Skipulags- og byggingarmál. Skipulagsmál.

(Mál nr. 6853/2012)

Íbúar í Staðahverfi í Reykjavík kvörtuðu yfir sameiningu tveggja grunnskóla í Grafarvogi og töldu hana brjóta gegn skipulagsskilmálum þar sem nemendur þriggja efstu bekkja grunnskóla í hverfinu þyrftu að sækja skóla í Víkurhverfi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 13. desember 2012.

Við meðferð málsins hjá umboðsmanni kom í ljós mismunandi afstaða Skipulagsstofnunar og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins til þess hvort breyting á deiliskipulagi hefði verið nauðsynlegur undanfari þess að grunnskóli Staðahverfis skyldi aðeins þjónusta tiltekinn aldurshóp en ekki allt grunnskólastigið. Ráðuneytið taldi slíkt hafa verið nauðsynlegt þar sem ekki væri tekið fram í greinargerð með deiliskipulagi að grunnskólinn væri aðeins ætlaður fyrir afmarkaðan hóp grunnskólabarna. Umboðsmaður lauk málinu þar sem hann taldi rétt að íbúarnir freistuðu þess að leita til innanríkisráðuneytisins sem ráðuneytis sveitarstjórnarmála áður en hann fjallaði um málið. Þar sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið fer með skipulagsmál og almennar yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir innan málaflokksins taldi umboðsmaður hins vegar rétt að óska eftir upplýsingum um það hvort ráðuneytið hefði eða áformaði að bregðast við í tilefni af vitneskju þess um atvik í málinu gagnvart Reykjavíkurborg og/eða Skipulagsstofnun.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 28. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 5. gr., 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.

2010, nr. 123. Skipulagslög.

2011, nr. 138. Sveitarstjórnarlög. - 2. gr., 109. gr., 111. gr., 112. gr.

2012, nr. 100. Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. - 1. tölul. J-liðar 4. gr.