Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 7057/2012)

A kvartaði yfir því að hafa ekki fengið afhent gögn í sakamáli sem beindist að honum en var lokið. A taldi að erlend yfirvöld hefðu aflað umræddra gagna að beiðni íslenskra stjórnvalda í tengslum við rannsókn málsins, en þau voru ekki á meðal þeirra gagna sem verjanda A voru látin í té við rannsóknina og meðferð málsins fyrir dómi. A óskaði eftir aðgangi að gögnunum hjá lögreglu sem taldi sig þegar hafa afhent honum afrit af öllum gögnum sem vörðuðu sakir bornar á hann. Ríkissaksóknari taldi ekki ástæðu til að endurskoða þá ákvörðun.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 7. desember 2012.

Í bréfi ríkissaksóknara til umboðsmanns vegna málsins kom fram embættið væri reiðubúið að afla upplýsinga frá hinum erlendu yfirvöldum um hvort í tilgreindum skjalamöppum væri að finna gögn sem ekki hefðu verið send íslenskum lögregluyfirvöldum og ef svo væri hvaða gögn væri um að ræða. Í ljósi þess taldi umboðsmaður rétt að A beindi formlegu erindi til ríkissaksóknara að nýju vegna afhendingar gagnanna og lauk málinu. Hann tók hins vegar fram að ef A teldi sig enn beittan rangindum vegna afgreiðslu eða málsmeðferðar ríkissaksóknara gæti hann leitað til sín á nýjan leik.

1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - 3. mgr. 6. gr., a-liður 2. mgr. 10. gr.

2008, nr. 88. Lög um meðferð sakamála. - 37. gr.