Svör við erindum. Kvatanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 7190/2012)

Hinn 5. október 2012 kvartaði A yfir því að mennta- og menningarmálaráðuneytið hefði ekki kveðið upp úrskurð í tilefni af stjórnsýslukæru, dags. 15. maí 2012, sem laut að inntökuskilyrðum í sérskóla.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með 7. nóvember 2012.

Í skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins 1. nóvember 2012 ráðgert væri að úrskurða í málinu „á næstunni“. Í ljósi þeirrar fyrirætlunar taldi umboðsmaður ekki rétt að hafa frekari afskipti af málinu að svo stöddu og lét umfjöllun sinni um það lokið. Hann tók hins vegar fram að stæðist fyrirætlun ráðuneytisins ekki og frekari tafir yrðu á málinu væri A að sjálfsögðu heimilt að leita til sín á ný. Jafnframt gæti hann leitað til sín ef hann teldi barns sitt beitt rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins í málinu. Þá ritaði umboðsmaður ráðuneytinu bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að rúmur mánuður hefði liðið frá því að greinargerð sem óskað var eftir í málinu barst ráðuneytinu þar til hún var send A til umsagnar. Þá lá fyrir að umsagnar skólayfirvalda í heimasveitarfélagi A var fyrst aflað tæpum fjórum mánuðum eftir að stjórnsýslukæra A var móttekin. Umboðsmaður taldi að málsmeðferð ráðuneytisins hefði að þessu leyti ekki verið í nægilega góðu samræmi við málshraðareglu stjórnsýslulaga og kom þeirri ábendingu á framfæri við ráðuneytið að gæta framvegis betur að verklagi sínu við meðferð sambærilegra mála. Í því sambandi minni umboðsmaður á að málið varðaði inntökuskilyrði í skóla og að A hefði lýst þeirri skoðun sinni að hann teldi mikilvægt að leysa úr málinu fyrir upphaf skólaársins 2012/2013. Þar sem ekki var ljóst hvort A hefði verið tilkynnt um tafir málsins þegar þær voru orðnar fyrirsjáanlegar minnti umboðsmaður jafnframt að slíkt bæri að gera og að þá yrði að koma fram nákvæmari upplýsingar um áætlaðan afgreiðslutíma en að úrskurður yrði kveðinn upp „á næstunni“.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 1. mgr. 9. gr., 2. mgr. 9. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 1. mgr. 10. gr.