Svör við erindum. Rökstuðningur eða skýringar.

(Mál nr. 7218/2012)

Hinn 17. október 2012 kvartaði A yfir úrskurði ríkisskattstjóra um að hafna breytingu á skattframtali vegna ofgreiddra bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann kvartaði einnig yfir því að hafa ekki borist svör við erindi til TR frá 29. ágúst 2012 vegna synjunar á umsókn um bifreiðastyrk.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. nóvember 2012.

Af erindi A varð ekki ráðið að hann hefði freistað þess að bera kæruúrskurð ríkisskattstjóra frá undir yfirskattanefnd. Umboðsmaður taldi því bresta lagaskilyrði til að geta fjallað um úrskurðinn. Hann tók hins vegar fram að ef A teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu yfirskattanefndar ætti hann þess að sjálfsögðu kost að leita til sín á nýjan leik með kvörtun. Í skýringum TR vegna þess þáttar kvörtunarinnar sem varðaði afgreiðslu erindis um bifreiðastyrk kom fram að erindi A hefði mislagst við móttöku þess. Því hefði hins vegar verið svarað um leið og það varð ljóst, eða 21. nóvember 2012, og beðist velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefði. Þar sem þessi hluti kvörtunarinnar laut að málshraða taldi umboðsmaður ekki ástæðu til þess að aðhafast frekar í málinu að svo stöddu.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.

2003, nr. 90. Lög um tekjuskatt. - 99. gr.