Fjármála- og tryggingastarfsemi.

(Mál nr. 7223/2012)

A lagði fram kvörtun sem beindist að Alþingi og laut að málefnum fólks með svokölluð lánsveð, þ.e. þess hóps fólk sem tók lán með veði í eigu þriðja manns til að fjármagna fasteignakaup. A óskaði upplýsinga um hvar það mál væri statt.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi. 7. nóvember 2012.

Umboðsmaður lagði þann skilning í erindið að það lyti að aðgerðum sem kynnu að vera fyrirhugaðar af hálfu Alþingis varðandi málefni fólks með lánsveð. Umboðsmaður vakti því athygli A á því að samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væru ekki skilyrði að lögum til að hann gæti tekið kvörtunina til frekari meðferðar. Hann greindi A hins vegar frá því að í fjölmiðlum hefði verið fjallað um vinnu innan atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins um stöðu hópsins. Hann benti henni því á að freista þess að beina fyrirspurn til ráðuneytisins og óska eftir upplýsingum um hvort og þá hvaða vinna færi þar fram vegna málsins. Yrði hún ósátt við svör ráðuneytisins, og eftir atvikum annarra stjórnvalda, kynni henni að vera fært, að öðrum skilyrðum uppfylltum, að leita til sín að nýju með sérstaka kvörtun.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - a-liður 3. mgr. 3. gr., 1. mgr. 10. gr.