Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 7099/2012)

A kvartaði yfir málsmeðferð innanríkisráðuneytisins vegna skipunar í embætti vararíkissaksóknara.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 30. nóvember 2012.

Umboðsmaður fékk ekki annað séð en að upplýsingar um tiltekna persónulega eiginleika þess sem hlaut starfið, hefðu legið fyrir hjá hæfnisnefnd og innanríkisráðuneyti áður en ákvörðun var tekin um skipun í embættið og að þær hefðu átt að vera nægjanlegar til þess að unnt væri að leggja mat á þá eiginleika, en það var einn matsþáttur af mörgum. Í ljósi þess taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að telja að brotið hefði verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga, en kvörtun A beindist eingöngu að því. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til þess að fjalla sérstaklega um hvernig nefndin og ráðherra höguðu mati sínu á því atriði eða öðrum atriðum við málsmeðferðina og mati á umsækjendum að öðru leyti.

Vegna þeirrar athugasemdar A að borið hefði að skipa hana í embættið þar sem færri konur væru í sambærilegum störfum og þeirrar afstöðu hennar að litið hefði verið fram hjá sér við skipun í stöðuna vegna kynferðis hennar benti umboðsmaður að lokum á að lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, gerðu ráð fyrir að sérhæft stjórnvald, kærunefnd jafnréttismála, úrskurðaði um hvort ákvæði laganna hefðu verið brotin. Þar sem málið var ekki borið undir lögboðinn úrskurðaraðila innan kærufrests taldi umboðsmaður því ekki uppfyllt skilyrði laga til umfjöllunar um þennan þátt kvörtunarinnar. Að lokum kom fram í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins að beiðni A um aðgang að gögnum ráðningarmálsins hefði nú verið afgreidd en vegna mikilla anna í ráðuneytinu hafi ekki tekist að ljúka afgreiðslu þess á áætluðum tíma. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna þess. Með vísan til alls þessa og í ljósi efnis kvörtunarinnar umboðsmaður umfjöllun um málið.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 10. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.

2008, nr. 10. Lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.