Skattar og gjöld.

(Mál nr. 7263/2012)

A hf. kvartaði yfir töku gestagjalda vegna köfunar og yfirborðsköfunar í Silfru á Þingvöllum. A hf. taldi gjaldtökuna skorta lagastoð og fela í sér skattheimtu þar sem sérgreind þjónusta væri ekki veitt á móti gjaldinu og því uppfyllti það ekki reglur um þjónustugjöld. A hf. gerði jafnframt athugasemdir við kostnaðarliði sem lágu til grundvallar gjaldinu og taldi gjaldtökuna ekki standast jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og eignarréttarákvæði stjórnarskrár, sbr. jafnræðisreglu hennar, þar sem innan þjóðgarðsins hefði verið ráðist í margskonar uppbyggingu af svipuðum toga og reyndi á í málinu án gjaldtöku.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. nóvember 2012.

Þar sem forsætisráðuneytið fer með yfirstjórn mála er varða þjóðgarðinn á Þingvöllum og staðfesti reglur Þingvallanefndar um töku gjaldsins taldi umboðsmaður rétt að A hf. freistaði þess að bera athugasemdir sínar undir forsætisráðuneytið. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um málið en tók fram að félagið gæti leitað til sín að nýju yrði það ósátt við úrlausn forsætisráðuneytisins og teldi sig beitt rangindum.

1944, nr. 33. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. - 65. gr., 75. gr.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 11. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., 1. mgr. 10. gr.

2004, nr. 47. Lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum. - 3. mgr. 2. gr., 1. mgr. 7. gr.

2005, nr. 848. Reglugerð um þjóðgarðinn á Þingvöllum, verndun hans og meðferð - 2. gr., e-liður 6. gr.

2012, nr. 100/2012. Forsetaúrskurður um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. - 10. tölul. 1. gr.

2013, nr. 184. Auglýsing um staðfestingu reglna um gestagjöld vegna köfunar og fyrir yfirborðsköfun í Silfru innan þjóðgarðsins á Þingvöllum.