Fjármála- og tryggingastarfsemi. Tryggingar.

(Mál nr. 7221/2012)

A kvartaði yfir því að ekki væru til úrræði vegna tjóns af myglusveppi í íbúðarhúsum. Í erindinu kom jafnframt fram óánægja A með það mat sveitarfélags að það að standa undir afborgunum af húsi sem eyðilagðist vegna myglusvepps, greiða húsaleigu fyrir annað húsnæði og byggja nýtt hús á grunni þess sem eyðilagðist teldist ekki til „þungrar framfærslubyrði“ í skilningi laga sem mæla er fyrir um skyldur sveitarfélaga til að tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 5. nóvember 2012.

Í erindi A kom ekki fram hvort að hún hefði leitað til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála vegna afstöðu sveitarfélagsins og hvort úrlausnir stjórnvalda í málum hennar hefðu verið teknar innan árs frá því að kvörtunin var lögð fram. Umboðsmaður taldi því ekki rétt að fjalla frekar um þann þátt kvörtunarinnar að svo stöddu en tók fram að ef A hefði leitað til nefndarinnar og niðurstaða hennar væri innan ársfrestsins gæti hún leitað til sín á ný vegna þeirrar niðurstöðu. Þá taldi umboðsmaður það falla utan starfssviðs síns að lýsa afstöðu sinni til þess hvort eðlilegt væri að kveða á um skyldutryggingu vegna tjóns af völdum myglusvepps í lögum. Því voru ekki skilyrði til að taka erindið til frekari meðferðar.

1991, nr. 40. Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. - 45. gr., 63. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 2. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.