Lífeyrismál.

(Mál nr. 7106/2012)

A, B og C kvörtuðu yfir ákvörðun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) um að synja beiðni þeirra um endurreikning á lífeyrisgreiðslum sem ákveðnar voru í framhaldi af almennum úrskurði kjararáðs. A, B og C tóku lífeyri eftir svokallaðri eftirmannsreglu sem miðaðist við að greiðslur úr sjóðnum breyttust til samræmis við breytingar á launum sem á hverjum tíma væru greidd fyrir það starf sem viðkomandi gegndi síðast. Með umræddum úrskurði kjararáðs voru mánaðarlaun starfshópsins sem þeir höfðu tilheyrt lækkuð. Í svari LSR kom fram að ekki væri lagaheimild til að koma til móts við beiðnina.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 5. nóvember 2012.

Bæði úrskurður kjararáðs og málsmeðferð og ákvörðun LSR síðar sama ár um að lækka lífeyrisgreiðslurnar komu ekki til endurskoðunar hjá umboðsmanni vegna þess að þær ákvarðanir voru teknar meira en ári áður en kvörtunin barst. Athugun hans var því afmörkuð við ákvörðun LSR um að synja beiðni A, B og C um endurreikning greiðslnanna. Umboðsmaður rakti lagagrundvöll málsins og tók fram að sérstök lagaheimild til að ákveða viðmiðunarlaun ætti aðeins við þegar ekki lægi fyrir launaviðmið samkvæmt kjarasamningi eða ákvörðun kjararáðs. Það ætti ekki við í málinu. Þá væri óheimilt samkvæmt samþykktum LSR, sem settar væru með stoð í lögum, að víkja tímabundið frá eftirmannsreglunni eins og þeir hefðu óskað eftir. Umboðsmaður fékk því ekki séð að A, B og C ættu kröfu um að komið yrði til móts við óskir þeirra um leiðréttingu á grundvelli laga eða samþykkta sjóðsins. Að því virtu fékk umboðsmaður ekki annað séð en að ákvörðun stjórnar LSR hefði verið í samræmi við lög. Umboðsmaður tók jafnframt fram að það yrði að vera verkefni dómstóla að taka afstöðu til þess hvort A, B og C ættu kröfu á LSR eða íslenska ríkið um bætur vegna lækkunarinnar á grundvelli verndar eignarréttinda samkvæmt stjórnarskrá. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákveð þó að rita stjórn LSR bréf þar sem hann áréttaði þá afstöðu sína að með vald sjóðsins til að taka ákvarðanir um rétt sjóðsfélaga til lífeyris væri opinbert vald til töku stjórnvaldsákvörðunar. Því hefði borið að leiðbeina málsaðilum um heimild þeirra til að fá ákvörðunina rökstuddi. Umboðsmaður taldi birtingu ákvörðunarinnar hafa verið áfátt i þessu tilliti og mæltist til þess að sjónarmið þar að lútandi yrðu framvegis höfð í huga.

1997, nr. 1. Lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 2. mgr. 6. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.