Fjölmiðlun.

(Mál nr. 7255/2012)

A kvartaði yfir því að útsendingar Ríkisútvarpsins um breiðbandið hefðu verið stöðvaðar og honum boðið að kaupa þjónustu Símans til þess að ná sendingum Ríkisútvarpsins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. nóvember 2012.

Umboðsmaður skildi kvörtunina á þann veg að A gerði athugasemdir við lögmæti þess að til þess að ná sjónvarpssendingum sem greiddar væru af skattfé þyrfti sérstakan móttökubúnað sem greiða þyrfti fyrir. Hann tók því fram að þrátt fyrir að dreifing sjónvarpsefnis teldist til lögbundins hlutverks Ríkisútvarpsins ohf. fékk umboðsmaður ekki séð að það leiddi af lögum að því bæri að útvega notendum nauðsynlegan búnað til að taka við sjónvarpssendingum og þar með að innheimta ríkisins á lögbundnu útvarpsgjaldi hefði þýðingu í því sambandi. Umboðsmaður taldi því að kvörtunin gæfi ekki tilefni til frekari athugunar og lauk því.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 1. mgr. 10. gr.

2007, nr. 6. Lög um Ríkisútvarpið ohf. - 3. gr.