Svör við erindum.

(Mál nr. 7252/2012)

A kvartaði yfir því að almennt hefðu stjórnvöld lélega yfirsýn yfir mál sem bíða og skorti á vilja eða getu til að rækja tilkynningarskyldu samkvæmt stjórnsýslulögum þegar fyrirséð er að tafir verði á afgreiðslu mála. A tók fram að fyrir tveimur mánuðum hefði hann sent erindi á öll sveitarfélög og hreppi í landinu en lítil viðbrögð fengið.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 30. nóvember 2012.

Umboðsmaður skildi erindið á þá leið að óskað væri eftir athugun að eigin frumkvæði umboðsmanns á því hvernig sveitarfélög og ráðuneyti tryggi að þessari tilkynningarskyldu sé sinnt. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til þess að svo stöddu en benti A á að árið 2006 hefði hann lokið athugun sem beindist að skráningu og afgreiðslu mála hjá 32 stjórnvöldum. (Sjá mál nr. 3566/2002.) Sama ár hefði hann lokið athugun á afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda og þar væri m.a. fjallað um tilkynningar um tafir. (Sjá mál nr. 4193/2004.) Einnig er unnt að kynna sér það nánar á heimasíðu minni. Umboðsmaður lauk athugun sinni á erindi A og tók að lokum fram að hann gæti leitað til sín með sérstaka kvörtun vegna þeirra stjórnvalda sem hefðu ekki svarað erindum hans.

1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 3. mgr. 9. gr.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 4. gr., 5. gr.