Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 6984/2012)

A kvartaði yfir ráðningu í starf lögfræðings hjá Umhverfisstofnun.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 30. nóvember 2012.

Í starfsauglýsingu var gerð krafa um kanditatspróf eða BA og meistarapróf í lögfræði, þekkingu á innlendri löggjöf og þjóðréttarlegum samningum á þeim sviðum sem heyra undir Umhverfisstofnun, þekkingu á almennum umhverfisrétti, þekkingu og/eða reynslu af opinberri stjórnsýslu, kunnáttu í íslensku, ensku og þekkingu á Norðurlandamáli og samstarfshæfni og lipurð í mannlegum samskiptum. Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við val Umhverfisstofnunar á hæfniskröfum og sjónarmiðum sem fram komu í auglýsingu starfsins enda taldi hann þau málefnaleg, meðal annars þegar litið væri til eðli starfsins. Þá taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að Umhverfisstofnunar hefði léð sjónarmiðum um þekkingu á umhverfisrétti og starfsreynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu sérstakt vægi við töku ákvörðunar um ráðningu í starfið, enda taldi hann þau samrýmast lýsingu á starfinu sem kom fram í auglýsingunni. Þótt fallast mætti á að A hefði fleiri prófgráður að baki en umsækjandinn sem hlaut starfið taldi umboðsmaður sig jafnframt ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat Umhverfisstofnunar að menntun þess sem var ráðinn og þau námskeið sem hann lauk í námi sínu nýttust vel í starfi lögfræðings hjá Umhverfisstofnun. Í því sambandi benti umboðsmaður á að niðurstaða um hver hefði bestu menntunina þegar valið væri á milli umsækjenda um opinbert starf gæti eftir atvikum ráðist af fleiri þáttum heldur en fjölda prófgráða sem umsækjendur hefðu aflað sér. Skipti í þessu sambandi mestu máli hvort og þá hvernig sú menntun sem umsækjandi hefði aflað sér yrði talin gera hann hæfari til að sinna því starfi sem um ræddi hverju sinni.

Vegna athugasemda A um að Umhverfisstofnun hefði ekki rannsakað nægilegu stöðu umsækjenda tók umboðsmaður fram framsetning starfsauglýsingarinnar hefði átt að gefa A fullt tilefni til að koma ítarlegum upplýsingum um þekkingu sína á umhverfisrétti á framfæri í starfsumsókn, þ.á m. upplýsingum um þau námskeið sem hann hefði tekið á sviðinu. Þá hefði ákvörðun um boðun umsækjenda í viðtöl og um ráðningu í starfið einnig byggst á hagnýtri starfsreynslu umsækjenda af opinberri stjórnsýslu, en af umsóknargögnum A yrði ekki séð að hann hefði haft starfsreynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu. Að öllu virtu taldi umboðsmaður ekki forsendur til að gera athugasemdir við efnislegt mat Umhverfisstofnunar og samanburð á hæfni A og þess umsækjanda sem ráðinn var í starfið.

Vegna athugasemda A við að meiri hluti starfsmanna umrædds sviðs Umhverfisstofnunar væru konur benti umboðsmaður að lokum á að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, gerðu ráð fyrir að sérhæft stjórnvald, kærunefnd jafnréttismála, úrskurðaði um hvort ákvæði laganna hefðu verið brotin. Umboðsmaður taldi því ekki uppfyllt skilyrði laga til að fjalla nánar um þennan þátt kvörtunarinnar. Hann tók þó fram að ef A freistaði þess að bera málið undir kærunefndina gæti hann leitað til sín að nýju að fenginni niðurstöðu hennar.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.

2008, nr. 10. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.