Ríkisendurskoðun.

(Mál nr. 7232/2012)

A gerði athugasemdir við ráðningu ríkisendurskoðanda og aðgerðarleysi hans í sambandi við stöðu ríkissjóðs. Þá gerði hann athugasemdir við kröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur sér um endurgreiðslu ofgreiddra bóta fyrir árið 2011.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. nóvember 2012.

Þar sem Ríkisendurskoðun er stofnun á vegum Alþingis féll utan starfsviðs umboðsmanns að fjalla um starfsemi Ríkisendurskoðunar og ráðningu ríkisendurskoðanda og störf hans. Af erindi A varð enn fremur ekki ljóst hvort hann hefði endurskoðun á kröfu TR um endurgreiðslu bóta. Umboðsmaður benti honum því að að heimilt væri að skjóta ákvörðun tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar almannatrygginga og að það væri skilyrði fyrir því að hann gæti tekið mál til frekari skoðunar. Umboðsmaður taldi sér ekki fært að taka erindið til frekari skoðunar að svo stöddu og lauk því málinu. Hann benti A hins vegar á að ef hann kysi að fara að leita til úrskurðarnefndar almannatrygginga og teldi sig enn rangindum beittan að fenginni úrlausn hennar gæti hann leitað til sín að nýju. Þá gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun ef dráttur yrði á meðferð nefndarinnar á máli hans.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 3. gr., 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.

1997, nr. 86. Lög um Ríkisendurskoðun. - 1. gr., 2. gr.