Hugverkaréttindi.

(Mál nr. 7238/2012)

A óskaði eftir mati umboðsmanns Alþingis á því hvort Fjölís, hagsmunafélag samtaka rétthafa, félli undir stjórnsýslueftirlit umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. nóvember 2012.

Í erindi A kom ekki fram af hvaða tilefni hann óskaði álits umboðsmanns, s.s. hvort fyrirspurnin tengdist hagsmunum hans með einhverjum hætti. Umboðsmaður tók því fram að ekki væri hægt að beina til almennum fyrirspurnum til sín án þess að fyrir lægi ákveðin ákvörðun eða athöfn stjórnvalds eða einkaaðila sem kvörtun beindist að. Hann benti A hins vegar á tiltekin ákvæði höfundalaga þar sem fjallað er um hlutverk höfundarréttarsamtaka sem hafa fengið lögformlega viðurkenningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins og samþykktir Fjölís þar sem fjallað er um úrlausn tiltekinna ágreiningsmála. Þar sem erindi A fylgdu ekki nánari upplýsingar um málavexti eða gögn taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla frekar um málið að svo stöddu. Umboðsmaður tók þó fram að ef A leitaði til sín á nýjan leik og varpaði nánara ljósi á erindið og hagsmuni sína af því yðar myndi hann taka afstöðu til þess hvort kvörtunin félli undir starfssvið umboðsmanns. Þá benti hann A á að þar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið færi með höfundarréttarmál kynni að vera ástæða til að leita fyrst til ráðuneytisins með erindi.

1972, nr. 73. Höfundalög - 15. gr. a

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 3. gr., 4. gr., 3. mgr. 6. gr.