Svör við erindum.

(Mál nr. 7227/2012)

Hinn 24. október 2012 kvörtuðu félagasamtökin A yfir því að utanríkisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið og velferðarráðuneytið hefðu ekki svarað erindi frá 10. ágúst 2012 um greiðslu tryggingagjalds íslenskra starfsmanna erlendra sendiráða á Íslandi. Erindið var ítrekað 14. september 2012.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 28. nóvember 2012.

Í skýringum ráðuneytanna til umboðsmanns vegna málsins kom fram að utanríkisráðuneytið hefði svarað erindinu 8. nóvember 2012 og fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði svarað erindinu 31. október 2012. Þá kom fram að þar sem lög um tryggingagjald væru á forræði fjármála- og efnahagsráðuneytisins hefði velferðarráðuneytið haft samband við það vegna málsins 27. ágúst 2012 og orðið hefði að samkomulagi að fyrrnefnda ráðuneytið myndi svara erindinu fyrir hönd stjórnvalda. Hins vegar hefði láðst að upplýsa A um það. Þar sem svörin höfðu borist taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu og lauk því.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - a-liður 2. mgr. 10. gr.