Fangelsismál. Reynslulausn.

(Mál nr. 7239/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis óskað eftir því að sér yrði veitt reynslulausn úr fangelsi að liðnum helmingi refsivistar. A gerði einnig athugasemdir við framkomu lögreglu, dómstóla, fangelsismálastofnunar, fangavarða og fleiri opinberra aðila gagnvart sér.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. nóvember 2012.

Umboðsmaður benti A á að óskum um um reynslulausn bæri að beina til fangelsismálastofnunar og að ákvörðun hennar væri kæranleg til innanríkisráðuneytisins. Af erindi A varð ráðið að fangelsismálastofnun hefði ekki enn tekið afstöðu til beiðni hans en að öðru leyti var óljóst að hvaða marki hann hefði leitað mál sín til fangelsismálayfirvalda eða lögregluyfirvalda. Umboðsmaður benti A því á að þar sem innanríkisráðuneytið færi með yfirstjórn fangelsismála og lögreglumála á landinu væri almennt hægt að leita til ráðuneytisins vegna ákvarðana eða athafna fangelsismálayfirvalda og lögreglu. Þar sem A hafði ekki nýtt sér tiltækar leiðir innan stjórnsýslunnar taldi umboðsmaður sér ekki unnt að taka málið til athugunar að svo stöddu og lauk meðferð þess. Hann tók hins vegar fram að ef A teldi sig enn rangindum beittan að fenginni úrlausn fangelsismálastofnunar og eftir atvikum innanríkisráðuneytisins gæti hann leitað til sín að nýju. Þá gæti hann jafnframt leitað til sín með sérstaka kvörtun ef dráttur yrði á svörum fangelsismálastofnunar við erindi hans.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 26. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr.

2005, nr. 49. Lög um fullnustu refsinga. - 63. gr.

2012, nr. 100. Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. - B. liður 4. gr. f.