Húsnæðismál. Íbúðalánasjóður.

(Mál nr. 7231/2012)

A og B kvörtuðu yfir annars vegar ástandi leiguhúsnæðis sem þeir leigðu af Íbúðalánasjóði og hins vegar yfir samskiptum sínum við fasteignasölu vegna sölu á fasteign.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 30. nóvember 2012.

A kvörtuninni varð ekki ráðið að A og B hefðu óskað formlega eftir því við Íbúðalánasjóð að brugðist yrði við athugasemdum sem heilbrigðiseftirlit sveitarfélags gerði við skoðun á íbúðinni. Umboðsmaður taldi að afstaða sjóðsins til lagfæringa á húsnæðinu yrði að liggja fyrir áður en hægt væri að leita til sín vegna málsins. Þá benti hann A og B á að ef sjóðurinn yrði ekki við beiðni um úrbætur gætu þeir skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála.

Af þeim gögnum málsins sem vörðuðu sölu fasteignar varð ráðið að eftirlitsnefnd félags fasteignasala hefði sent málið til lögreglu. Kvörtun A og B beindist hins vegar ekki að málsmeðferð nefndarinnar eða lögreglu heldur að fasteignasölunni sem annaðist sölu fasteignarinnar. Þar sem starfsemi fasteignasala fellur utan starfssviðs umboðsmanns var honum ekki unnt að taka athafnir fasteignasölunnar til athugunar.

Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að ef A og B teldu sig enn beitta rangindum að fenginni afstöðu Íbúðalánasjóðs og eftir atvikum úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála til lagfæringa á leiguíbúðinni gætu þeir leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 1. mgr. 3. gr., 2. mgr. 3. gr., 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.

1998, nr. 44. Húsnæðismál. - 9. gr., 42. gr.

2002, nr. 941. Reglugerð um hollustuhætti.

2004, nr. 99. Lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa. - 6. mgr. 21. gr., 19. gr.

2010, nr. 7. Reglugerð um útleigu uppboðsíbúða Íbúðalánasjóðs