. þær vörur sem á viðmiðunartímabilinu hefðu verið fluttar inn í meira magni en sem hafi numið 5% af innanlandsneyslu. Landbúnaðarsamningurinn kvæði á um að ekki mætti veita lakari kjör varðandi magn og tolltaxta heldur en veitt hefðu verið á viðmiðunartímabilinu. Auk framangreindra kvóta, sem skylt væri að leyfa innflutning á, væri gert ráð fyrir viðbótarkvótum fyrir vörur sem heimilt yrði að flytja inn á lægri tolltöxtum en í tollskrá greindi. Viðbótarkvótar ættu að tryggja meira svigrúm til innflutnings. Vörur, sem viðbótarkvótar tækju til, væru „kjöt og kjötvörur“, mjólk og mjólkurvörur, „egg“, grænmeti og blóm. Nýting þessara kvóta væri háð ákvörðun landbúnaðarráðherra. (Alþt. 1994-1995, A-deild, bls. 485-486.)

Af framangreindum lögskýringargögnum verður ráðið að almennir tollkvótar, sem á reynir í þessu máli, áttu meðal annars að þjóna því hlutverki að tryggja lágmarksaðgang að tilteknum vörum sem enginn eða óverulegur innflutningur hefði verið á miðað við tiltekið viðmiðunartímabil. Viðbótarkvótar, sem væru háðir ákvörðun landbúnaðarráðherra, áttu aftur á móti að tryggja meira svigrúm til innflutnings. Þær vörur sem þessar tvær tegundir tollkvóta taka ótvírætt til eru meðal annars egg og kjöt. Samkvæmt 5. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993 birtir ráðherra í reglugerð þær reglur sem gilda um úthlutun tollkvóta samkvæmt greininni þar sem meðal annars komi fram úthlutunarkvóti, innflutningstímabil, tollataxtar, viðurlög við misnotkun og aðrir skilmálar sem um innflutninginn skuli gilda. Sams konar ákvæði kemur fram í 4. mgr. 65. gr. A sömu laga.

Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið úthlutaði ekki tollkvóta á tímabilinu 1. janúar 2010 til 31. desember 2011 vegna innflutnings á ferskum eggjum (hænueggjum), þ.e. ósoðnum eggjum í skurn, sem falla almennt undir tollskrárnúmerið 0407.2100. Ráðuneytið auglýsti aðeins tollkvóta vegna innflutnings á soðnum eggjum, frjóeggjum og eggjarauðum. Hér reynir því á það álitaefni hvort ráðuneytið hafi með þessari ákvörðun ekki sinnt þeim skyldum sem á því hvíldu samkvæmt íslenskum lögum, sem að framan eru rakin, og samningsskuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem lögin byggja á.

3. Um tollkvóta vegna innflutnings á ferskum eggjum (hænueggjum).

Af hálfu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins er því haldið fram „að skuldbinding Íslands sem fram komi í viðauka IIIA, [sé] ekki bundin við einstök tollskrárnúmer heldur við ákveðna vöruliði, þ.e. 0407 og 0408“. Ráðuneytið telur skuldbindingar Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni uppfylltar „þótt ekki öll tollskrárnúmer sem falla undir framangreinda vöruliði séu flutt inn samkvæmt tollkvótum?. Ef vilji samningsaðila hefði staðið til þess að veita markaðsaðgang fyrir öll tollskrárnúmer er falla undir viðkomandi vörulið í viðauka IIIA hefði að mati ráðuneytisins mátt ætla að þau tollskrárnúmer hefðu verið sérstaklega tilgreind niður á átta stafa tollskrárnúmer. Með því að binda markaðsaðganginn aftur á móti við ákveðna vöruliði (fjóra stafi) eins og Ísland hefði gert í viðauka IIIA veiti það þeim aðildarríkjum WTO ákveðið frjálsræði við að útfæra nánar þann markaðsaðgang sem skuldbinding þeirra lýtur að.

Þegar orðalag 1. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993 er virt, og þá í samhengi við 1. mgr. 12. gr. tollalaga nr. 88/2005, verður ekki dregin önnur ályktun af fyrrnefnda ákvæðinu en að á ráðuneytinu hvíli skylda til að úthluta tollkvótum fyrir vörur á sviði landbúnaðar samkvæmt viðauka IIIA við tollalög. Eins og rakið er í kafla IV.2. falla „egg?, sem tilheyra vöruliðunum 0407 og 0408, undir þessa tollkvóta þar sem þeir eru tilgreindir í viðauka IIIA og er í viðaukanum jafnframt sérstaklega áréttað í neðanmálsgrein að vörulýsingin og vöruliðirnir eigi við um „egg í skurn“. Það er grundvallarregla tollaréttar að túlka beri vöruliði tollskrár samkvæmt orðanna hljóðan, eins og leiðir af „almennum reglum um túlkun tollskrárinnar“ sem fylgdu með viðauka I við tollalög og lögfestar voru með lögum nr. 96/1987, sjá einnig til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. maí 2001 í máli nr. 460/2000. Framangreind ákvæði tollalaga og laga nr. 93/1999, sem og önnur ákvæði laganna, gera þannig samkvæmt orðum sínum og að virtum lögskýringargögnum ekki ráð fyrir því að ráðherra sé heimilt að láta hjá líða að úthluta tollkvótum fyrir tilteknar undirtegundir af eggjum, eins og ferskum hænueggjum, sem falla með skýrum hætti undir þá vöruliði sem tilgreindir eru í viðauka IIIA og bindi úthlutunina alfarið við aðrar undirtegundir. Í viðaukanum er ekki gert ráð fyrir slíku fyrirkomulagi. Þvert á móti er áréttað í neðanmálsgrein að vörulýsingin „egg“ og vöruliðirnir 0407 og 0408 eigi við um „egg í skurn“. Ekki er þar gerður greinarmunur á soðnum eða ferskum eggjum (hænueggjum), en hin síðarnefndu falla almennt undir tollskrárnúmerið 0407.2100, eins og segir í skýringum ráðuneytisins til umboðsmanns Alþingis 24. janúar 2012.

Í þessu sambandi skal einnig getið að viðauki I við tollalög nr. 88/2005, sem upphaflega var lögfestur með 12. gr. laga nr. 96/1987 um breytingu á tollalögum nr. 55/1987, var lögfestur áður en Ísland fullgilti samninginn um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem undirritaður var af Íslands hálfu í Marakess í Marokkó 15. apríl 1994 og tók gildi 1. janúar 1995. Í viðaukanum er að finna flokka þar sem tilgreindar eru vörur í ákveðnum vöruliðum og undirliðum í þeim. Vöruliður 0407, þar sem eru tilgreind meðal annars ný fuglsegg, er í kafla 4 í flokki I. Ísland varð aðili að Alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá/International Convention on the Harmonized Commodity Description and Coding System 28. október 1987 sem tók gildi 1. janúar 1988, sbr. auglýsingu nr. 25/1987 í C-deild Stjórnartíðinda. Í þessari samræmdu skrá, sem kemur fram í enskri útgáfu samningsins, er að finna vörulið 0407 og tilgreindar vörur sem falla undir vöruliðinn, þar á meðal ný fuglsegg eða birds eggs, „fresh“ eins og segir í enskri útgáfu samningsins. Samkvæmt þessu er að finna sams konar vörur í viðauka I við tollalög nr. 88/2005 og umræddri skrá sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig að þjóðarétti til að fara eftir og lá til grundvallar þeirri samningsskuldbindingu sem íslenska ríkið undirgekkst á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á árinu 1994 og fram kemur í áðurnefndum viðauka IIIA. Skylda Íslands samkvæmt viðauka IIIA er því útfærð þannig að lögum að auglýsa beri tollkvóta fyrir allar þær vörur sem falla undir vöruliði 0407 og 0408, sbr. 1. mgr. 12. gr. tollalaga og 1. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993, og þá að því magni sem lágmarksmarkaðsaðgangur er á hverju tímabili, nú 76 tonn á ári. Eins og þessum lagaákvæðum er háttað, og að virtum bakgrunni þeirra, geta íslensk stjórnvöld ekki vikið frá þessari lögbundinni skyldu sinni með því að auglýsa aðeins sumar vörur, sem sannanlega falla undir vöruliðina, en ekki aðrar.

Þessi ályktun um túlkun 1. mgr. 12. gr. tollalaga og 1. mgr. 65. gr. laga nr. 99/1993 styðst jafnframt við það meginmarkmið sem býr að baki samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, enda eru lög nr. 87/1995 reist á honum, sbr. nánar þau sjónarmið sem rakin eru í kafla IV.3 í áliti mínu frá 13. desember 2010 í máli nr. 5199/2008. Þegar efni samningsins er virt í heild sinni, þar á meðal undirsamninga sem falla undir hann, svo sem GATT-samningsins frá 1994, verður ekki dregin sú ályktun að í samningnum sé fyrir hendi heimild til að takmarka úthlutun almennra tollkvóta með þeim hætti að binda hana við ákveðin tollskrárnúmer tiltekinna vöruliða, nema um það sé sérstaklega samið, heldur er skuldbindingin bundin við vöruliðina sem hún tekur til samkvæmt orðanna hljóðan. Ég ítreka að það grundvallarsjónarmið býr að baki samningnum að almennir tollkvótar eigi að tryggja „lágmarksaðgang“ að vörum sem enginn eða óverulegur innflutningur hefur verið á (bannvörur) viðmiðunartímabilinu 1986-1988, sjá kafla IV.2 hér að framan. Er þetta sjónarmið tengt því meginmarkmiði samningsins að greiða annars vegar fyrir viðskiptum með landbúnaðarvörur með því að opna aðgang að mörkuðum og hins vegar að koma í veg fyrir viðskiptahindranir.

Líta verður jafnframt til þess að sú ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að úthluta ekki tollkvóta vegna innflutnings á ferskum eggjum (hænueggjum) leiðir til þess að gerður er greinarmunur á tilteknum undirtegundum eggja sem falla ótvírætt undir þá vöruliði sem almennir tollkvótar taka til samkvæmt viðauka IIIA og lögbundin skylda til úthlutunar af hálfu ráðherra gildir um. Aðilar sem starfa í innflutningsstarfsemi á þessu sviði, og hafa hagsmuni af því að fá úthlutað tollkvóta fyrir fersk egg, fá þannig ekki tækifæri til þess flytja inn slíkar afurðir innan þess ramma sem samningsskuldbindingar íslenska ríkisins gera ráð fyrir lögum samkvæmt. Það getur haft áhrif á atvinnustarfsemi þeirra sem nýtur verndar að stjórnlögum, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þar sem fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi fyrir þá. Af þeirri ákvörðun leiðir einnig eðli málsins samkvæmt að minna framboð verður af ferskum eggjum í landinu. Slík staða kann að hafa hafa áhrif á samkeppni á þessu sviði neytendum í óhag. Það er grundvallarregla stjórnsýsluréttar að stjórnvöld eru bundin af lögum. Ákvarðanir og aðrar athafnir stjórnvalda verða annars vegar að eiga sér stoð í lögum og mega hins vegar ekki brjóta í bága við lög. Stjórnvald getur því ekki vikið frá fyrirmælum laga nema slík frávik eigi sér stoð í lögum. Þetta gildir bæði um stjórnvaldsákvarðanir og almenn stjórnvaldsfyrirmæli, svo sem reglugerðir og auglýsingar. Hafi Alþingi ákveðið að ráðherra skuli framkvæma stjórnvaldsathöfn, svo sem setningu stjórnvaldsfyrirmæla um tiltekið málefni, sem hefur það í för með sér að ákveðið réttarástand skapast til hagsbóta fyrir einstaklinga og lögaðila, hefur ráðherra að jafnaði ekki val um hvort slík athöfn skuli framkvæmd eður ei.

Að framangreindu virtu er það niðurstaða mín að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, hafi ekki fært viðhlítandi rök fyrir þeirri afstöðu að því beri ekki skylda að lögum til að úthluta tollkvóta vegna innflutnings á ferskum eggjum (hænueggjum) samkvæmt tollalögum nr. 88/2005, lögum nr. 93/1993 og skuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Eins og gildandi lögum er háttað getur það ekki haft áhrif þótt vera kunni að aðilar að samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina hafi fram til þessa ekki gert formlegar athugasemdir við þessa framkvæmd Íslands á samningnum. Ég vek raunar athygli á því að samkvæmt gögnum, sem ráðuneytið hefur látið mér í té, og varða tilkynningar ráðuneytisins um markaðsaðgang (market access) sem veittur hefur verið hér á landi vegna samningsskuldbindinga í formi tollkvóta, verður ekki annað ráðið en að upplýst hafi verið um heildarmagn innflutnings á eggjum á tilteknu tímabili eftir vöruliðunum 0407 og 0408. Í þessum gögnum er þannig ekki gerð nánari grein fyrir þeim tegundum eggja samkvæmt einstökum tollskrárnúmerum þessara vöruliða sem auglýstir tollkvótar hafa tekið til.

V. Niðurstaða.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða mín að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið, nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, hafi ekki fært fyrir viðhlítandi rök fyrir þeirri afstöðu að ráðuneytinu beri ekki skylda að lögum til að úthluta tollkvóta vegna innflutnings á ferskum eggjum (hænueggjum) samkvæmt tollalögum nr. 88/2005, lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og samningsskuldbindingum Íslands gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni.

Ég beini þeim tilmælum til ráðuneytisins að það geri viðeigandi ráðstafanir til að endurskoða þá framkvæmd við úthlutun tollkvóta sem fjallað hefur verið í þessu áliti og hafi þá þau sjónarmið sem hér hafa verið rakin í huga í störfum sínum. Það verður aftur á móti að vera hlutverk dómstóla að fjalla um réttarúrræði innflutningsaðila eða annarra sem kunna að eiga lögvarða hagsmuni af ákvörðunum ráðuneytisins sem fjallað er um í þessu áliti.

Undirritaður hefur fjallað um mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

Róbert R. Spanó.

VI. Viðbrögð stjórnvalda.

Í svarbréfi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, dags. 27. mars 2014, í tilefni af fyrirspurn minni um málið segir m.a.:

„Í desember 2013 úthlutaði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tollkvótum vegna innflutnings á fuglseggjum og afurðum þeirra, sbr. reglugerð nr. 1185/2013. Við úthlutun var ekki gerður greinarmunur á tilteknum undirtegundum eggja. Tollkvótum var úthlutað í janúar 2014 fyrir tímabilið janúar – júní 2014. Ráðuneytið hefur þannig brugðist við tilmælum setts umboðsmanns Alþingis. Þá hefur ráðuneytið farið yfir þau sjónarmið sem rakin eru í álitinu og mun framvegis hafa þau í huga í störfum sínum.“