Útlendingar. Hælisumsókn.

(Mál nr. 7205/2012)

A, hælisleitandi, leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun yfir því að hafa ekki fengið upplýsingar um hvar vegabréf hans væri niðurkomið. Hjá Útlendingastofnun hefði hann fengið þær upplýsingar að vegabréfið væri hjá lögreglu en þar hefði hann ekki fengið neinar upplýsingar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 7. nóvember 2012.

Í skýringum Útlendingastofnunar til umboðsmanns vegna málsins kom fram að ákveðið hefði verið að senda A til Sviss á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Í framhaldi af því hefði hann verið sendur þangað og vegabréf hans afhent þarlendum yfirvöldum. Það sem vegabréfið var ekki lengur í höndum íslenskra stjórnvalda gat umboðsmaður ekki aðhafst vegna málsins. Þá leiðbeindi hann A um að ef kvörtunin beindist jafnframt að þeirri ákvörðun Útlendingastofnunar að hælisumsókn hans skyldi sæta meðferð í Sviss en ekki á Íslandi yrði hann að kæra hana til innanríkisráðherra áður en hann gæti lagt fram kvörtun hjá sér vegna málsins.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - a-liður 2. mgr. 10. gr.