Félagsþjónusta sveitarfélaga. Fjárhagsaðstoð.

(Mál nr. 7093/2012)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar félagsþjónustu í máli vegna ákvörðunar sveitarfélags um að greiða ekki til baka framfærslustyrk sem A hafði endurgreitt eftir að Tryggingastofnun ríkisins samþykkti umsókn hennar um örorkulífeyri og ákvörðun nefndarinnar um að synja beiðni um endurupptöku málsins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 5. nóvember 2012.

Í tilefni af kvörtuninni óskaði umboðsmaður eftir rökstuddri afstöðu úrskurðarnefndarinnar til þess hvort og þá hvernig það samrýmdist úrskurðarskyldu nefndarinnar að fjalla ekki efnislega um það hvort þær röksemdir sem sveitarfélagið hefði fært fram fyrir ákvörðun sinni í máli A eftir að nefndin kvað upp úrskurð í málinu væru í samræmi við lög og þágildandi reglur sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð. Í svörum nefndarinnar til umboðsmanns kom fram að nefndin hygðist taka málið til nýrrar athugunar. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna málsins að svo stöddu og lét athugun sinni á því lokið. Hann tók þó fram að ef A teldi sig enn beitta rangsleitni að fenginni nýrri niðurstöðu nefndarinnar gæti hún að sjálfsögðu leitað til sín á ný vegna þess.

1991, nr. 40. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. - 64. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - a-liður 2. mgr. 10. gr.